01.04.1927
Efri deild: 42. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2298 í B-deild Alþingistíðinda. (1781)

19. mál, varðskip ríkisins

Jón Baldvinsson:

Jeg vil geta þess, að jeg hefi flutt skriflega brtt. við 1. brtt. nefndarinnar á þskj. 265. Er þar lagt til, að í stað „svipuðum“ komi „sömu“ reglum og hliðstæðir starfsmenn á öðrum skipum ríkisins og skipum Eimskipafjelagsins. Jeg vildi með þessu tryggja mennina fyrir því, að þetta ákvæði yrði ekki teygt af lögfræðingum eins og hrátt skinn. Þó að eitthvað sje talið svipað, þá er hætt við, að það geti orðið eins ólíkt og dagur er nóttu. Jeg vildi tryggja, að það yrði gert, sem ætlast er til eftir orðalaginu.

Hæstv. atvrh. (MG) lagði á móti þessari brtt. Mjer skilst, að það sjeu aðeins reglurnar sjálfar, sem hann hefir á móti. Hann ætlast ekki til, að mennirnir verði ver úti samt, þó að þetta sje haft. En þá skil jeg heldur ekki, hvers vegna hann er á móti þessu orðalagi mínu. Jeg veit, að samvinnan er svo mikil milli Eimskipafjelagsins og ríkisins, að ef ríkisstjórnin kemst niður á eitthvað betra skipulag, þá muni hún láta Eimskipafjelagið verða þess aðnjótandi, sjerstaklega þá til þess líka að hafa gagn af því að því er snertir skip ríkissjóðs.

Jeg vil aðeins segja hv. frsm. (JJós) það, að það mislukkaðist alveg hjá honum, er hann vildi láta líta svo út, sem aðfinslurnar við stjfrv. og stjórnina sjálfa og „krítik“ á yfirforingjum varðskipanna væri aðeins fjandskapur við landhelgisgæsluna. Jeg vil samt mótmæla þessu. Það er aðeins búið út til þess að komast hjá því, sem um er deilt. Jeg hefi altaf verið stuðningsmaður landhelgisgæslunnar og hefi viljað hafa hana góða og örugga. En jeg vil víkja því að hv. þm. (JJós), að flokksbræður hans hafa ekki altaf sýnt þá sanngirni eða þann skilning á viðleitni Vestmannaeyinga í björgunarmálunum, að það taki því fyrir hann að vera að hreykja þeim hátt. Íhaldið reyndi að spyrna á móti því máli, eins og það er vant að gera við öll mál í byrjun. Síðan vill það eigna sjer það að hafa komið þeim í framkvæmd og þykist hafa átt þau öll frá upphafi.

Jeg skil nú ekki röksemd hv. frsm. (JJós) um skýrslur embættismanna. Hann sagði, að þær væru skoðaðar sem sannar þar til annað kæmi fram. En þá kæmi eiður sýslunarmannsins til sögunnar. Jeg veit nú ekki betur en að lögregluþjónar, t. d. hjer í Reykjavík, verði oft að staðfesta framburð sinn með eiði. Jeg veit auðvitað ekki, hvort það er reglan, en það hefir þó oft borið við. Frv. fríar því sýslunarmenn ríkisins ekki við að vinna eið, enda mun það ekki borið fram með það fyrir augum.

Hv. frsm. talaði um þinghelgina og rjettindi þingmanna og þær siðferðilegu skyldur, sem þeim fylgja. En jeg er hissa á því, að háttv. þm. (JJós) skuli vera svo djarfur að vera að tala hjer um siðferðilegar skyldur, þegar á það er litið, hvernig flokkur hans hefir hagað sjer í þessu máli bæði innan þings og utan.