16.02.1927
Neðri deild: 7. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2464 í B-deild Alþingistíðinda. (1850)

23. mál, járnbrautarlagning og virkjun Urriðafoss

Jakob Möller:

Jeg er ekki svo fróður um þetta mál, að jeg hafi ástæðu til að halda langa ræðu. En það fjellu þau orð í ræðu hv. 1. þm. Rang. (KIJ), sem gerðu það að verkum, að mjer fanst rjettara á þessu stigi málsins að lýsa að nokkru leyti minni afstöðu til þess. Jeg heyrði, að hv. þm. leyfði sjer að leggja þann skilning í sjerleyfisveitinguna í fyrra, að þar með væri mótstaðan á móti slíkum sjerleyfisveitingum brotin á bak aftur. Þetta hygg jeg, að sje hinn mesti misskilningur. Jeg segi fyrir mig, að þó að jeg ljeti sjerleyfismálið í fyrra afskiftalaust eða afskiftalítið, þá get jeg ekki skoðað það sem neina skuldbindingu, ef slíkum leyfisbeiðnum rignir eins og skæðadrífu yfir þingið. Og þegar farið er fram á sjerleyfisveitingar, þannig að ekki er sýnilegt, að þær sjeu til annars en að „slá“ út á þær fje hingað og þangað úti um heiminn, er ekki hægt að búast við því, að undirtektirnar verði sjerlega góðar. Það var nokkru öðru máli að gegna um sjerleyfismálið á síðasta þingi, þar sem skoða mátti það sem byrjunartilraun, til þess að sjeð yrði, hvernig slík virkjun gæfist. En ekki hefir tíminn, sem síðan er liðinn, gefið glæsilegar vonir um árangur. Það er auðvitað, að því fleiri sem sjerleyfin eru af sama tægi, því minni eru líkurnar til þess, að þau komi til framkvæmda. Þau koma til með að keppa hvert við annað á peningamarkaðinum. Og það er viðbúið, að augu peningamanna opnist fyrir því, að hjer er eitthvað óhreint á bak við.

Þá taldi hv. 1. þm. Rang. það einna mest til stuðnings sínu máli, að þeir, sem að þessu stæðu í Noregi, hefðu þegar lagt í það svo mikið fje, að þeir mættu til að hrinda fyrirtækinu áfram. Þetta er sjálfsagt alveg rjett. Svo og svo margir menn hafa þegar lagt stórfje í þetta fyrirtæki. Nú eru þeir hræddir um að tapa því, og neyta því allra bragða til þess að fá fleiri menn með sjer til að geta bjargað einhverju af fje sínu.

Ýmislegt í þessu máli er mjög athugavert. Eitt er það, að í upphaflegu sjerleyfisbeiðninni er hvergi minst á járnbraut, enda hefir mjer skilist, að það hefði alls ekki verið tilgangur fjelagsins Titans að leggja járnbraut, heldur væri járnbrautin komin inn sem beint skilyrði frá landsstjórninni. En það er út af fyrir sig grunsamlegt, að sjerleyfishafi á að hafa byrjað á járnbraut ekki síðar en 1. maí 1929, en á öðrum framkvæmdum þarf ekki að byrja fyr en 1. júlí 1934. Ef til er ætlast, að fjelagið geti byrjað á járnbraut 1929, hlýtur það að hafa þann undirbúning, sem þarf til þess að byrja á öðrum framkvæmdum fyr en 1934. Járnbrautin er sem sagt komin inn fyrir „press“ stjórnarinnar, en ekki af því að hún heyri til fyrirætlunum Titans.

Þá er það eftirtektarvert, að það er alveg óákveðið, hvað þetta fyrirtæki á að starfa. (KIJ: Jeg tók það skýrt fram). Í frv. er talað um saltpjetursvinslu eða annað. Það er ekki bundið við neitt. Það er bara eitthvað. — Það er afareinkennilegt að stofna til fyrirtækis, sem kostar 41 milj. kr., án þess að vita með vissu, hvað það á að starfa. Það er og alkunna, að saltpjetursvinsla hefir lengi verið starfrækt í Noregi og sannarlega ekki borið sig svo vel, að líklegt sje, að fjelagið með það eitt fyrir augum taki á sig stórkostlegar skuldbindingar, sem eru fyrir utan þess verksvið. Nei, mennirnir eru að gera sjer vonir um, að þeir geti fundið upp eitthvað annað og glæsilegra en saltpjetursvinslu. En setjum nú svo, að saltpjetursvinsla væri fastákveðin. Þá mætti ætla, að til væru einhverjar áætlanir um, hvernig hún mundi borga sig. Jeg veit ekki til, að neitt slíkt sje til. Jeg verð því að álykta, að annaðhvort sjeu þær áætlanir ekki sem glæsilegastar — eða þá alls engar. Fyrst þegar stofnað var til þessa fyrirtækis, var það ætlað saltpjetursvinslu, og þá voru horfurnar mjög góðar. En síðan hefir ástandið gerbreyst, og hugsa jeg helst, að ef áætlanir eru nokkrar til, sjeu þær síðan þá. En þetta alt verður sjálfsagt upplýst.

Jeg held sem sagt, að mjög varlega verði að fara í þetta mál. Þó að járnbrautin sje höfð á oddinum, er hætt við, að hún verði landsmönnum ekki til mikillar ánægju, og þó að von sje um, að hægt verði að fara að vinna að henni 1929, er viðbúið, að það verði bara tyllivon. En stjórnin og þeir þm., sem voru að berjast fyrir járnbrautarmálinu á síðasta þingi, fá hjer með gott tækifæri til að víkja málinu til hliðar um sinn og halda kjósendum hjer í suðursýslunum rólegum fram yfir næstu kosningar.

Önnur hlið á þessu máli er sú, að hv. 1. þm. Rang. taldi aðalmótstöðuna risna af hræðslu við útlent fje og útlent verkafólk. En þetta er ekki alveg rjett. Hræðslan er ekki í raun og veru hræðsla við útlent fje, heldur við útlend áhrif. Það er kunnugt af sögu svo margra landa, sem orðið hafa fyrir því, að aðrar þjóðir hafa ruðst þar inn, að með tímanum hafa þær þjóðir lagt hinar undir sig. Jeg skal játa, að jeg er ekki svo mjög hræddur við þetta. Jeg er ekki hræddur um, að það komi til, því að jeg hefi enga trú á, að þetta fyrirtæki komist til framkvæmda. En annað mál er það, hvort rjett er að vera að veifa framan í útlendinga sjerleyfum, sem engin von er um, að verði nokkurntíma notuð. Það setur lítt æskilegan blæ á landið.

Jeg tel sjálfsagt, að þetta mikla mál gangi óáreitt til 2. umr. og nefndar. Jeg vil beina því til nefndarinnar, að hún gangi eftir frekari upplýsingum um fyrirætlanir Titans en jeg hefi orðið var við, að til væru, og hvaða atvinnurekstur fjelagið ætlar sjer að reka hjer. Hv. 1. þm. Rang. harmaði mjög, að Titan hefði ekki fengið sjerleyfið fyrir nokkrum árum, vegna þess að það hefði þá hlotið að fara á hausinn, en landsmenn hefðu setið eftir með gróðann. Jeg efast um, að svo hefði orðið. Það hefði ekkert orðið úr framkvæmdum, því að þegar til kom, kom upp úr kafinu, að atvinnureksturinn var alt annað en glæsilegur.