16.02.1927
Neðri deild: 7. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2482 í B-deild Alþingistíðinda. (1857)

23. mál, járnbrautarlagning og virkjun Urriðafoss

Forsrh. og fjrh. (Jón Þorláksson):

Hv. þm. V.-Húnv. (ÞórJ) heyrði ekki alt, sem jeg sagði, og það kom líka greinilega fram í svari hv. þm. Jeg sagði ekki, að það væru ekki fluttar út neinar vörur frá þessum hjeruðum; það hefði líka verið rangt, heldur, að þær væru allar fluttar út frá höfnum, sem lægju utan þessa svæðis. Sjálft svæðið hefir ekki hafnir til þess, en hitt er vitanlegt, að bæði frá Reykjavík og Vestmannaeyjum eru vörur fluttar út frá þessu svæði. Svo er heldur ekki því til að dreifa, að þetta svæði geti selt allar sínar vörur fyrir svo hátt verð innanlands, að ekkert þurfi að flytja út úr landinu, og þar við bætist, að þeir, sem gera sjer von um vöxt og viðgang landbúnaðarins, eins og jeg vil gera mjer von um, þeir munu einnig verða að reikna með því, að þetta svæði verði að senda miklu meira af vörum sínum út en það gerir nú. Hinn spádómurinn, að það muni þurfa að leggja nýjan veg austur, þó að járnbrautin komi, stafar, held jeg, af vanþekkingu. Jeg hygg, að það sje álit allra þeirra sjerfræðinga, sem við höfum nú á að skipa, að þessi vegur, sem nú er austur, muni nægja með hæfilegu viðhaldi fyrir þær bílferðir, sem þarf að hafa ásamt járnbrautarrekstri, en hinu heldur vegamálastjóri fram, að

þessi vegur einn saman sje allsendis ófullnægjandi til að þola alla umferð milli Suðurlandsundirlendisins og Faxaflóa.