07.05.1927
Neðri deild: 69. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2372 í B-deild Alþingistíðinda. (1812)

19. mál, varðskip ríkisins

Frsm. 2. minni hl. (Jón Kjartansson):

Það eru mörg ár síðan Íslendingar þráðu að geta tekið landhelgisgæsluna í sínar hendur. Nú hafa þeir að mestu leyti uppfylt þær óskir sínar. Það er nú ekki ábyrgðarlaust fyrir hið íslenska ríki að hafa tekið þetta starf í sínar hendur. Það er áríðandi, að ekkert víxlspor sje stigið í þessu efni.

Með þessu frv. er reynt að tryggja landhelgisgæsluna sem best með lögum. Allir eru sammála um það, að nauðsynlegt sje að búa eins tryggilega um landhelgisgæsluna sem unt er og að það væri ósæmilegt fyrir ríkið að taka hana í sínar hendur, ef það sæi ekki jafnframt um, að hún sje vel af hendi leyst.

Í þessu frv. er ráð fyrir því gert, að þessir löggæslumenn á sjónum verði gerðir að föstum sýslunarmönnum ríkisins og þar með gerðir hliðstæðir lögreglunni í landi. Það er öllum ljóst, að úr því að ríkið færir löggæsluna út fyrir landsteinana, þá hlýtur það að verða að taka ábyrgð á þeim mönnum, sem framkvæma hana, en það gerir það með því að taka þá í tölu sýslunarmanna ríkisins. Þetta er aðalatriði frv., og eru bæði 1. og 2. minni hl. allshn. sammála um það atriði. Þeir eru báðir sammála um nauðsyn slíkra laga sem þessara.

En 1. minni hl. hefir viljað ganga lengra. Hann hefir viljað fljetta inn í þetta frv. öðru frv., sem hv. fjhn. hefir til meðferðar, um laun skipherra og skipverja á varðeimskipum ríkisins. En við 2. minni hl. allshn. höfum ekki viljað blanda okkur inn í verkahring hv. fjhn. Ef við verðum ekki ánægðir með gerðir hennar við það frv., þá getum við gert breytingar við þær á sínum tíma hjer í deildinni. Því gátum við ekki aðhylst þessa leið hv. 1. minni hl. En þetta er ekki stórt atriði, og hv. deild verður að gera það upp við sig, hvorum minni hl. hún vill fylgja í þessu efni, og geri jeg fastlega ráð fyrir því, að hún muni fylgja okkur að málum.

Mjer virtist hv. frsm. 1. minni hl. (JörB) gera of mikið úr því, að hjer væri stofnað til mikils embættabákns með því að gera alla þessa menn að sýslunarmönnum. Þetta er villandi. Úr því að ríkið ætlar sjer að gera skipin út, þá getur það ekki hliðrað sjer hjá því að greiða skipverjunum kaup. En þar sem ríkið ætlar sjer að bera ábyrgð á starfi þessara manna, þá er ekki nema eðlilegt, að það sje ákveðið með lögum, að þeir sjeu sýslunarmenn ríkisins og njóti sömu rjettinda og hafi sömu skyldur sem aðrir sýslunarmenn. Hjer er ekki verið að stofna mörg embætti, heldur aðeins ákveðið, hve mikið ríkið ætlar sjer að borga þessum mönnum, sem vinna á skipunum.

Jeg sje enga ástæðu til þess að amast við því, að aðrir en yfirmenn skipanna sjeu gerðir að sýslunarmönnum. Það er sjálfsagt, að þeir sjeu það, en hitt er einnig til bóta, að skipverjarnir sjeu það líka. Þeir finna þá því meira til ábyrgðarinnar, sem á þeim hvílir, og ríkið finnur einnig meira til ábyrgðarinnar gagnvart þeim. Það er líka þýðingarmikið, að það sje íslenska ríkið, sem ber ábyrgð á þeim út á við.

Jeg vænti, að hv. þdm. leggi ekki mikið upp úr þeirri andúð, sem reynt er að vekja gegn frv. þessu bæði utan þings og innan. Þetta mál er of mikils virði til þess, að slík andúð eigi að geta komið til greina hjer á Alþingi. Jeg vænti, að Alþingi sje mjög einhuga ánægt yfir því, að við höfum nú tekið landhelgisgæsluna sjálfir í okkar hendur. En ef svo er, þá verður Alþingi að tryggja það, að þetta starf verði okkur ekki til vansæmdar í framtíðinni. Jeg vænti þess, að þessi deild skilji þetta eins vel og hv. Ed. og samþykki óbreytt það frv., sem hjer liggur fyrir. Jeg held, að óhætt sje að fullyrða, að það sje ekkert í þessu frv. þannig vaxið, að ekki sje örugt að samþykkja það.