14.05.1927
Efri deild: 74. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2456 í B-deild Alþingistíðinda. (1844)

19. mál, varðskip ríkisins

Frsm. (Jóhann Jósefsson):

Jeg skal ennþá einu sinni benda háttv. 5. landsk. (JBald) á það, að allur fjöldi íslenskra togaraeigenda álítur það lífsskilyrði fyrir útveginn, að landhelgin sje vel varin. Þetta hlyti hv. þm. sjálfur að sjá, ef hann vildi athuga málið. Hann ímyndar sjer, að þeir álíti sig hafa mestan hag af því, að hún sje sem verst varin. En þetta er vitanlega ekki svo. Hvorki hafa þeir hag af því, nje álíta sig hafa hag af því. Sem betur fer eru ekki allir menn svo skammsýnir sem hv. þm. (JBald) virðist álíta, að þeir vilji eyðileggja mikla fjársjóði fyrir stundarhagnað. En það sýnist vera bjargföst skoðun hv. þm„ að allir menn sjeu svo lítilsigldir. — Hv. þm. talaði um ró um landhelgisgæsluna. Jeg vil ekki telja hv. þm. sjálfan meðal óróaseggja, en hann elur þá á brjóstum sjer. Það verður altaf ró um landhelgisgæsluna, meðan þeim uppivöðslulýð tekst ekki að vekja úlfúð og andúð gegn þeim, sem landhelginnar eiga að gæta. Jeg hefi þá trú á Íslendingum, að þeir geti eins varið strendur lands síns eins og allar aðrar þjóðir. — Rjettarrannsóknin í Óðinsmálinu hefir síður en svo sannað, að áburðurinn á skipstjóra skipsins hafi verið sannur. En hann hefir opinberlega skorað á hv. 4. þm. Reykv. að birta ásakanirnar á þeim vettvangi, að hann gæti borið hönd fyrir höfuð sjer með málsókn. En hv. 4. þm. Reykv. hefir láðst að gera það til þessa.

Hv. þm. mintist á verkföll og áleit mig andvígan þeim. Þetta er rjett. Jeg álít þau altaf til skaða, en aldrei til gagns. Því vil jeg, að altaf sje reynt að komast hjá verkföllum. Starfsemi hv. 5. landsk. (JBald) er í þveröfuga átt. Hann virðist vilja leyfa, að það sje knúið fram með ofbeldi, sem jeg vil, að sje jafnað í sátt og samlyndi. Hv. 5. landsk. veit vel, að það hefir lengst af verið svo, meðan þessi þjóð hefir búið hjer í landi, að við höfum komist af án þess að apa útlendinga með verkföllum og því, sem því miður fylgir þeim svo oft, sem sje óspektum. Og jeg álít Íslendinga því ver farna, sem sá hugsunarháttur breiðist meira út að knýja fram vilja sinn með ofbeldi. (JBald: Vill hv. þm. þá ekki koma í veg fyrir vinnuteppur?). Jeg skil varla, að miklar ráðstafanir þurfi að gera til að útiloka vinnuteppur, það er að segja þær, sem ekki stafa af misbresti í árferði, hjer á landi. Þær hafa ekki komið svo oft fyrir. — En hvernig var það annars í brauðgerðinni? Fækkaði forstjórinn ekki starfsmönnum þar, þegar hann þóttist hafa of lítið handa þeim öllum að gera? Þetta er það, sem allir atvinnurekendur hljóta að gera. Það notar enginn 20 menn til þess starfa, sem 10 fá vel afkastað. — Jeg vil að lokum segja það, að jeg er hissa á hv. 5. landsk. og jeg vorkenni honum að hafa valið þetta sjálfstæðismál til að skeyta á skapi sínu, þótt hann sje óánægður og úrillur yfir afdrifum annara mála í hv. þd.