07.05.1927
Neðri deild: 69. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2398 í B-deild Alþingistíðinda. (1817)

19. mál, varðskip ríkisins

Klemens Jónsson:

Út af ummælum, sem hjer hafa fallið, vil jeg sem formaður fjhn. segja nokkur orð.

Eins og kunnugt er, var launafrv. vísað til fjhn., þangað sem það átti heima, en við höfum haft svo mikið að gera í nefndinni, að hún hefir enga ákvörðun tekið ennþá. Það kom líka fram í fjhn., að það þótti rjett að bíða eftir afdrifum þessa frv., sem hjer liggur fyrir, og hvaða till. háttv. allshn. gerði um það.

Einn af fjhn.-mönnum tókst á hendur að fá upplýsingar um, hvað frv. liði hjá hv. allshn., en fjekk ekki aðrar en þær, að það mundi verða afgreitt frá nefndinni.

Jeg held, að mjer sje óhætt að fullyrða, að enginn úr fjhn. hafi haft minstu hugmynd um, að hv. allshn. ætlaði sjer að taka fram fyrir hendur hennar að því er launafrv. snerti. Síðan nefndarálit háttv. allshn. kom fram, hefir fjhn. að vísu haldið fund, en það hafa legið fyrir önnur mál, sem hún hefir orðið að meta meira. Jeg skal því sem form. fjhn. lýsa yfir því, að hún hefir um þetta óbundin atkv. Hún hefir enn ekki tekið afstöðu til þessa. En jeg er að því leyti sammála hæstv. fjrh., að jeg verð að líta svo á, að allshn. hafi með þessu gengið inn á verkefni fjhn., og það án þess að leita í nokkru hennar álits. Jeg held, að hv. allshn. hefði að minsta kosti átt að láta fjhn. vita; hún hefði þá fengið tækifæri til að taka ákvörðun um málið.

Jeg skal lýsa yfir því, að jeg get ekki samþykt þær brtt., sem snerta launafrv., og jeg ímynda mjer, að fjhn. í heild kjósi heldur að koma fram með sínar eigin till. fyrir þingið. Mjer er ekki gjarnt til að taka til máls í málum, sem jeg hefi ekki sjerstakan áhuga fyrir, en jeg skal geta þess, að jeg mun að öðru leyti geta samþykt þær brtt., sem fram hafa komið, að undanskildum þeim, sem snerta launamálið.