16.03.1927
Neðri deild: 31. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2498 í B-deild Alþingistíðinda. (1867)

23. mál, járnbrautarlagning og virkjun Urriðafoss

Þórarinn Jónsson:

Mjer þykir hlýða að láta fylgja þessum brtt. á þskj. 162, frá forseta, hv. þm. N.-Þ. (BSv), og mjer, örfá orð, og er það mest af venju, því að jeg býst við, að það verði aðeins til þess, að hv. þdm. geti sett innsigli sitt á þá skoðun, sem þar kemur fram, en deilur um málið munu lítið hafa að þýða, því að mjer sýnist, að það muni að nokkru leyti vera búið að ganga frá því í kyrþey, en brtt. eru komnar fram fyrir þau ummæli, sem jeg hreyfði við 1. umr. þessa máls, og bar jeg þá fram þá ósk við nefndina, að hún athugaði og — ef kostur væri — tæki til greina, að tillag ríkissjóðs yrði felt niður, en nefndin hefir ekki getað orðið við þessari ósk.

Jeg skal fyrst taka það fram, að mál þetta liggur nú fyrir á talsvert annan hátt en á síðasta þingi. Það er nú takmörkuð upphæð, sem ríkissjóður á að leggja til, og er málið þannig talsvert álitlegra frá þeirri hlið en það var áður. En við flm. erum ekki ánægðir með það enn. Álit okkar á þessu máli kom fram á síðasta þingi á þá leið, að við efuðumst um, að járnbraut væri besta úrlausn til samgöngubóta, eftir því sem við horfir í þessum efnum annarsstaðar og eftir því sem ný samgöngutæki eru að ryðja sjer til rúms. Þó viljum við ekki vera svo þverúðarfullir að fyrirmuna öðrum járnbrautarlagningu, sem þurfa þess með og vilja gera það til þess að koma á stóriðju í landinu, sem vitanlega er þeirra hugmynd, ef þessi stóriðja gæti orðið þjóðinni til hags, og jafnvel þótt jeg teldi, að það gæti verið vafasamt, vil jeg þó ekki fyrirmuna fjelaginu að gera þetta, ef það tekur það alt á sitt bak.

Það verður nú ekki litið svo á þetta framlag úr ríkissjóði, að það sje nokkurt minsta atriði í þessu máli, þegar litið er á, að það veltur á 40–50 mili. króna framlagi, því að þá segir það sig sjálft, að 2 milj. króna gera hvorki til nje frá; fjelag, sem getur lagt af mörkum 40–50 milj. króna, getur áreiðanlega eins lagt til 52 milj., og þegar það er líka tekið með í reikninginn, sem hv. frsm. (KIJ) lýsti yfir við 1. umr., að járnbraut væri skilyrði til þess, að hægt væri að framkvæma virkjun. Hitt er náttúrlega annað mál, sem altaf getur komið til greina, að ríkissjóður gefi eitthvað til fyrirtækisins, og það er ekkert undarlegt, þótt menn, sem hafa brennandi áhuga á málinu, vilji leggja svona mikið í sölurnar, og þótt meira væri, og vilji sýna þann áhuga sinn með þessu; og það eru aðallega menn, sem hafa þá trú, að þessi járnbrautarspotti sje það þarfasta og sjálfsagðasta, sem hægt er að gera fyrir þetta land. En þá leiðir náttúrlega af því, að þá verður ríkissjóður, hvernig sem ástatt er fyrir honum, að veita þetta fje. Nú þarf ekki um það að deila, að það eru ekki nokkrar minstu líkur til þess, að hann geti lagt þetta fje fram árið 1929, hversu vel sem árar. Inn á árið 1928 komum við áreiðanlega slyppir, eða með tekjuhalla, og þegar við tökum árið 1928 og berum það saman við yfirstandandi ár, þá verður það enn óglæsilegra en þetta. Það eru ekki minstu líkur til, að við höfum þá það fje, sem til þarf, og þá er ekkert annað að gera en að taka lán, og sú leið er í augum okkar flm. kannske það óálitlegasta. Það væri mikill munur, ef ríkissjóður gæti lagt þetta fje fram án þess, en ef við stöndum svona árið 1929, þá er óhugsandi annað en að lántaka verði mikil íþynging á þjóðinni. Og ef það þyrfti að treysta mikið á gjaldþol þjóðarinnar í viðbót við það, sem nú er, til að fullnægja hinum brýnustu þörfum, sem þarf að gera ráð fyrir, þá er þetta ennþá ískyggilegra. En þó tekur nú út yfir, ef ríkissjóður legði fje í þetta og fjelagið gæti svo ekki lagt neitt fram. Við getum vel hugsað okkur það, ef fjelagið væri illa statt og hefði jafnvel fengið lán hjá ríkinu í bráðina, en svo þegar til kæmi, gæti það ekkert lagt fram, og þá er í þetta fyrirtæki eingöngu komið fje frá ríkissjóði. Jeg geri nú naumast ráð fyrir þessu, tek þetta aðeins fram sem mögulegleika, og það er ekkert í frv., og jeg held ekki heldur í brtt. hv. nefndar, sem gyrði fyrir þetta; en það kann að vera, að það eigi að taka þetta greinilega fram í sjerleyfislögunum sjálfum, og það verður þá að gerast, en í frv. sjer maður það ekki. Þegar sjerstaklega er litið á sjerleyfið út af fyrir sig, þá vaknar sú spurning. hvort rjett sje að veita. slík sjerleyfi alveg takmarkalaust, og jeg hygg, að það þurfi að fara mjög gætilega í það, til þess að tryggja í hvívetna rjett og öryggi ríkisins og þjóðarinnar yfirleitt, og það er vitanlegt, hvað þarna getur komið til greina. Það þarf að forðast mjög mikinn yfirgang og þjóðernisglötun á aðra hliðina, og líka að verja atvinnuvegina inn á við fyrir því, að þeir missi of mikinn vinnukraft í stóriðjuna; um þetta verður að vera vel vakandi og aldrei missa sjónar á því atriði. Jeg sje í rauninni ekki, að það sje til mikilla hagsbóta fyrir þjóðina, þó að við fáum óeðlilega mikið innstreymi í eitt hjerað, ef það er á kostnað annara hjeraða. Alt þessháttar held jeg, að þróist best fram að eðlilegum hætti og sem jafnast um alt land; jeg held, að allar þessar byltingar sjeu til ills eins.

Af þessu er það auðsætt, að þó að þingið hafi áður gengið inn á þá braut að veita þannig löguð sjerleyfi, þá er þar með alls ekki sagt, að það verði ekki einhvern tíma að takmarka það, eða að þingið verði að kippa að sjer hendinni, og það, sem mjer virðist verða að koma snemma til greina, er það, hversu miklar líkur eru til þess, að þetta verði framkvæmt, að fjelagið, sem hlut á að máli, geti komið þessu í verk. Eftir því sem mjer skildist af hv. frsm. við 1. umr. málsins, þá held jeg, að hann hafi tekið það fram, að fjelagið hefði lítil efni til þess og þyrfti að útvega sjer mestalla peningana; jeg býst við, að það, sem eigi að vera mest lyftistöng fyrir fjelagið, sje það að fá sjer lán, og þá helst út á þetta sjerleyfi, ef það fæst. En mjer finst það vera mjög völt framtíð að treysta á það eitt, með slíka upphæð, sem til þess þarf.

Jeg get í sambandi við þetta minst á það, sem hv. frsm. síðast nefndi, það, að ef brtt. þessi yrði samþykt, þá væri málið fallið. Já, það er nú þetta alveg óskiljanlega fyrir mig, af því að hjer er um svo mikið fjármagn að ræða, að jeg get ekki trúað þessu; og það er í raun og veru hálfeinkennilegt, hvernig þetta tvent er fljettað saman í þeirri feiknafúlgu, sem þarna þarf. Hitt getur altaf verið álitamál og haft sínar ástæður, að stjórnin hafi viljað láta ríkissjóð leggja eitthvað til þarna, og það geta verið ýmsar ástæður fyrir því, að þetta geti orðið ríkinu til góðs og sparað því mikið fjárframlag, ef á að ganga út frá því sem sjálfsögðu, að járnbrautina eigi að leggja á kostnað ríkissjóðs að öllu, ef þetta ferst fyrir.

Jeg vil leyfa mjer að ganga ofurlítið inn á þessar brtt. okkar, því að þær eru eingöngu miðaðar við það að fella niður tillag ríkissjóðs, en af því að í frv. er gert ráð fyrir því, að atvinnumálaráðherra hafi töluvert mikinn íhlutunarrjett til þessa máls, þá kann það að þykja nokkuð djarft að fella ekki niður þann rjett hans að einhverju leyti; t. d. í 7. gr. er gert ráð fyrir því, að ráðherra „ákveður einnig, hvar og hve margar járnbrautarstöðvar skuli vera, og telst kostnaður af byggingu þeirra til lagningarkostnaðar brautarinnar.“ Það er náttúrlegt, að eftir því sem ríkið leggur fram meira fje, fær stjórnin meiri íhlutunarrjett, rjett til að ráða meiru; en okkur flm. virðist nú svo, að þótt felt væri niður þetta framlag ríkissjóðs, þá væru samt sem áður svo mikil hlunnindi veitt fjelaginu í frv., að full ástæða væri samt til þessa rjettar, t. d. undanþága frá eignarskatti og tekjuskatti til ríkissjóðs. Það á að fá hjá Reykjavík, Árnessýslu og Rangárvallasýslu alt land og greiðslu á bótum fyrir jarðrask, og því virðist ekkert ósanngjarnt, að stjórnin hefði þar töluverðan íhlutunarrjett, og það er líka aðgætandi, að um leið og atvinnumálaráðherra hefir þennan íhlutunarrjett, á það að geta verið fjelaginu til mikils gagns, því að hann getur leiðbeint því betur en nokkur annar um það, hvað því er best að gera, og fyrir því þarf það að vinna. Fjelagið fær þarna ráðunaut, sem getur gefið því öll bestu ráðin til þess að tryggja það, að það hafi sem bestar tekjur af járnbrautinni, þegar hún er komin upp. Sömuleiðis leggjum við til, að felt verði niður í 9. gr.: „Ríkissjóði er heimilt hvenær sem er á leyfistímanum að taka við járnbrautinni með öllu tilheyrandi til umsjár og eignar, gegn því að greiða sjerleyfishafa framlag hans eftir nánari ákvæðum í sjerleyfinu“.

Það virðist ekki beinlínis þörf á því að hafa þetta í heimildinni, því að þetta er alt á valdi þingsins; það getur hvenær sem er gripið fram í og tekið að sjer járnbrautina, þegar verkið er framkvæmt, og það er ef til vill ekki betra að hafa hrein ákvæði um það; þá má vel vera, að ýmislegt geti komið upp frá þingsins eða ríkissjóðs hálfu, sem þannig sje metið að einhverju leyti, að ekki hafi verið gert það, sem til var ætlast. Verði því rjettara, að mannvirkin sjeu ávalt metin á hverjum tíma, sem ríkið tekur við þeim.

Jeg mintist á það fyr í ræðu minni, að eftir frv. gæti það komið til mála, að ríkissjóður legði fyrst alt tillag sitt í járnbrautina, áður en fjelagið tæki til starfa, og jeg held, að það sje ekkert í frv., sem gyrði algerlega fyrir þetta. Þó er það vitanlega ein brtt. hv. nefndar, 6. brtt., við 8. gr., þar sem á að bæta við liðinn: „Fjeð greiðist eftir á, eftir því, sem verkinu miðar áfram, á þann hátt, sem sjerleyfið tiltekur“.

En með þessu er ekkert sagt um, að það eigi að vera hlutfallslega, og það hefir oft verið svo, að þar sem ríkið hefir starfað að einhverju og fjelög eða aðrir aðiljar átt að leggja fram fje í móti, að ríkissjóður hefir lagt fram fjeð, og þannig hefir það átt sjer stað, að ríkissjóður hefir lagt fram alt fjeð, en hitt hefir orðið að skuld, sem hefir verið látin standa og svo hefir verið beðið um eftirgjöf á, og þannig verður þetta ekkert nýtt, því að það hefir komið fyrir áður.

Þá er eitt atriði, sem jeg vil minnast á, að við flm. vildum ekki gera neina brtt. um að svo stöddu, að fjelagið setti tryggingu við því, ef ekki yrði byrjað á verkinu. Eftir þessum brtt. hjer á að skoðast trygging í því, ef fjelagið er búið að láta vinna meira eða minna að þessu, og það svo hættir við alt saman, þá á alt, sem unnið hefir verið, að falla til ríkissjóðs, en fyrir því er engin trygging, ef fjelagið byrjar ekki á verkinu.

Jeg veit, að það hefir enga þýðingu að hafa langar umr. um þetta mál, og þótt jeg kæmi með þessar brtt., þá var það aðeins af því, að jeg hjelt því fram við 1. umr. þessa máls, að það ætti að losa ríkissjóð við þetta framlag, en hitt er það, að jeg vil ekki gera þetta mál að neinu kappsmáli, nema aðeins vekja athygli á því, sem jeg tel rjett vera, og jeg geri mig ánægðan með, þó að það verði jeg einn, sem fylgi því, en mjer þykir því betra, ef fleiri vilja fylgja. Jeg tel, að það, sem við fyrst þurfum að gera, eftir því sem hagur ríkissjóðs er, sje að takmarka sem mest öll fjárútlát, og gæti jeg nefnt marga bagga, sem við þurfum að taka upp á okkur og sem ekki er ráð til að gera, nema með því að taka lán, þó að við sleptum þessu.