21.02.1927
Efri deild: 10. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 143 í B-deild Alþingistíðinda. (185)

9. mál, réttur erlendra manna til að stunda atvinnu á Íslandi

Atv.- og dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Jeg hefi ekki getað sannfærst af ræðu hv. 5. landsk. (JBald) um, að hans brtt. sje betri en það, sem frv. segir. Þótt svo kunni að vera, að aðrir hafi ekki sýnt fulla kurteisi gagnvart okkur, þá leiðir ekki þar af, að við eigum ekki að sýna fulla kurteisi fyrir því. Það er enginn bættari með því að gjalda ilt með illu. Hv. 5. landsk. veit, að við eigum að gjalda ilt með góðu; þá er fegurst að farið. Það er ekki eingöngu um þetta atriði, heldur viðskifti þjóða yfirleitt, að maður á ekki að fara lengra en maður óskar, að farið verði gagnvart sjer. Og jeg verð að segja, að jeg vildi ekki fá slík lög á mig fyrirvaralaust.

Hv. þm. talaði um, að þriggja mánaða frestur væri nægur. En þá hefði hv. þm. (JBald) átt að koma með brtt. í þá átt, að lög þessi öðluðust gildi 3 mánuðum eftir staðfestingu. En það er ekki rjett, að stjórnin geti ráðið, hvenær frv. þetta verður að lögum. (JBald: Hún getur haft mikil áhrif). Má vera. En jeg get sagt hv. 5. landsk. það, að það eru ekki allir þm. eins hrifnir af þessu frv. eins og hann er. Það er langt frá því.

Að líkja þessu máli við tolla, sem settir sjeu fyrirvaralaust, er ekki hægt; það er alt of ólíkt til þess.

Að síðustu vjek hv. þm. að því, að það ætti að veita lítið af undanþágum að því er alment verkafólk snertir, og vildi brýna það fyrir þeim stjórnum, sem með þetta mál fara, sem sjálfsagt verða margar. Jeg skal ekkert hafa á móti þessu út af fyrir sig, en jeg vil aðeins benda á, að ekki má einungis hugsa um verkafólkið í þessu sambandi; það verður líka að hugsa um atvinnurekendur. Og ef svo er, að of mikil hætta er á, að of mikið dragist frá einhverjum atvinnuvegi af verkafólki, þá er sjálfsagt að bæta úr því með því að leyfa innflutning á verkafólki. Jeg get ímyndað mjer, að ef engir erlendir verkamenn koma norðanlands, þá geti það komið fyrir, að of mikið dragist af fólki frá landbúnaðinum til síldveiðanna. Það verður að taka tillit til þessa alveg eins og verkafólksins. Og það er meiningin með undanþáguheimildinni, að þetta tvent á hvaða stjórn sem er að vega hvort á móti öðru, en hugsa ekki einungis um verkamenn eða atvinnurekendur.