07.05.1927
Neðri deild: 69. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2399 í B-deild Alþingistíðinda. (1818)

19. mál, varðskip ríkisins

Frsm. 3. minni hl. (Hjeðinn Valdimarsson):

Hæstv. forsrh. (JÞ) hefir þá aðferð, að hann lætur ekki sjá sig nema með höppum og glöppum hjer í deildinni. Hann þýtur upp eins og hani á vekjaraklukku og hleypur svo út, þegar hann er búinn að syngja sinn söng.

Hæstv. ráðh. skýrði frá því, að tilgangur stjórnarinnar væri sá, með því að gera skipverjana á varðskipunum að sýslunarmönnum ríkisins, að kaup þeirra gæti lækkað meira með því móti en ef þeir væru ekki sýslunarmenn, því að launalækkun opinberra starfsmanna verði meiri eftir vísitöluútreikningi hagstofunnar heldur en launalækkun hjá sjómönnum og verkafólki með samningum við atvinnurekendur, vinnudeilum og verkföllum. Ef menn nú athuga, hvernig málið liggur fyrir, þá sjá menn, að fyrst eru byrjunarlaun þessara manna ákveðin miklu lægri en laun annara sjómanna, og síðan er ætlast til þess, að þau lækki miklu meira en hjá þeim. Hjer er því verið að níðast á einni stjett manna, og er slíkt ósamboðið stjórn landsins.

Þegar hæstv. atvrh. fór að svara því, sem jeg sagði um rjettinn samkv. siglingalögunum, sem á að svifta þessa menn, og rjettindin, sem því fylgja að vera sýslunarmenn ríkisins, þá datt mjer í hug vísan:

„Ó, hve margur yrði sæll og elska mundi landið heitt, mætti hann vera mánuð þræll og moka skít fyrir ekki neitt“. Það er það, sem hæstv. ráðh. (MG) gengur út frá, að ef þessir menn megi kalla sig sýslunarmenn ríkisins, þá sjeu þeir sælir, þó að kjör þeirra verði verri.

Annars liggur það ekki fyrir hjer að tala um launakjörin, heldur hitt, hver rjettur mannanna verði, þegar þeir koma á skipin, og samkv. stjfrv. er það svo, að þeir eiga ekki að njóta verndar nokkurra laga.

Það er út af fyrir sig einkennilegt, og mun ekki þekkjast annarsstaðar en hjer á landi, að óbrotnir sjómenn sjeu gerðir að sýslunarmönnum ríkisins. En nú eru fleiri sjómenn í þjónustu ríkisins en þeir einir, sem vinna á varðskipunum, — og hvers vegna eiga þeir þá ekki líka að kallast sýslunarmenn? Stjórnin hefir fleiri skip, t. d. Esju, Villemoes og svo skip það, sem vitamálastjóri hefir til umráða, og jeg hefi ekki heyrt þess getið, að hún hefði í hyggju að gera starfsmennina á þessum skipum að opinberum sýslunarmönnum. Þeir eiga þó sama rjett á því eins og hinir, ef um rjett væri að tala.

Það er ekki að undra, þótt menn vilji hafa nokkra tryggingu í lögum gegn því, að skipstjórar misbeiti valdi sínu gegn sjómönnunum. Í siglingalögunum eru ákvæði um, að skipstjóri hafi ákveðið vald yfir hásetum, og í þessum frv.-óskapnaði er gengið út frá siglingalögunum, þar sem ekki eru önnur sjerstök lög, sem herða enn meira á þessu. Það hefir þótt bregða fyrir á skipum erlendis, að ekki væri of vel farið með undirmennina, stundum settir í svarthol eða kjöldregnir fyrir smáyfirsjónir, og það hefir verið kallað „agi“.

Hæstv. ráðh. gat þess, að vinnan væri miklu ljettari á þessum skipum en á verslunarskipum. Það er mikill misskilningur, því að þegar vinnutíminn er ekki nema 8 tímar á verslunarskipunum, er hann 16–18 og upp í 24 tíma á strandvarnarskipunum. Það er líka viðurkent af mönnum, sem þar hafa unnið, að vinnan sje ill, mikil vosbúð og erfiði.

Þá fanst hæstv. ráðh., að launin yrðu að vera lægri, af því að svo mikil „trygging“ væri í því fólgin að vera stöðugur starfsmaður ríkisins. En þegar búið er að benda á, eins og háttv. þm. Str. (TrÞ) hefir gert, að tryggingin sje alveg sú sama á Villemoes, Esju og Eimskipafjelagsskipunum, þá er þessi ástæða hæstv. ráðh. vegin og ljettvæg fundin. Um lífeyrinn, sem hæstv. ráðh. álítur svo mikil hlunnindi að fá, er það að segja, að fyrst og fremst borga mennirnir hann sjálfir, en yfirmennirnir fá eftirlaun, án þess að láta nokkuð úti sjálfir.

Hæstv. ráðh. þykist vera hræddur við það, að ekki mundi semjast á milli sjómanna og stjórnarinnar um kaupgjald, og því sje best að hafa launin ákveðin í lögum. Það er engin ástæða til að efast um, að stjórnin verði verri viðfangs en aðrir aðiljar, og auk þess er jeg sannfærður um, að hægt er að fá þannig lagaða samninga, að kaupgjaldið sje altaf það sama og á verslunarskipunum. Þetta veit hæstv. ráðherra, svo að hann getur heldur ekki notað það sem ástæðu fyrir þessu frv.

Það má geta þess um Þór, að hann er ekki að öllu leyti strandvarnarskip. Hann á mikið við björgun, auk þess sem hann sjer um strandvarnir. Kaupsamningar gerast heldur ekki á sama tíma á verslunarskipum og botnvörpungum, og á skipum ríkissjóðs mætti koma þeim við á enn öðrum tíma.

Jeg hefi ekki sagt, að ekki hafi verið skotið við Öndverðanes, en jeg hygg, að það sje missögn, að Óðinn hafi skotið í þetta sinn. Það þýðir lítið fyrir hæstv. ráðh. að ætla sjer að telja vönum sjómönnum trú um, að yfirmennirnir geti mælt með auganu, hvort skipin eru fyrir innan línuna, eða þau sjeu „cirka 31/3 mílu“ undan landi, þegar strandvarnarskipin eru langt í burtu. En þetta er gert hvað eftir annað, eins og sjest á dagbókum skipsins, enda hafa togararnir vitanlega ekki fengið svo lítinn fisk úr landhelginni í vetur. Þá er það líka til marks um, hve mikla athygli yfirmennirnir hafa veitt togurunum, að þeir kannast ekki við nafn á einu einasta skipi íslensku. Þegar skipverjar eru síðan spurðir, hvort þeir muni ekki nafn á neinum íslenskum botnvörpung, segja þeir altaf: „nei“. Þeir geta heldur ekki svarað því, hvort skip, sem er á landhelgismörkunum, sje á útleið eða ekki. Allir sjá, að þetta er ákaflega grunsamlegt.

Hæstv. ráðh. vildi afsaka innilegudagana hjá Þór og Óðni með því, að skipin væru að taka vistir, hreinsa katlana o. s. frv. En hæstv. ráðherra veit ósköp vel, að ekki þarf 8–12 daga í þessum tilgangi, og síðan í sama tilgangi á öllum höfnunum, sem jeg gat um áðan, Hafnarfirði, Stykkishólmi, Ísafirði, Siglufirði, Akureyri, svo að innilegudagarnir eru að minsta kosti helmingur alls strandvarnartímans. Það hefir verið upplýst, að þessi mál heyra undir skrifstofustjóra 1. skrifstofu stjórnarráðsins. Ef svo er, þá er ekki hægt að lofa hann fyrir þá yfirstjórn.

Jeg held, að best sje fyrir hæstv. ráðh. að játa, hvað fyrir honum vakir. Hann getur hvort sem er ekki til lengdar farið í kringum það, að verið er að reyna að koma upp sjóher, enda er sá, sem hefir samið þetta frv., skipstjórinn á Þór, þeirrar skoðunar, að þetta sje upphaf sjóhers. Hæstv. ráðh. vill hafa undirmennina fyrir sem minst kaup, en þó vill hann hafa sem mest völd yfir þeim.