07.05.1927
Neðri deild: 69. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2408 í B-deild Alþingistíðinda. (1820)

19. mál, varðskip ríkisins

Atv.- og dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Hv. þm. Barð. (HK) hjelt því frarn á fundi hjer í dag, að sjer þætti launin of lág hjá skipverjum, og beindi því atriði til mín. En þar sem þau atriði, sem lúta að launum, eru tekin úr frv. hæstv. forsrh., þá sje jeg ekki ástæðu til að fara að ræða um þau nú, því að hæstv. forsrh. mun svara því sjálfur. Að öðru leyti hjelt hv. þm. Barð. því fram, að rjettaröryggi þessara manna væri ekki eins mikið og þeirra manna, sem lögskráðir væru á skip, og tók þar að sumu leyti í sama strenginn og hv. 4. þm. Reykv. (HjV), en þar sem hv. 4. þm. Reykv. tók fleiri atriði en hv. þm. Barð. (HK), þá mun jeg láta mjer nægja að svara aðeins hv. 4. þm. Reykv.

Hv. þm. byrjaði sína seinni ræðu með að lýsa yfir því, að undarlegt væri og óviðkunnanlegt, að hæstv. forsrh. væri ekki altaf hjer í deildinni til þess að vera við umr. um mál, sem hann snerti, en það er mjög ósanngjarnt að ætlast til þess, þegar sami ráðherrann hefir mál í báðum deildum, að hann geti þá verið í báðum samtímis. Það ættu allir að sjá, að það er ekki sanngjarnt að heimta af sama manni, að hann sje á tveimur stöðum í senn.

Þá spurði hv. þm. að því, hvaða gagn þessum mönnum væri að því að vera kallaðir sýslunarmenn. Jeg hefi skýrt þetta áður; það er af því það er sú tryggasta atvinna, sem hægt er að fá. Jeg viðurkenni það fúslega, að ríkissjóður launar lægra heldur en ýmsir einstakir menn og ýms einstök atvinnufyrirtæki gera, en það er samt altaf álitið betra að vera starfsmaður ríkisins heldur en einstakra manna, og það sem embættis- og sýslunarmenn ríkisins geta sætt sig við, það ættu óbreyttir sjómenn að geta sætt sig við líka.

Þá sagði hv. þm., að ekki væri um það að ræða, hvernig farið yrði með þessa starfsmenn ríkisins, heldur skifti það meiru, hvern lagarjett þeir hefðu. Jeg verð að segja, að föst „praksis“ hefir svipað gildi og lög, og jeg held, að það sje ekki hægt að segja um ríkissjóð, að honum farist illa við sína starfsmenn. Það hefir ætíð verið svo, að ríkissjóður hefir verið fús til að hlaupa undir bagga með þeim mönnum, sem orðið hafa fyrir slysum eða veikindum, ef þeir hafa verið í þjónustu hins opinbera.

Þá spurði hv. þm. um það, hvers vegna ekki væri látið hið sama ganga yfir menn á þessum skipum eins og menn á Esju, Villemoes eða vitabátnum Hermóði. Því er fljótsvarað; það er af því, að það er alt annað starf, sem þeim er ætlað að inna af hendi. Við höfum ekkert hliðstætt starf; skipin eru lögregluskip, ætluð til að halda uppi lögreglu á sjó, en það er alt annað starf en venjulegum flutningaskipum er ætlað. Það er því ekkert undarlegt, þótt settar sjeu aðrar reglur um skip, sem eiga að hafa alt annað starfssvið.

Þá sagði hv. þm., að vinnutíminn á Óðni kæmist stundum upp í 24 stundir á sólarhring. Jeg veit ekki, hvaðan hv. þm. hefir það, en jeg veit, að það eru svo margir menn á skipinu, að það er hægt að skifta sólarhringnum í 8 klst. vaktir. En ef til vill getur það komið fyrir, að það verði í einstökum tilfellum lengri vinnutími en álitið er rjettmætt, en það eru undantekningar, sem allir opinberir starfsmenn verða að hafa. Við verðum t. d. stundum að hafa það hjer í þinginu, en venjulegast er það, að vinnutíminn er alls ekki langur.

Þá hjelt hv. þm. því fram, að það væri engin þörf á að hugsa um að hindra það, að þessir menn tækju þátt í verkföllum, vegna þess að stjórn Sjómannafjelagsins mundi verða svo liðleg í samningum. En það liggur ekki neitt fyrir um það annað en orð þessa hv. þm., og jeg er ekki að gera neitt lítið úr þeim, en jeg skil ekki, að það sje neitt stórt atriði fyrir þá, sem eiga að semja um kaup fyrir sjómenn alment, þótt þessir fáu menn sjeu undanteknir samningum. En það, sem fyrir stjórninni vakir, er það, að það má ekki koma fyrir, að menn á þessum skipum geri verkfall, því að það myndi verða samtímis og okkar togarar lægju hjer í höfn, og þá gætu útlendu togararnir verið óhultir í landhelgi á meðan. Þetta er atriði, sem ekki er hægt að ganga framhjá, eða að minsta kosti er það svo, að allir nefndarmenn, nema hv. þm. (HjV) einn, hafa álitið nauðsynlegt að fyrirbyggja, að slíkt kæmi fyrir.

Að því leyti, sem hv. þm. var að tala um, hve slælega eftirlitið með landhelginni væri rækt, þá verð jeg að segja það, að þótt hv. þm. haldi því fram, að fjarlægð skipa sje ekki nægilega oft mæld, er skipsmenn álíta það engum vafa undirorpið, að skipin sjeu fyrir utan landhelgi. Og þá veit jeg heldur ekki, hvernig hv. þm. (HjV) getur fundið það út, sem hann sagði í þinginu fyrir nokkru, að hann vildi fullyrða, að þessir togarar hefðu verið í landhelgi. En það er langt á milli þessa tvenns, og hv. þm. hefir enga heimild til að segja slíkt, enda þótt það kynni að vera rjett hjá honum, að of sjaldan væri mælt. (HjV: Jeg veit, að þeir voru það). Þá skora jeg á hv. þm. að sanna það. Það er annars undarlegt að halda slíku fram, en vilja ekki sanna það, svo að hægt sje að koma fram ábyrgð á hendur þeim seku. En hv. þm. getur alls ekki vitað það, þegar yfirmennirnir á skipinu segja, að þeir geti eftir sjóninni eingöngu mælt svo greinilega, að þeir viti fyrir víst, að skipin sjeu ekki fyrir innan landhelgislínu. Hvernig getur þá hv. þm., sem situr hjer í Reykjavík, vitað það betur?

Svo fór háttv. þm. að hnýta í skrifstofustjórann í dómsmálaráðuneytinu. Jeg geri ráð fyrir því, að háttv. þm. þekki þennan ágæta embættismann lítið og lof hans eða last um hann skifti því litlu, enda hygg jeg, að skrifstofustjórinn láti sjer í ljettu rúmi liggja, hvort hv. þm. lastar hann eða lofar, en jeg álít, að hann eigi miklar þakkir skilið fyrir starf sitt.

Svo kom stærsta trompið hjá háttv. þm., að skipverjar varðskipanna væru sjóher. Jeg veit ekki, hvaðan hv. þm. hefir það, því að hjer í frv. stendur, að skipherrar á varðskipunum sjeu löggæslumenn ríkisins á landhelgissvæðinu og að stýrimenn sjeu aðstoðarmenn þeirra við löggæsluna. Með öðrum orðum, það er aðeins um löggæslu, en engan her að ræða, nema ef hv. þm. vill kalla alla lögreglu her. Það má hann gjarnan fyrir mjer, en hingað til hefir það þó verið álitið talsvert annað; en jeg skal ekki deila um nöfn við hv. þm., ef okkur annars kemur saman um, hvað þessi skip eiga að gera.

Þá vildi jeg gjarnan með fáeinum orðum snúa mjer að hv. 2. þm. Árn. (JörB), en jeg ætla ekki að fara út í þær deilur, sem hv. þm. á í við hæstv. forsrh. um þau ákvæði viðvíkjandi launum, sem hv. 2. þm. Árn. vill taka upp í þetta frv. En hv. þm. áleit það ekki skóggangssök að hnupla svolítið frá hæstv. forsrh. úr hans frv., og býst jeg við, að svo sje. En þar sem hv. þm. ætlar að fara að gefa mjer þetta í mitt frv., þá vil jeg helst vera laus við það, því að jeg þykist hafa nóg á minni könnu. Jeg verð að segja það sama og í dag, að jeg vil helst vera laus við þessar gjafir hv. 2. þm. Árn., en annars var það svo, þegar jeg talaði hjer í dag, að þá fór jeg ekki nákvæmlega út í brtt. á þskj. 503, og þess vegna verð jeg að minnast á þær nú með örfáum orðum.

Um 1. brtt. er það að segja, að jeg hefi ekkert á móti því, að hún sje samþykt, en um 2. brtt. vil jeg geta þess, að jeg tel hana ekki til bóta. Jeg tel rjettara að láta stjórnarráðið ráða alla stýrimenn og vjelstjóra skipsins heldur en að fela skipstjóra að ráða 2. og 3. stýrimann og 2. vjelstjóra, en stórt atriði er þetta náttúrlega ekki.

Um síðari málsgrein 2. brtt. hv. 1. minni hl. allshn. vil jeg aðeins segja það, að jeg sje ekki, að hverju leyti orðin: „ef í hlut á skipverji, sem skipaður er eða settur af ráðuneytinu“, eiga hjer við, því að þá finn jeg ekki, eftir hvaða reglu á að setja af þá menn, sem ráðuneytið hefir ekki skipað. (JörB: Það stendur í 4. gr.). Lítum þá á 4. gr. Þar stendur, að þá menn, sem ráðuneytið hefir skipað, skuli setja af eftir venjulegum reglum um aðra sýslunarmenn ríkisins. En eftir hvaða reglum á þá að setja hina af ? Jeg álít, að þessi orð í brtt. eigi að fella burt.

Við 3. brtt. hefi jeg ekkert að athuga. Það er örlítil orðabreyting, og get jeg ekki verið að gera hana að neinu kappsmáli. En út af því, sem hv. þm. Barð. (HK) sagði um ósamræmi þessarar greinar, þá vil jeg benda á, að það er misskilningur hjá hv. þm., því að í seinni hluta gr. er átt við þá, sem skipaðir eru af ráðuneytinu, en í fyrri málsgreininni er átt við þá, sem ráðnir eru af skipstjóra.

Það er rjett að leyfa þeim mönnum, sem eru á varðskipunum, að öðlast sama rjett eins og þeir væru í utanlandssiglingum, því að jeg geri ráð fyrir, að ferðir þær, er skipin fara, líkist meira utanlandssiglingum heldur en siglingum hjer með ströndum fram. Þessi skip halda sig miklu meira úti á rúmsjó heldur en skip, sem sigla hafna milli innanlands, og stundum fara þau til útlanda. Þess vegna var sett brtt. inn í frv. háttv. Ed., til þess að sýna það augljóslega, að skipverjar á varðskipunum væru jafnhátt settir og skipverjar á millilandaskipum. Af þessum ástæðum geri jeg ekki ráð fyrir, að hv. flm. sje mjög í mun að fá samþykta 5. brtt. sína á þskj. 503.

Þá er 6. brtt. á sama þskj. Jeg get ekki skilið, að hv. flm. finnist bót í því, að 6. gr. falli niður. Hvernig fer um endurgreiðslu úr lífeyrissjóði, ef sú grein er feld burtu? Á þá ekki að láta gilda um þessa menn þá einu undantekningu, sem er um símameyjar í lögum frá 1924, að þeir fái útborgað úr lífeyrissjóði, er þeir láta af starfi sínu, þó að ekki sje sökum elli eða veikinda? Jeg vona, að hv. flm., fallist á það að taka þessa brtt. aftur.

Um 7. brtt. er mjer ekkert kappsmál, hvort hún verður samþykt eða feld. Það er aðeins lítil orðabreyting, en að mínum dómi alveg óþörf.

8. brtt. get jeg fallist á. Hv. flm. hafa tekið upp 8. greinina eins og hún er í frv., en bætt því við hana, að þátttaka í verkfalli varði ábyrgð samkv. 1. nr. 33 1915. Það var auðvitað tilgangurinn með því að gera þessa menn að opinberum sýslunarmönnum, að ákvæði þessara laga næðu til þeirra, en jeg er sammála hv. flm., að það sje betra að þetta komi skýrt og ótvírætt fram í frv. sjálfu.

9. brtt. er í raun rjettri tvær brtt., því að í fyrsta lagi er farið fram á, að 9. gr. frv. falli niður, og í öðru lagi, að bætt sje inn nýrri grein. Jeg vil því leyfa mjer að beina þeirri ósk til hæstv. forseta, að hann beri þessa brtt. upp í tvennu lagi, þegar til atkvæðagreiðslu kemur. Að mínu áliti er ekki ástæða til þess að fella 9. gr. niður, því að þar stendur: „Lög þessi ná aðeins til þeirra varðskipa, sem eru eign ríkisins og ráðuneytið telur aðalvarðskip“. Þetta ákvæði er sett vegna þess, að oft eru leigðir vjelbátar til strandgæslu um lengri eða skemri tíma, og það er ekki tilætlunin, að þessi lög nái til þeirra, og eigi heldur til vitaskipsins Hermóðs, þó að hann stundi strandgæslu einhverntíma eins og komið hefir fyrir. Þetta er það, sem 9. gr. frv. á við, og jeg geri mjer í hugarlund, að hv. flm. brtt. muni ekki hafa á móti því, að hún fái að standa. Annars er það undir því komið, hvernig fer um 4. brtt., hvort 9. brtt. kemst að.

Jeg sje svo ekki ástæðu til að fjölyrða meira; aðeins endurtek jeg, að mjer þykir vænt um, að þessir tveir hv. nefndarmenn eru sammála um að fylgja frv. áfram, enda þótt brtt. þeirra verði ekki samþyktar.