21.02.1927
Efri deild: 10. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 147 í B-deild Alþingistíðinda. (188)

9. mál, réttur erlendra manna til að stunda atvinnu á Íslandi

Frsm. (Jóhann Jósefsson):

Jeg vil aðeins gera dálitla leiðrjettingu, hafi jeg heyrt rjett það, sem hv. 5. landsk. (JBald) sagði. Mjer heyrðist hann tala um „slík heimildarlög“. Á hann við þetta frv.? Hjer er ekki um heimildarlög að ræða. Hjer er beinlínis bannað, eftir að lögin ganga í gildi, að koma með erlenda verkamenn hingað, nema með sjerstökum skilyrðum. Í frv. felst aðeins heimild til þess að veita undanþágur í einstaka tilfellum. En lögin eru í sjálfu sjer engin heimildarlög; þau byrja á að banna þetta algerlega.

Hinu furðaði jeg mig á hjá háttv. 5. landsk. (JBald), þar sem hann telur það aðalatriðið fyrir sjer, að lögin gangi í gildi nokkrum mánuðum fyr en ákveðið er í frv. (JBald: Þetta er útúrsnúningur!). Þetta er alveg eins og hv. þm. sagði það. Jeg hjelt, að fyrir honum vekti það sama og fyrir okkur vakir, að það væru lögleidd ákveðin fyrirmæli um að banna ótakmarkaðan innflutning erlends verkafólks, þegar nægur vinnukraftur er til í landinu.