01.04.1927
Efri deild: 42. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2287 í B-deild Alþingistíðinda. (1776)

19. mál, varðskip ríkisins

Atv.- og dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Það, sem hv. þm. finst verst við þetta frv., er það, að skipverjar eigi að vera sýslunarmenn ríkisins. En hann kemur ekki fram með neinar mótbárur aðrar en þær, að þetta sje hjegómi. En mig grunar, að hjer liggi fiskur undir steini og að hv. þm. hafi eitthvað fleira við málið að athuga, sem hann vill ekki út með. Raunar er hann annað veifið hræddur um, að um sjóher sje að ræða, og þykir það óttalegt. En það er misskilningur. Jeg vil minna háttv. þm. á það, að hans góði flokksbróðir, hermálaráðherrann danski, kom hingað í sumar á stóru og miklu herskipi og fanst það ekkert ósæmilegt. Jeg hugsa, að ef hv. 5. landsk. verður ráðherra seinna meir, vilji hann feta í fótspor síns danska kollega og dubba upp á sjóher.

Annars er andstaða hv. þm. svo utan garna, að jeg get varla verið að svara honum. Hann spáir því, að fólkið sópist af skipunum. Það væri verst fyrir það opinbera. En jeg hugsa, að mönnum þætti það ekki einskis virði að hafa trygga stöðu.

Út af orðum hv. þm. um nauðsyn þess að segja ósannanlega hluti í skjóli þinghelginnar, vil jeg segja honum, að það er líka hægt að misbrúka þann rjett, og hann er ekki til þess, að óhlutvandir menn geti í skjóli hans borið á aðra svívirðilegar og ósannar getsakir. Sá, sem gerir þetta, misbrúkar hræðilega þennan rjett. Og ef því framferði væri beitt við hv. þm. (JBald), sem beitt hefir verið við skipstjórann á Óðni, hugsa jeg, að hann myndi finna til. Hv. 4. þm. Reykv. (HjV) getur ekki fært sínum svívirðilegu ásökunum nokkurn stað, og þær sverta vitaskuld hvorki stjórnina nje skipherrann á Óðni.