16.02.1927
Neðri deild: 7. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2467 í B-deild Alþingistíðinda. (1851)

23. mál, járnbrautarlagning og virkjun Urriðafoss

Þórarinn Jónsson:

Það var aðallega tvent, sem kom mjer til að standa upp. Annað var ummæli hv. 1. þm. Rang. um sjerleyfisveitinguna í fyrra, en þar hefir hv. 1. þm. Reykv. tekið af mjer ómakið. Hitt atriðið byggist á því, að hv. 1. þm. Rang. tók fram, að það hefði verið í ráði áður, að þetta fjelag virkjaði hjer fossa, og þá hefði fyrsta skilyrðið verið járnbrautarlagning, og mundi því hafa verið byrjað á henni 1919, ef fyrirætlanir fjelagsins hefðu þá komist í framkvæmd eins og til var ætlast. Þessi ummæli finst mjer leiða til þess, að rjett sje að athuga, hvort í raun og veru sje þörf á því, að ríkissjóður leggi fram fje til járnbrautarlagningarinnar. Því að þó að stjórnin rjeði þá töxtum og því um líku, er það ekki svo mikilvægt atriði, að það út af fyrir sig sje kaupandi háu verði. Fjelagið mundi aldrei sprengja svo upp taxtana í eigin hagsmuna skyni, að það fengi ekki nægan flutning. Jeg hefi trú á því, að hægt verði að fá fjelagið til að taka að sjer járnbrautina að öllu leyti, og vil jeg skjóta því til væntanlegrar nefndar að athuga þann möguleika.

Það er nú svo komið, að í meðvitund þjóðarinnar eru 2 miljónir lítilfjörleg upphæð. Menn gera sjer yfirleitt alls ekki grein fyrir því, hvað 2 miljónir eru í raun og veru mikið fje. En það má sannarlega margt gera við 2 miljónir. Það má leggja 200 km. af dýrustu vegum. Jeg held, að vegamálastjóri geri ráð fyrir, að flestar þær ár, sem virkileg þörf er á að brúa, megi brúa fyrir 700 þús. kr., sem er aðeins rúmur þriðjungur af þessari upphæð (2 milj.). Þetta er afarmikilsvert atriði, þegar þess er gætt, að altaf eru að koma kvartanir víðsvegar af landinu, beiðnir um bætta vegi og brýr. Fyrir 2 miljónir má rækta 2000 hektara og fá 60–90 þúsund hesta af töðu.

Núna er kreppa framundan og hætta á, að þeir tollstofnar og tekjustofnar, sem við höfum bygt á, bresti. Hvað er þá til ráða? Það verður að leggja á nýja skatta. 1929 verður kreppan kannske liðin hjá og komið góðæri. Vill nú þingið taka fyrsta góðærið eftir mikla kreppu til þess að íþyngja þjóðinni með nýjum lánum? Er ekki betra að vita dálítið fótum sínum forráð? Við þurfum að fara hægt og sníða okkur stakk eftir vexti, þegar tekið er í taumana af sjálfri náttúrunni.

Jeg vildi sem sagt vekja athygli nefndarinnar á því, að rjett er að athuga, hvort fjelagið Titan mundi ekki vilja taka að sjer járnbrautina að öllu sem nauðsynlegt skilyrði fyrir framkvæmd virkjunarinnar, og vona jeg, að málið hafi þann góða enda, að svo verði.