01.04.1927
Efri deild: 42. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2300 í B-deild Alþingistíðinda. (1782)

19. mál, varðskip ríkisins

Frsm. (Jóhann Jósefsson):

Jeg skal aðeins geta þess viðvíkjandi brtt. frá hv. 5. landsk. (JBald), að nefndin sjer enga ástæðu til þess að breyta því, sem hún hefir lagt til. Við tókum það fram, er við ræddum við hæstv. atvrh. (MG) um þetta, að við ætluðumst til, að hjer yrði farið eftir svipuðum reglum og gilda nú um tryggingar skipverja á skipum Eimskipafjelagsins og ríkissjóðsskipunum. Það þarf jafnvel alla tortrygni háttv. 5. landsk. — og er þá mikið sagt — til þess að geta dregið það út úr orðalagi þessu, að tryggingarnar verði eins ólíkar og dagur og nótt. Nefndin hefir lagt þetta til í þeirri góðu trú, að tryggingarnar verði svipaðar. Og þegar við segjum „svipaðar“, þá eigum við auðvitað við það, að þær verði eins líkar og unt er. Nefndin hefir enga ástæðu til þess að vjefengja, að stjórnin framkvæmi þetta á sínum tíma eftir þeim anda orðanna, sem brtt. ber með sjer. Jeg þarf svo ekki að svara háttv. þm. að öðru leyti. En sje svo, að hann beri þetta málefni fyrir brjósti, þá verð jeg að harma það, að hann hefir látið flokksofstæki hlaupa með sig í gönur. En mjer finst, að í máli þessu hefði það verið viðkunnanlegast og rjettast, að eins og það var upp tekið með samþykki allra þingflokkanna, er ákveðið var að byggja strandvarnaskipið, þá ættu menn án tillits til flokkaskiftingar að hjálpast að við að koma skipulagi á framkvæmd þessa mikilvæga starfs. Jeg veit ekki, hvað verða kann. En þó þetta kunni að lukkast, þá hefir háttv. 5. landsk. (JBald) gert sitt til að leggja stein í götu málefnisins við meðferð þess á Alþingi. Jeg kannast ekki við það, að hv. þm. hafi neitt það til brunns að bera, sem gefi honum rjett til að bera nokkrum þingflokki, hvorki Íhaldsflokknum nje öðrum, á brýn siðferðilega spillingu. Til þess að geta það, verður hann að leggja hjer fram önnur gögn en tortrygnislegar getgátur og ofstækiskendar fullyrðingar. Jeg vík ekki frá því, að það gildir jafnt um alla þm., að um leið og þinghelgin ljær þeim rjett til þess að mæla hjer óátalið það, sem þeir annars þyrftu að sæta ábyrgð fyrir, þá fylgir því sú mikla siðferðilega skylda að nota ekki þennan rjett til þess að ausa saklausa menn sauri og gera þeim þungar getsakir, sem ekki geta borið hjer hönd fyrir höfuð sjer.