07.05.1927
Neðri deild: 69. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2429 í B-deild Alþingistíðinda. (1825)

19. mál, varðskip ríkisins

Jón Auðunn Jónsson:

Jeg stend aðallega upp út af tveim atriðum í ræðu hv. 4. þm. Reykv. (HjV). Þegar hann talar um landhelgisgæsluna, þá er eins og hann sjái ekki annað en það, sem aflaga fer, og notar þá vanalega stór orð. — Hann segir, að mikið af þeim fiski, sem veiddur er, sje fenginn í landhelgi. Mjer þykir þetta undarlega mælt, því að þó eitthvað sje ef til vill veitt í landhelgi, þá er það ekki nema mjög lítill hluti þess fiskjar, sem hjer er veiddur. Af þeim tveim togurum, sem jeg þekki til, þar sem jeg hefi með útgerð annars að gera og hins að nokkru leyti, hefir allur aflinn, að undanteknum 30 fötum af öðrum þeirra og 50 fötum af hinum, veiðst á Selvogsbanka. Jeg get fullyrt, að hvorugur þessara togara hefir nokkurntíma komið í landhelgi. Slík fullyrðing, sem hv. 4. þm. Reykv. kom með áðan, er því mjög óviðfeldin hjer á Alþingi.

Þá. segir þessi sami hv. þm., að starfsmönnum á varðskipunum sje ætlaður lengri vinnutími en á öðrum skipum. Hann ber þetta þó til baka með ummælum sínum um landhelgisgæsluna að öðru leyti. Það er nú svo, að á þessum skipum eru ekki fleiri menn en það, að það má engan þeirra missa, ef á að taka skip. Þegar skip er tekið, þarf að skjóta út báti til þess að fara út í sökudólginn. En þegar búið er að senda hann, þá eru ekki fleiri menn eftir en komist verður af með til þess að stjórna skipinu. Ef nú á að skifta í vökur, þannig að altaf sje 1/3 hluti skipverja undir þiljum, þá er alveg ómögulegt að handtaka nokkurn sökudólg. — Hv. þm. (HjV) sagði, að hjer væri gerð meiri krafa til vinnu en á öðrum skipum. En á ræðu hans áðan skildist mjer, að varðskipin lægju í höfn 12 daga á mánuði hverjum og það bara í Reykjavík, og svo einhvern tíma á öðrum höfnum. Er nú samræmi í þessu? Skipin liggja að sögn hv. þm. (HjV), sem er nú auðvitað ekki rjett, 12 daga í höfn á hverjum mánuði. En má jeg nú spyrja: Er þessum mönnum, sem eru þannig 12 daga í höfn aðeins í Reykjavík á hverjum mánuði, ofþjakað með 16 tíma vinnu þessa fáu daga, sem þeir eru úti. Nei, röksemdir hv. 4. þm. Reykv. stangast illilega, vegna þess að þær hafa tvöfaldan tilgang. Þær eiga í fyrsta lagi að setja eins mikinn blett á landhelgisgæsluna og hægt er, og í öðru lagi að koma skipverjum sem mest undir yfirráð þeirra manna, sem stjórna verkalýðsfjelögunum hjer í Reykjavík.