16.02.1927
Neðri deild: 7. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2483 í B-deild Alþingistíðinda. (1858)

23. mál, járnbrautarlagning og virkjun Urriðafoss

Ólafur Thors:

Jeg leiði hjá mjer að tala um þá hlið þessa máls, er að járnbrautinni veit, að öðru leyti en því, að jeg er algerlega sammála hv. þm. V.-Húnv. (ÞórJ) um það, að reynist fært að hrinda járnbrautarlagningunni í framkvæmd án fjárframlags úr ríkissjóði, kýs jeg, að sú leið sje farin, þótt jeg hinsvegar geti hugsað mjer, að ríkissjóður leggi eitthvað af mörkum, ef nauðsyn ber til.

Jeg hefi aðallega kvatt mjer hljóðs vegna þeirra ummæla, er hv. 1. þm. Rang. (KIJ) viðhafði, að framkoma þingsins í fyrra hafi brotið á bak aftur alla mótstöðu gegn veitingu á sjerleyfum til fossavirkjana. Því vil jeg mótmæla. Slíkt var áreiðanlega ekki meining þingsins.

Mjer er í fersku minni kosningabaráttan hjer í Reykjavík 1919; þeir hæstv. forsrh. (JÞ) og háttv. 1. þm. Reykv. (JakM) leiddu þá saman hesta sína, og bar margt á milli. Um eitt voru þeir þó sammála, nefnilega, að í virkjunarmálum bæri að fylgja ákveðinni stefnu og fara að öllu mjög varlega.

Jeg hefi nú að vísu ennþá ekki heyrt nein ný rök fyrir því, að oss sjeu nú fleiri leiðir færar en vjer áður hugðum, en þó gæti jeg vel hugsað, að svo væri, því að sjálfsögðu hefir margt breyst hjer á landi á þessum árum. En ef til vill mætti jeg þá vænta þess, að þessi rök yrðu nú borin fram hjer í deildinni, áður en fullnaðarákvörðun verður tekin um það sjerleyfi til virkjunar á Urriðafossi, er nú liggur fyrir deildinni.

Þótt jeg nú bendi á, að mjer þyki rjett að fara að öllu sem varlegast, geng jeg þess ekki dulinn, að veigamikil hlunnindi til handa ríkissjóði fylgja fossavirkjuninni. En jeg lít svo á, að meta beri þau hlunnindi og bera saman við ágallana, og vil jeg þá, að það eitt ráði úrslitum, hvað best er fyrir Íslendinga. Hitt læt jeg mig engu skifta, þótt erlendir fjesýslumenn fái ekki sótt hingað þann feng, er þeir sækjast eftir, og ekki er jeg heldur sá mannvinur, að mjer þyki mikils um vert, þótt sannað væri, að með virkjun íslensku fossanna væri að einhverju örlitlu leyti aukin heimsframleiðslan og þar með að sama skapi bætt aðstaða þeirra, er þessa veröld byggja.

Þegar meta á kost og löst virkjunar yfirleitt, verður að sjálfsögðu fyrir að athuga beinar og óbeinar afleiðingar af slíkri starfsemi í landinu, og skal jeg ekki að þessu sinni orðlengja um það, en aðeins benda á, að ríkissjóði er vitaskuld mikill fengur að þeim tekjuauka, er fossavirkjunin færir honum, svo sem og að það er mikill ávinningur að fá nýjan tekjustofn, óskyldan þeim, sem fyrir eru í landinu. En þessa kosti verður að athuga í sambandi við ýmislegt annað, sem leiðir af þessari starfsemi. Jeg er nú ekki þeirrar skoðunar, að veruleg hætta stafi af því, þótt eitthvað af erlendum verkamönnum verði flutt inn í landið, þótt jeg hinsvegar telji slíkt síst til bóta. Þessi hlið málsins er aukaatriði. Hættan felst í öðru, og það er tvímælalaus skylda löggjafarvaldsins að vera á verði gegn henni. Jeg tek það fram og legg áherslu á, að jeg ræði hjer um stefnur í þessu máli, og þá sjerstaklega með hliðsjón af þeim ummælum, er háttv. 1. þm. Rang. hafði og að framan getur, og þá hika jeg ekki við að láta í ljós þá skoðun, að verði þeirri stefnu fylgt, að veita sjerhvert það sjerleyfi til virkjunar, sem um er sótt, ef aðeins sæmilega tryggilegt þykir, að sjerleyfið verði hagnýtt, þá hefði hitt verið miklu farsælla, að neita með öllu allri virkjun á íslenskum fossum. Jeg er þess nefnilega fullviss, að ef erlent fjármagn tekur til starfa hjer á landi í svo ríkum mæli, þá mundi sjálfstæði voru stafa af því veruleg hætta, enda bendir reynsla annara smáþjóða til þess. Við Íslendingar höfum nokkra reynslu í þessum efnum, þó að hún sje að vísu eigi alveg hliðstæð, þar sem er fiskiveiðalöggjöf vor og landhelgislöggjöf; vjer höfum þráfaldlega rekið oss á það, að í hvert skifti, sem oss þykir æskilegt að gera einhverjar breytingar á þessum lögum, hafa útlendingar risið upp og mótmælt, aðeins vegna þess, að þeir eiga hjer nokkurra hagsmuna að gæta á þeim sviðum.

Það er nú ljóst, að þeim mun víðtækari, sem starfsemi þeirra verður hjer í landi, þeim mun oftar munu þeir þykjast þurfa að hafa afskifti af löggjöf vorri, og þeim mun tíðara mun það verða, að sjálfsákvörðunarrjettur vor mun hindraður sakir hagsmuna útlendinga. Meðal annars í þessu liggur stórvægileg hætta, sem jeg þó að þessu sinni ekki skal víkja frekar að.

Hv. 1. þm. Rang. gat um, að virkjunum fylgir mikil atvinna fyrir íslenska verkamenn, en jeg vil leyfa mjer að benda á, að hjer á landi er einskonar stóriðja, þar sem er íslenska togaraútgerðin, og ef ætti að tíunda, hver ágalli fylgir henni, má benda á, að hún hefir orðið til þess að draga fólkið úr sveitunum, en jeg álít hinsvegar, að sú stóriðja hafi verið okkur á allan hátt nauðsynleg og sje alls góðs makleg, meðal annars vegna þess, að jeg hefi ekki sjeð aðrar leiðir fyrir ríkissjóð til þess að fá fje til þarfa sinna en að sækja það í hennar vasa. Þess ber og að geta, að stóriðja þessi er öll í eigu íslenskra manna og að allur arðurinn af henni hefir því fallið Íslendingum.

Hjer er nú verið að ræða um að stofna til nýrrar stóriðju, — stóriðju, sem öll verður í eigu erlendra manna og arðurinn af henni fellur því að mestu erlendum mönnum. En ágalla hefir hún þá sömu og sú stóriðja, sem fyrir er í landinu, nefnilega að draga vinnulýðinn frá landbúnaðinum, og vil jeg sjerstaklega beina athygli hv. þdm. að þessari hlið málsins, með því að jeg tel þá alla einhuga um að efla ræktun landsins.

Jeg vil ennfremur benda á, að erlendur atvinnurekstur mun ávalt verða stopull fyrir þjóðfjelagið. Erlendir menn hugsa fyrst og fremst um sinn hag, en þeir, sem grónir eru upp með þjóðinni, munu að vonum taka miklu meira tillit til hagsmuna hennar heldur en útlendingar. Jeg álít fyrir mitt leyti, að hjer sje margfalt verkefni fyrir alla vinnandi menn um mjög langt árabil, því að hjer er alt ógert, og ef vjer þörfnumst nokkurs, þá eru það fyrst og fremst starfskraftar, og vil jeg ekki draga neina dul á það, að jeg álít miklu glæsilegri framtíð fyrir vinnulýðinn í landinu að beina afli sínu að ræktun landsins heldur en að gerast verksmiðjulýður, því að það mun ekki verða álitið neitt hnoss af þeim, sem til þekkja.

Jeg vil svo að endingu endurtaka það, að þessi orð mín ber að skoða sem mótmæli gegn þeirri stefnu, sem hv. 1. þm. Rang. taldi þegar markaða í virkjunarmálunum, en ekki sem sjerstök mótmæli gegn því frv., sem hjer liggur fyrir. Jeg hefi enn eigi haft tækifæri til að athuga það nægilega, en mjer er það að sjálfsögðu ljóst, að þótt ótakmörkuð sjerleyfi sjeu hættuleg, getur vel verið, að gagnlegt sje og hættulaust að veita einhver sjerleyfi til virkjunar, en það tel jeg nauðsynlegt, að mönnum sje í upphafi ljóst, hvert stefnir og hve langt beri að ganga í þessa átt.