07.05.1927
Neðri deild: 69. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2425 í B-deild Alþingistíðinda. (1824)

19. mál, varðskip ríkisins

Frsm. 1. minni hl. (Jörundur Brynjólfsson):

* Jeg get verið stuttorður. Það eru nokkur orð í ræðu hæstv. atvrh. (MG), sem jeg vildi minnast á. Hann gerði nokkrar athugasemdir við till. okkar, en í stuttu máli sagt voru athugasemdir hans þannig, að við gerum ekki að neinu atriði, hvort brtt. þær, sem hann drap á og fann að, verða samþ. eða ekki. — Hann gerði athugasemd við 2. brtt. og vildi fella niður þessa setningu í 2. málsgr.: „Ef í hlut á skipverji, sem skipaður er eða settur af ráðuneytinu“. Taldi hann betur á því fara. En þetta snertir aðeins þá menn, sem ráðuneytið ræður, og því höfðum við það. Ef það er hinsvegar betra, að þessi setning falli burt, þá skiftir það ekki miklu máli.

Þá drap hæstv. atvrh. á siglingatímann og taldi rjettara að hafa samskonar æfingu á þessum skipum eins og á millilandaskipunum. Jeg hefi átt tal við siglingafróðan mann og hann taldi, að æfingin væri ekki jafnmikil, og því höfum við gert þessa brtt. Annars er nú mjög lítill munur á þessu.

Um 6. brtt. er engin ástæða til þess að tala, en jeg get lýst því yfir, að við skoðum það ekki sem neitt ágreiningsatriði og látum okkur í ljettu rúmi liggja, hvernig um það fer. Að því er snertir 9. gr. frv., þá er í henni, satt að segja, alveg óþarft ákvæði, því að ekki er hjer átt við önnur skip en varðskipin. Samkvæmt orðanna hljóðan munu þessi ákvæði ekki eiga að ná til mótorbátanna. Annars má segja um þessa brtt. okkar líkt og um 6. brtt., að hún er smávægileg og skiftir ekki miklu máli. Yfirleitt hefir hæstv. atvrh. tekið þessum brtt. okkar vel, og ætla jeg því ekki að fjölyrða meira um það.

Þá verð jeg að víkja ofurlítið að hæstv. forsrh. (JÞ). Honum þótti jeg ekki hafa brugðist vel við ádrepu, er hann gaf mjer. Má vera, að honum hafi brugðist þar bogalistin, að jeg hafi ekki tekið því eins ljúfmannlega og hann ætlaðist til, en þó held jeg, að jeg hafi gert það jafnvel og hann verðskuldaði það. Ef hæstv. ráðherra hefði talað þá svipað því, sem hann gerði nú, þá hefði jeg líka talað í öðrum tón. En þó að hæstv. forsrh. talaði stutt í þetta sinn, þá varð hann samt að rangfæra ummæli mín og gera mjer upp aðrar meiningar en jeg hafði. Hann sagði, að jeg hefði verið að rjettlæta það tiltæki okkar að taka inn í frv. þetta óskyld ákvæði, með því að fjhn. væri svo illa að sjer, að þörf væri að taka fram fyrir hendur hennar. Ef við hefðum mælst hjer einir við, þá hefði jeg kannske getað búist við þessu, en þar sem allir háttv. þdm. heyrðu, hvað á milli okkar fór, þá þykir mjer undarlegt, að hann skyldi taka þannig til orða. Jeg var hvorki að tala um starfhæfi fjhn. í Nd. eða Ed. En jeg leyfi mjer að halda því fram, að athugasemdir okkar sjeu fyllilega þinglegar, og einnig þau málsatriði, sem við berum hjer fram, því að það úir og grúir af þessu í löggjöf vorri. Jeg þurfti því ekkert að rjettlæta. Og þó að frv. um laun þessara manna sje nú í annari nefnd, þá höfum við fullkominn rjett til þess að gera till. um þau. En þegar hæstv. forsrh. fór að gera lítið úr till. okkar, taldi þær lítilvægar og ekki á rökum bygðar, þá mátti nú með sanni segja, að „höggur sá, er hlífa skyldi“. Till. eru svo að segja orðrjett teknar upp úr frv. því, sem hæstv. forsrh. flutti. Við höfum ofurlítið breytt launakjörunum, en það er mjög smávægileg breyting. Hið eina frábrugðn? hjá okkur er það, að við viljum ekki koma upp stórum skara af föstum embættismönnum á skipunum. Jeg hygg, að hæstv. ráðh. veitist erfitt að telja mönnum trú um, að það sje nauðsynleg sú tilhögun á ráðningu manna á skipin.

Það, sem jeg vjek að fjhn., var það að jeg sagði, að nefndirnar hefðu ekki verið skipaðar beint með það fyrir augum að gera till. um fjármál, og jeg leyfði mjer að efast um, að menn hefðu verið valdir í fjhn. Ed. sjerstaklega til þess að fara með fjármálin, og jeg tók eitt mál því til sönnunar. Jeg býst við, að hæstv. forsrh. gangi erfitt að sanna, að afgreiðsla þess máls beri vott um starfhæfi nefndarinnar. Hann verður þá að leita til annara mála til þess að sýna það.

Þá vjek hæstv. forsrh. að launakjörunum enn og taldi óviðfeldið, að önnur nefnd fjallaði um það en fjhn. Jeg drap á það áðan, hvernig ástatt væri í löggjöf vorri í þessu efni. Það er alkunna, að launakjörunum er oft blandað saman við starfstilhögunina. Jeg hefði getað vitnað til eins máls, sem nú liggur fyrir þinginu, en það er frv. um samskóla Reykjavíkur. Því var vísað til mentmn. En auk þess, sem í því eru ákvæði um starfstilhögunina, þá eru þar líka launaákvæði. Má vera, að í nefndina hafi verið valdir starfhæfir menn með tilliti til launamála, en þó hygg jeg, að það hafi ekki verið, þegar litið er á það, hvernig nefndin er skipuð. Reglan er nú sú, að vísa málunum til nefnda eftir aðalefni þeirra. Þó að launaákvæði sjeu einhver í málinu, þá hefir það ekkert að segja. Þetta er því aðeins viðbára hjá hæstv. forsrh. Hann ætlaði að andmæla málinu, en hefir seilst helst til langt í röksemdunum gegn því. Hæstv. ráðh. telur, að ekki eigi að veita hærri laun en þau, sem stjórnin þykist geta komist af með. Jeg tel það þó stundum hæpið. Það er ekki altaf sjálfsagt, að það sje best fyrir málefnin, að launin sjeu sem lægst. Jeg verð að líta svo á, að þessi störf sjeu það þýðingarmikil fyrir okkur, ekki einungis vegna hagsmuna okkar hjer, að fiskimiðanna sje vel gætt vegna fiskiveiðanna í framtíðinni, heldur er líka löggæslustarfið þannig út á við, að vel þarf að vanda til yfirmanna þeirra, sem eiga að sjá um það. Til þess að hafa góða menn verðum við að geta boðið þeim ekki lakari launakjör en á öðrum skipum tíðkast. Við höfum nú lagt til, að hækkuð verði laun sumra, en aftur lækkuð laun annara, og byggjast till. okkar á því, hvað þessir menn geti sæmilega unað við.

Hæstv. forsrh. drap á hag landsmanna og sagði, að ekki væri vert að vera að íþyngja þeim, heldur ætti að spara laun embættismanna eins og hægt væri. Jeg er sammála honum um það, að það sje ekki nema sjálfsagt, að þetta sje gert. En jeg held nú samt, að það væri rjett, að sá sparnaður næði til fleiri manna en þessara. Það er áreiðanlegt, að til eru svo há embættislaun, að sanngjarnara væri að taka eitthvað af þeim. Hjer eru til embættismenn, sem hafa líklega um 50 þús. kr. í laun eða meira, þó að þeir sjeu nú ekki margir, og á aukatekjulið eins embættismannsins standa 30–40 þús. kr. Það er því hjer, sem á að spara. Jeg get tekið undir það, enda drap jeg á það í dag, að gjaldþoli þegnanna er misboðið eins og nú er, og má gera ráð fyrir, að það verði enn tilfinnanlegra síðar.

Jeg verð nú að segja það viðvíkjandi till. okkar um starfstilhögun og laun skipverja, að með því er mál það, sem vísað var til fjhn., ekki frá henni tekið. Hún getur gert till. um bað eftir sem áður, og ræður svo auðvitað hv. deild, hvað gera skal. En það er fjarri því að við 1. minni hl. biðjum nokkurrar afsökunar, þó að við höfum gert þessar till. Það ætti að vera öllum skiljanlegt, að við höfum ekki getað fallist á að búa til þetta embættisbákn, og til þess að tryggja það, að það yrði ekki gert, höfum við gert þessar till. Sker svo háttv. deild úr málinu.

*Ræðuhandr. óyfirlesið.