18.05.1927
Neðri deild: 81. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2267 í B-deild Alþingistíðinda. (1757)

18. mál, laun skipherra og skipverja á varðeimskipum ríkisins

Hákon Kristófersson:

Jeg skal ekki tefja umr. til neinna muna. Jeg gat þess í gær, er frv. var til 2. umr., að jeg mundi bera fram brtt. Það hefi jeg gert, og eru þær á þskj. 628. Eins og þær bera með sjer, fara þær allar eða flestar í sömu átt: að hækka laun viðkomandi starfsmanna á varðskipum ríkisins. Hefi jeg með þeim viljað nálgast þau laun, sem greidd eru fyrir hliðstæðan starfa á öðrum skipum hjer innanlands. Þó eru sumar mínar till. talsvert fyrir neðan það, sem venja er að greiða fyrir hliðstæðan starfa á öðrum skipum.

Annars tala þessar tölur sínu máli betur en jeg mundi gera, og verða því hv. þdm. að gera upp með sjálfum sjer, hvort þær eru á rökum bygðar.

Grundvallarbreytingin í mínum till. er aðallega sú, að byrjunarlaunin hækki, og ætlast jeg til, að núverandi skipstjórar varðskipanna falli undir það ákvæði.

Til frekari skýringar skal jeg taka það fram, að um laun 1. vjelstjóra er hjer farið eftir skýrslum frá Vjelstjórafjelaginu, sem stjórn þess ljet mjer góðfúslega í tje.

Þó að með rjettu megi segja, að þessar till. mínar sjeu ekki til að spara fje ríkissjóðs og þó að jeg telji viðleitni stjórnarflokksins lofsverða hvað það snertir að draga úr gjöldum ríkisins, þá verður þó sá sparnaður að vera rjettlátur og á rökum bygður. Hvað viðkemur launum þessara manna, þá finst mjer, að hæstv. stjórn hafi numið þau of við neglur sjer og ekki gætt fullkomins rjettlætis, miðað við þau laun, sem greidd eru öðrum fyrir hliðstæðan starfa.

Annars læt jeg mjer þetta nægja, enda fáir orðnir eftir í deildinni til þess að hlusta á mál mitt.