21.02.1927
Efri deild: 10. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 135 í B-deild Alþingistíðinda. (181)

9. mál, réttur erlendra manna til að stunda atvinnu á Íslandi

Frsm. (Jóhann Jósefsson):

Eins og þskj. 35 ber með sjer, leggur nefndin það til í heild, að frv. verði samþykt. Er nefndin í öllum aðalatriðum samþykk hæstv. stjórn í því, að nauðsyn beri til þess að setja reglur, er hefti innflutning erlendra verkamanna, þar eð álitið er, að lög frá 18. maí 1920 feli ekki í sjer nægilegar heimildir til þess að hindra slíkan innflutning.

Nefndin hefir þó ákveðið að bera fram þrjár brtt. við frv. Er þá sú fyrst, er öll nefndin var sammála um, að breyta þyrfti ákvæðum 2. gr., þar sem svo er um mælt, að aðilja sje heimilt að taka í þjónustu sína erlenda kunnáttumenn. Nefndinni fanst þetta allvítt hugtak, „erlendir kunnáttumenn“. Hún lítur svo á, að þótt þetta geti átt við um iðju, þá sje hjer enginn hörgull á innlendum kunnáttumönnum í iðnaði. Breytingin er þá sú, að menn mega skilyrðislaust ráða til sín sjerfræðinga á iðjusviðinu, svo að mönnum sje gert sem hægast fyrir að afla sjer sem bestra starfskrafta.

Að þessu lýtur líka 2. brtt. nefndarinnar.

Þá er 3. brtt., sem er við 3. gr„ þar sem taldir eru menn þeir, sem ekki er hægt að vísa á bug eftir það, að frv. þetta er orðið að lögum. Í frv. er svo um mælt, að eigi megi vísa úr landi þeim mönnum, sem hjer dveljast, þegar lögin ganga í gildi. Í staðinn fyrir þetta fanst nefndinni rjettara að setja „þeim mönnum, sem hjer hafa aðsetur“, er lögin koma til framkvæmda. Vildi hún þar með leggja áherslu á það, að menn væru byrjaðir að stunda hjer atvinnu.

Síðan nál. kom fram, hefir nefndinni verið bent á það af mjög mikilhæfum mönnum í læknastjett, hvort eigi ætti að setja í lög ákvæði um það, að þeir einir fái leyfi til að flytjast hingað, er sanni það fyrir yfirvöldunum, að þeir sjeu eigi haldnir neinum næmum sjúkdómi. Í lögunum frá 1920 um eftirlit með útlendingum er talið rjett að meina landsvist þeim mönnum, sem haldnir eru næmum sjúkdómum. Þó er það eigi gert að skyldu, að menn sanni með vottorði frá því landi, er þeir koma frá, að þeir sjeu ekki sjúkir. Gæti því komið til álita að setja slíkt ákvæði í reglugerð, er sett yrði samkvæmt þessu frv., ef að lögum verður. Vil jeg þegar við þessa umræðu spyrja hæstv. stjórn, hvort hún treystist ekki til þess að taka slík ákvæði upp í reglugerð, án þess að brtt. þurfi að koma fram um það til 3. umr.

Skal jeg svo ekki orðlengja meira um þetta. Eins og menn sjá á nál., þá hefir einn nefndarmanna, háttv. 5. landsk. (JBald), áskilið sjer rjett til þess að koma fram með fleiri brtt. Mun hann sjálfur tala fyrir þeim, en á eftir mun jeg, ef jeg tel þess þörf, skýra frá, hvernig á því stóð, að meiri hluti nefndarinnar gat ekki fallist á þær brtt.