17.05.1927
Neðri deild: 77. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2262 í B-deild Alþingistíðinda. (1752)

18. mál, laun skipherra og skipverja á varðeimskipum ríkisins

Ólafur Thors:

Þótt jeg sje frv. fylgjandi, hefi jeg látið það afskiftalaust, vegna þess að mjer hefir ekki fundist skorta rök þeirra manna, sem bera það fyrir brjósti. Að jeg nú vil gera örlitla athugasemd, er aðeins fyrir margítrekaðar fullyrðingar háttv. 4. þm. Reykv. (HjV). Hann heldur því fram, að ef frv. verði samþykt, verði það til þess að lækka kaup sjómanna yfirleitt. Hann mun aðallega hafa haft þar í huga sjómenn þá, sem vinna hjá Eimskipafjelagi Íslands og togarafjelögunum, og ef svo er, vinna langflestir þeirra manna, sem um ræðir, á togurunum.

Jeg hefi þann heiður að vera formaður fjelags íslenskra botnvörpuskipaeigenda og jeg leyfi mjer að lýsa yfir því í nafni fjelagsins, að það mun aldrei hagnýta sjer þetta frv., þótt að lögum verði, til þess að lækka kaup sjómanna. Okkur útgerðarmönnum er það ljóst, að hjer er alt öðru máli að gegna, og það væri í alla staði ósanngjarnt af okkur að jafna okkar mönnum við starfsmenn varðskipanna, því að starf þeirra er annað og meira en á varðskipunum. Vænti jeg þess, að hv. 4. þm. Reykv. láti þessa yfirlýsingu mína valda því, að hann geti sætt sig við frv. og greiði því atkv.