14.05.1927
Efri deild: 74. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2444 í B-deild Alþingistíðinda. (1840)

19. mál, varðskip ríkisins

Frsm. (Jóhann Jósefsson):

Við umræður um þetta mál hefir háttv. 5. landsk. (JBald) einatt talað um það sem hjegómamál. Það er eins og hann hafi viljað taka sjer í munn Prjedikarans orð: „Alt er hjegómi“.

Hið sama segir hv. 5. landsk. um þetta mál, hvenær sem það ber í góma. Hann segir, að þetta frv. sje hjegómi, vegna þess, að hann skilur það ekki. Nei, hver ætlast svo sem til þess, að hann geti skilið það? ! Og hver tekur yfirleitt minsta mark á þeim firrum, sem hann kemur með í sambandi við varðskipsmálin? Hann hefir nú lagt sig allan fram í þessu máli til þess að gera stjórnina tortryggilega og hann hefir reynt að hæðast að yfirmönnum varðskipanna. Hann hefir hjer á löggjafarþingi þjóðarinnar borið á þá beint og óbeint tilbúnar sakir, eins og flokksbróðir hans í hv. Nd., sem gerði hið sama á þann hátt og með þeim afleiðingum, að jeg tel honum hafa verið það til minkunar opinberlega. Þessi er nú framkoma hv. þm. (JBald) í strandvarnarmálinu að því er snertir hina formlegu hlið þess. Hann skilur ekki, um hvað hann er að tala, og veit ekki, hvað hann fer með. Hann fárast út af því, að það sje beitt dæmafárri harðneskju við menn á varðskipunum. Jú, sjer er nú hver harðneskjan, sem frv. beitir þessa menn með því að gera þá að opinberum sýslunarmönnum! Hv. þm. virðist ætlast til þess, að ekki þurfi að hafa neitt nákvæmari ákvæði um varðskipin og mennina á þeim heldur en um skip, sem gerð eru út á fiskveiðar eða því um líkt, og er það eftir öðrum vitsmunum hans í þessu máli.

Þá kom hann enn með það, sem hann hefir áður margtönlast á, að skipverjum á varðskipunum mundi verða ofboðið með vinnu. Jú, hann skilur ekkert enn og reynir ekki að útvega sjer neinar upplýsingar, en ef honum eru gefnar upplýsingar, þá trúir hann þeim ekki! Sama er að segja um samherja hans í háttv. Nd. (HjV), sem hjelt því fram og staðhæfði það í þingræðu, að skipverjar á varðskipunum væru látnir vinna 16–18 tíma í sólarhring og stundum 24 tíma. Þetta var nú rekið ofan í hann aftur, því að það var sannað, að skipverjar á varðskipunum hafa reglubundinn vinnutíma. Þeir hafa þrískiftar vaktir, sem kallað er, og hafa jafnan 8 tíma vinnu. Það má nú vera, að í augum hv. 5. landsk. sjeu þeir menn ólánsamir, sem lenda á þessum skipum. En þá mætti víst telja flesta ólánsama. Jeg hefi að minsta kosti ekki sjeð meiri hrygðarsvip á þeim en öðrum, og jeg veit, að þeir eru ekki óánægðir.

Hv. 5. landsk. talaði mikið um, að yfirmennirnir á varðskipunum væru smásmugulegir. Og hvert sótti hann þá visku? Til útlanda, eins og alt annað! Það var svo sem auðvitað! Hann miðar alt sitt starf við útlendar fyrirmyndir og heldur víst, að allir eigi að gera það. Og vegna þess að hann mun hafa heyrt getið um það, að einhver erlendur liðsforingi hafi verið tiltektasamur, þá finst honum sjálfsagt að reyna að klína óhróðri á varðskipsforingjana okkar, kallar þá smásmugulega og hjegómlega menn, sem ekki láti sjer nægja minna en skriðdýrslegan undirlægjuhátt þeirra, sem þeir eiga yfir að ráða. Þetta lýsir vel samviskusemi hv. þm.

Jeg mótmæli því algerlega, að það hafi komið fram við meðferð þessa máls, að það sje tilgangur frv. að gera ver við þessa menn en aðra borgara þjóðfjelagsins. Eftir frv. eru þeir gerðir að opinberum sýslunarmönnum og hafa rjettindi og skyldur samkvæmt því. Það vill hv. þm. ekki vera láta. Af hverju? Af því að þá geta þeir, sem lifa á því að hvetja aðra til verkfalla og óeirða, ekki notað þessa menn í sínar þarfir. Jeg vil hjer minna á orð, sem hinn látni merkismaður Bjarni Jónsson frá Vogi hafði um þennan hv. þm. (JBald) í Nd., er hann barðist þar með hnúum og hnefum gegn málefni, er Bjarni bar fram um sáttatilraunir í atvinnudeilum. Bjarni sagði þá, að hann þekti menn, er skriðu á bökum alþýðunnar til þess að komast í valdasess. Já, háttv þm. (JBald) sárnar nú að missa þarna spón úr askinum sínum, þar sem hann getur ekki lengur látið verkfallaboð sín ná til háseta á varðskipunum. Þetta er undirtónninn í allri mótstöðu hans; þetta er það, sem honum gremst, að mega ekki siga þessum mönnum út í verkfallsforaðið. En honum skjöplast hrapallega, ef hann heldur, að hann geti fengið Alþingi á sitt mál. Það sýnir best meðferð frv. í hv. Nd. Samherjar hans gengu þar jafnvel feti framar en stjórnin hafði gert, því að þeir bættu því inn í 8. gr. frv., sem við fylgismenn frv. í þessari hv. deild álitum ekki þörf að taka fram sjerstaklega, að þátttaka í verkfalli skoðaðist sem brot á lögum nr. 33 1915. Þetta vildu þeir setja inn til þess að það kæmi skýrt og greinilega í ljós, að lögin, sem banna opinberum starfsmönnum að gera verkfall, ná einnig til þessara manna, og við höfum ekkert á móti því, að þetta standi í frv.; síður en svo.

Þá sagði hv. þm., að allur tónninn í þessu máli frá hendi stjórnarinnar og þeirra manna, sem hafa um það fjallað, væri hermenskutónn. En það hefir verið tekið fram af meiri hl. nefndarinnar, að þessi tegund löggjafarinnar samsvari sjólöggæslu annarsstaðar, en ekki sjóliði. Jeg benti þegar í upphafi á það, að þetta ætti ekkert skylt við það, sem á erlendu máli er nefnt „marine militaire“, en samt sem áður er hv. þm. sífelt að klifa á þessu. En til hvers? Hvers vegna kallar hann þetta herlið? Er tilgangurinn sá, að gera varðskipin og mennina á þeim óþokkaða og tortryggilega í augum þjóðarinnar? Heldur hv. þm., að hann vinni þjóðinni gagn með þessum ástæðulausu fullyrðingum, sem bygðar eru algerlega á röngum forsendum? Það er máske of mikið haft við hv. þm. að svara honum alvarlega. En hann þarf ekki að ætla það, að þann með tortrygni og skilningsleysi sínu sje að vinna málinu gagn. Jeg býst að vísu við, að hv. þm. láti sjer ekki segjast, þó honum sje bent á, að hann fari villur vegar í þessu máli, og skal jeg því ekki tefja tímann með lengri ræðu að sinni, en jeg mun þó svara honum, ef hann gefur sjerstakt tilefni til þess.