04.04.1927
Efri deild: 44. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2363 í B-deild Alþingistíðinda. (1802)

19. mál, varðskip ríkisins

Einar Jónsson:

Jeg býst við, að það sje almenn ósk hv. þingdeildarmanna, að umræður verði ekki langar úr þessu. En vegna ræðu, er jeg hjelt hjer fyr í kvöld og kom öðrum af stað, get jeg ekki látið hjá líða að minnast á þá nokkrum orðum.

Hv. 5. landsk. (JBald) sárnaði undan ummælum mínum, en var þó furðu vægur í svari sínu. Kvaðst ekki geta tekið mig sem siðameistara. Jeg skal ekki lá honum það, en þó ætti hann að vera svo sanngjarn að taka góðum ráðum og vingjarnlegum bendingum, hvaðan svo sem þær koma. Og mitt ráð honum til handa var gott og vel meint.

Annars er það að kalla mig siðameistara ekki nein ný fyndni, er hv. 5. landsk. þurfi að vera neitt hreykinn af. Hún er ekki uppfundin af honum. Það er gott og gamalt heiti á mjer síðan fyrir mörgum árum.

Þá kem jeg að hv. 1. landsk. (JJ). Hann sagðist aldrei hafa heyrt flutta ræðu jafnfjarri efni og mína. Já, það er ekki laust við, að mjer þyki skörin færast upp í bekkinn. Hv. þm. heldur klukkutíma ræðu jafnfjarri efninu og jeg í 10 mínútur. Hann fer gandreið um heima og geima, veður elginn úr einu í annað, ruglar saman skyldu og óskyldu, teygir lopann á allar lundir og gerir alla hundleiða að hlusta á sig. Hið eina rjetta í orðum hv. 1. landsk. var það, að jeg hafði mismælt mig, sagt 500 í stað 50. En þar sem ekki er nema um eitt 0 (núll) að ræða, — hvað vill hann vera að fetta fingur út í það, sem sjálfur er ekki nema „núll“ og varla það?

Háttv. þm. vildi halda, að hv. 1. þm. G.-K. (BK) og hv. 4. landsk. (MK) munu taka hrósi frá mjer sem vansæmd! Jeg hefði getað bent á fleiri hv. þm. spaka, hógláta, friðsama. Og jeg er viss um, að þeir taka ekki sem móðgun, þótt jeg hrósi þeim. Þeir vita sem er, að jeg er hreinskilnari en hv. 1. landsk. — Enn eitt atriði hjá hv. þm. (JJ) — ekki í athugasemdinni, heldur í ræðu hans þar næst á undan — var það, að Íhaldsflokkurinn hefði komið á framfæri út í lönd einhverju níðskrifi, er hann tilgreindi ekki nákvæmar. Mjer er nú ekki kunnugt, við hvað hann á. En hinu furðar mig á, að hann — slíkur maður, sem hann hefir sýnt sig vera — skuli leyfa sjer að nota orðið „níðskrif“ um rit annara manna. Mjer finst hann höggva þar of nærri sjálfum sjer, og væri honum sæmra að bæta fyrir brot sín í þá átt heldur en vanda um við aðra.

Hv. þm. kom við í fornöldinni, og það minti mig á eina forna sögu — hann er líka svo fjarska sögufróður —, það er Ragnars saga loðbrókar.

Eysteinn konungur í Uppsölum, er í þann tíma rjeð fyrir Svíþjóð, átti sjer einn háskagrip, kú þá, er mjög var blótin og nefndist Síbylja. Var hún máttur hans og megin í hernaði, því að hann ljet hana jafnan renna fyrir liði sínu, og fylgdi slíkur djöfulskraftur látum hennar, að enginn mátti standast; svo voru óhljóð hennar óheimleg. — Í þessari hv. deild er nokkurskonar síbylja ósjaldan öskrandi, og vita allir, hvaðan hún er ættuð. (JJ: Já, af Rangárvöllunum). En eins og forðum, er Ívar beinlausi ljet kastast á kúna og af þeim heljarkrafti, að mölvaðist hvert bein kýrinnar og lauk svo tröllskap hennar, svo fer og fyrir nöfnu hennar, Síbylju hjer í deildinni, að leggist á hana nægur þungi, verður hún að kássu og að engu.