21.02.1927
Efri deild: 10. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 146 í B-deild Alþingistíðinda. (187)

9. mál, réttur erlendra manna til að stunda atvinnu á Íslandi

Jón Baldvinsson:

Jeg vil segja út af orðum hv. frsm. nefndarinnar (JJós), að jeg játa, að erfitt er að færa sönnur á það, hve mikið fje hjer er um að ræða, af því að það er ekki hægt að fá uppgefið hjá lögreglustjórum, hve margir útlendingar koma. En það er sökum þess, að atvinnurekendur, sem flytja mennina inn, trassa skyldu sína að tilkynna lögreglustjóra það.

En þó að jeg hafi ekki fullyrt um neina tölu á erlendu verkafólki, sem hjer hefir verið, þá veit jeg, að talan er einhverstaðar yfir 100, og kannske upp í 200 í alt og alt. Jeg veit þetta eftir því, sem jeg hefi haft spurnir af. Hv. frsm. (JJós), sem er reyndur atvinnurekandi, getur getið sjer þess til, hve mikið fje það er, sem slíkum fjölda af verkamönnum er borgað yfir sumarið. Og alt það fje fer út úr landinu frá íslenskum atvinnuvegi og íslenskum verkamönnum. Svo að hjer er um nokkuð stóra fjárhæð að ræða, jafnvel þótt jeg geti ekki flutt sannanir fyrir því, að svo og svo margir sjeu verkamennirnir og svo og svo margar þúsundir, sem landið tapar.

Hinsvegar veit jeg, að slík ákvæði hjá öðrum þjóðum um atvinnu útlendra verkamanna hafa verið látin ganga í gildi fyrirvaralaust — engin tilkynning send út. Hjá flestum þeirra eru heimildarlög í gildi, og þau eru aðeins notuð á kreppu og erfiðleikatímum. En þegar alt leikur í lyndi og atvinnuvegirnir ganga vel, þá er ekki verið að skifta sjer af, þótt erlendir verkamenn komi. En þegar atvinnuleysið kemur, þá eru þessi lög látin ganga í gildi alveg fyrirvaralaust. Ekki allfáum mönnum hefir verið vísað úr landi á Englandi, — ekki eingöngu algengum verkamönnum, heldur einnig skrifstofu- og verslunarfólki, og það með mjög stuttum fyrirvara. Þetta sýnir það, að stjórnir annara landa eru ekki að hafa fyrir því að tilkynna þetta löngu fyrirfram; og það er líka ákaflega skiljanlegt.

Þessi lög, sem við erum að setja hjá okkur núna fyrst, munu þegar komin á hjá öllum nágrannaþjóðunum, svo að það er ekki neitt nýtt, sem við erum að fitja hjer upp á, heldur erum við að tryggja okkur á sama hátt og aðrar þjóðir eru þegar búnar að gera.

En sem sagt, það er ákvæðið um það, hvenær lögin gangi í gildi, sem jeg legg mesta áherslu á. Og jeg veit, að það er stórt fjárhagsspursmál, enda þótt jeg geti ekki sett tölurnar fram hjer í hv. deild.