07.05.1927
Neðri deild: 69. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2438 í B-deild Alþingistíðinda. (1832)

19. mál, varðskip ríkisins

Frsm. 1. minni hl. (Jörundur Brynjólfsson):

* Hv. þm. Barð. er vorkunnarmál, þótt hann heimti skýringu, en jeg hafði sannast að segja haldið, að hann væri búinn að átta sig á þessu. Nú sje jeg, að svo er ekki, og skal jeg því upplýsa þetta fyrir honum.

Í þessari málsgrein, sem hv. þm. vill fella burt, er það aðalatriðið, að skipherra getur sagt upp þeim mönnum, er hann ræður sjálfur á skipið. Þetta er ákvæði þessarar greinar. (HK: Þetta er vitleysa, og ekkert annað).

Ef hv. þm. les greinina, sjer hann, að þetta er rjett, en jeg hjelt, að hann hefði komið auga á þetta og þyrfti því ekki skýringar við. Í næstu málsgr. er átt við alla skipverja, að þeim megi víkja burt, ef ríkar ástæður eru fyrir hendi, einnig þeim, sem ráðuneytið hefir ráðið. En þá skal skýra ráðuneytinu frá málavöxtum, sem síðan leggur úrskurð á málið.

Að þessu lýtur síðari málsgrein. Þó að skipherra víki burt þeim mönnum, sem hann hefir ráðið, skal hann einnig skýra ráðuneytinu frá málavöxtum, og sjeu ónógar ástæður fyrir frávikningu, fær skipverji að halda stöðu sinni sem áður. Þetta ákvæði fyrstu málsgr. er því aðeins til tryggingar fyrir skipverja.

Hvað viðvíkur 8. gr., þá er þar talað um að koma fram ábyrgð á hendur mönnum og gert ráð fyrir, að brotið sje þannig vaxið, að ekki nægi til frávikningar. Brotið getur verið þess eðlis, að koma þurfi fram ábyrgð, en stundum nægir líka frávikning um stundarsakir eða fyrir fult og alt. Að þessu lúta ákvæði 8. gr.

Nú þegar jeg hefi skýrt þetta fyrir hv. þm., vona jeg, að honum sje ljóst, að brtt. hans er til hins verra og að þessi ákvæði mega ekki falla niður.

*Ræðuhandr. óyfirlesið.