17.03.1927
Neðri deild: 32. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2567 í B-deild Alþingistíðinda. (1879)

23. mál, járnbrautarlagning og virkjun Urriðafoss

Magnús Torfason:

Hv. 2. þm. N.-M. (ÁJ) talaði mikið um það, að þetta Titans-sjerleyfi væri hreint og beint brask. Jeg verð að segja, að mjer þykir þetta koma úr hörðustu átt, því að vitanlega er það hæstv. stjórn, sem ber ábyrgð á frv., og jeg segi fyrir mitt leyti, að jeg þykist ekki hafa leyfi til þess að ásaka hana um það, að hún sje með þessu að leiða okkur út í brask og fleka þar með þing og þjóð. Slíkt athæfi mundi verða hverri stjórn svo dýrt, að hún mundi ekki undir rísa.

Hv. sami þm. rjeði okkur þm. Ám. til að taka upp frv. eins og það, sem hjer var á ferðinni í fyrra. Jú, jeg þakka honum fyrir mitt leyti fyrir heilræðið, en jeg álít, að það hefði ekki verið nærgætnislegt af okkur að koma fram með slíkt frv. í blóra við hæstv. stjórn. Og það veit jeg, að járnbrautarmálið kemst aldrei fram, nema því aðeins, að ríkisstjórnin fylgi því af alefli. Annars er jeg ekki neinn forsvarsmaður Titans. Það, sem mig varðar mestu, er að fá járnbrautina austur. Og úr því að ekki tókst að fara þá leið, sem reynd var í fyrra, þá rekur nauður til að reyna þessa leið.

Þá skal jeg svara hv. 1. þm. Reykv. (JakM) nokkrum orðum. Jeg get verið stuttorður, því það var í rauninni ekki margt, sem hann hafði að athuga við mína ræðu. Hv. þm. sagði, að það væri rangt hjá mjer, að fossaiðja hefði góðan byr um þessar mundir, og sagðist ekki geta hugsað annað en að það stæði í sambandi við Dynjandavirkjunina; en það er ekki. Eins og jeg tók fram, byggi jeg þetta á því, sem jeg hefi sjeð ritað um þetta efni í skýrslum og skjölum verkfræðinga, og má af þeim sjá, að fossavirkjun hefir borgað sig mjög vel þessi árin. Til þessa liggja ýmsar ástæður, og má í því sambandi benda á, að áburðarsalan hefir aukist stórkostlega á síðustu árum. Þá furðaði hv. þm. á því, að jeg skyldi vilja hleypa svo mörgum útlendingum inn í landið, sem myndu taka atvinnu frá hinum innlenda verkalýð. Að því er snertir virkjun Urriðafoss hefi jeg farið eftir áætlunum um virkjun alls fossins, en nú er það upplýst, að það er aðeins brot af fossinum, sem ætlunin er að virkja fyrst um sinn, og þarf því vitanlega miklu minni vinnukraft til virkjunarinnar en bent var á. Í þessu sambandi vil jeg minna á það, að eins og nú standa sakir eru engar horfur á, að botnvörpuveiðar verði reknar að sumri til og tæplega síldarútvegur af miklu kappi, og losnar þá um fólk á þeim tíma ársins. En á vetrum er yfirleitt lítið að gera í sveitinni og ekki nema gott til þess að segja, að atvinna sje þá fáanleg. Hv. þm. (JakM) hjelt því fram, að hjer væri um að ræða stórhættu fyrir landbúnaðinn. Hvað mannfjöldann snertir vil jeg geta þess, að hæstv. atvrh. segir, að ekki muni þurfa meira við virkjunina en 600 manns, og eins og jeg sagði áður, þarf vitanlega miklu færri við starfrækslu fyrirtækjanna eftir að byggingu þeirra er lokið. Þegar á þetta alt er litið, held jeg, að fari að draga úr þeirri ógurlegu hættu, sem landbúnaðinum á að stafa af fossavirkjuninni. Þá þótti hv. þm. það óskaplegt, að Reykjavík gæti tvöfaldast á skömmum tíma. En það er nú svo, að hún hefir margfaldast á þessari öld, og það þó að engin slík stóriðja hafi verið orsök til þess. Það er því ekki ástæða til þess að draga þá ályktun af því, sem jeg sagði, að hætta sje á ferðum. Hvað það snertir, að fyrirtækið verði að hætta rekstri, þá getur slíkt vitanlega altaf komið fyrir öll fyrirtæki. Það eru í mínum augum alls engin rök hjá hv. þm., því að öll fyrirtæki geta hætt. Eftir því mætti aldrei byrja á neinu. Nei, í þeim efnum verður vitanlega að fara eftir því, hvað líklegt þykir að dómi sjerfróðra manna. — Þá mátti jeg ekki bera Reykjavík saman við Kaupmannahöfn. Út af því vil jeg segja háttv. þm. það, að í fyrstu landafræðinni minni var mjer kent, að í Kaupmannahöfn væru 130 þús. íbúar, en þeir munu nú vera yfir 800 þús. og hafa þannig hjer um bil sexfaldast á 40–50 árum, og veit jeg ekki betur en að landbúnaður Dana hafi getað þrifist vel, þótt hann hafi haft stórborg með slíkum vexti við hlið sjer.

Hv. þm. var að brýna mig með því, að jeg ætlaðist ekki til þess, að Árnessýsla legði til fólkið. Út af því vil jeg segja það, að jeg hefi nú aldrei hugsað neitt um það, hvaða fólk það yrði, sem fengi atvinnu við virkjunina. Jeg lít yfirleitt alls ekki á þetta mál frá sjónarmiði Árnessýslu sjerstaklega. Jeg lít svo á, að þar sem Reykjavík hefir dregið til sín fólkið úr sveitunum og margfaldast á svo skömmum tíma, þá ætti hún að geta þolað það, að einhver slík stóriðja kæmist á hjer í nánd, einkum þar sem hún á að gera bændunum mögulegt að komast af með minni vinnukraft. Þar kemur bæði til greina áburðurinn, sem á að framleiða, og önnur þægindi fyrir bændur. Ástæðan til fólksfækkunarinnar í sveitunum er heldur ekki eingöngu sú, að vinnukraftinn vanti. Fólk hefir flúið til kaupstaðanna að mínum dómi mest vegna skorts á jarðnæði í sveitunum. Þar eru víða allar jarðir setnar, og menn vilja heldur margir hverjir hverfa til sjávarsíðunnar en vinna hjá bændum.

Árið 1894 kom jeg til Rangárvallasýslu, og voru þá 43 búendur í Austur-Eyjafjallahreppi, og var afkoman þá yfirleitt slæm. 30 árum síðar kom jeg þangað aftur og var tala búenda þá í þessum sama hreppi 28 og afkoma bænda þá svo góð, að þetta var orðinn einhver besti hreppur sýslunnar. Búendum hafði þannig fækkað, en afkoma þeirra stórbatnað. — Annars get jeg sagt hv. 1. þm. Reykv. það, að það er alveg óþarfi fyrir hann að vera að brýna mig með því, að jeg hafi hjer sjerstaklega hagsmuni Árnessýslu fyrir augum og sjái ekki annað. Og það er alveg áreiðanlegt, að sumir mundu ekki vera eins mikið á móti þess frv., ef nokkrir ryðgaðir reknaglar Reykjavíkur hefðu ekki neitað fyrir 30 árum síðan að kaupa Skildinganes fyrir 14 þús. kr.

Jeg skal taka það fram áður en jeg lýk þessu máli, að það, sem helst hefir valdið mjer áhyggjum í þessu máli, er það, hvort Titan geti fengið nóg fje til framkvæmdanna, og það hið sama hygg jeg, að hafi vakað fyrir hæstv. atvrh., en nú þykist hann hafa talsverða vissu fyrir því, að fje fáist, með því að ríkissjóður leggi fram þessar 2 milj. Og fari svo, að fjelagið fái nóg fje, svo að úr framkvæmdum járnbrautarbyggingar geti orðið, þá er það mjer nóg; hitt liggur mjer í ljettara rúmi.

Hv. þm. V.-Húnv. (ÞórJ) hafði það eftir mjer, að jeg hefði sagt, að hann bæri ekki skyn á málið. Það hefi jeg aldrei sagt við nokkurn þingmann, að hann beri ekki skyn á mál; jeg hefi jafnvel ekki borið hæstv. ráðh. slíkt á brýn, þó að þeir á stundum hafi látið eitthvað slíkt fjúka í minn garð. En hitt sagði jeg, að maður, sem býr á sjávarbakkanum, fyndi ekki eins til samgangnaleysisins eins og sá, sem býr fjær honum. — Jeg bý nú á Eyrarbakka og verð að kaupa alt, sem jeg þarf til heimilisins, frá Reykjavík, og á það fellur vitanlega mikill kostnaður. Síðast í haust varð jeg að kaupa kol hjeðan fyrir 88 kr. tonnið og flytja þau á bifreið austur fyrir 50 kr. Það ætti því ekki að þurfa að stafa af neinum vitsmunamun, þó að jeg fyndi betur til þessa en háttv. þm. V.-Húnv.

Jeg hefi annars veitt því eftirtekt, að þessi hv. þm. mun vera öllu betur upplagður til þess að halda ræðu á björtum degi en að kvöldi dags, og var mjer að detta í hug, hvort það mundi geta stafað af því, að það væri eitthvað reimt þarna fyrir norðan á Hjaltabakka og að það kunni að villa hv. þm. sýn, þegar dimt er orðið. — Jeg efast ekki neitt um það, að hv. þm. fari altaf eftir sannfæringu sinni; en mjög tel jeg hann heppinn, að hann skuli altaf geta haft þessa sífeldu óbilandi stjórnarsannfæringu.