18.03.1927
Neðri deild: 33. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2577 í B-deild Alþingistíðinda. (1882)

23. mál, járnbrautarlagning og virkjun Urriðafoss

Magnús Jónsson:

Á Alþingi í fyrra var jeg meðflutningsmaður að frv. um það, að ríkið legði í það að byggja járnbraut austur að Ölfusá. Jeg var með í að flytja þetta frv., ekki af því að jeg teldi í sjálfu sjer æskilegast, að ríkið rjeðist í þetta fyrirtæki, heldur af því, að jeg sá ekki aðra leið til að fullnægja þeirri þörf á auknum samgöngum, sem bæði Reykjavík og Suðurlandsundirlendið bíða eftir, og sem jeg er fullviss um, að verður fullnægt fyr eða síðar og ekki getur dregist mjög lengi. Jeg tel heppilegra, að einstaklingar leggi fram fjeð og ráðist í slík fyrirtæki, því að jeg hefi meiri trú á, að þau beri sig, ef einstaklingar hætta fje sínu í þau, heldur en ef ríkið gerir það. Jeg myndi því helst hafa óskað, að Íslendingar sjálfir hefðu verið svo miklir menn, að íslenskt fjelag hefði verið stofnað, sem hefði ráðist í að byggja þessa járnbraut, með talsvert ríflegum styrk frá ríkissjóði, en annars hefi jeg altaf verið þeirrar skoðunar, að málið mundi ekki verða leyst á annan hátt en þann, að útlent fjelag rjeðist í þetta fyrirtæki, og get því ekki annað sagt en að mjer hafi þótt það mjög góð frjett, þegar það heyrðist, að stjórnin hefði náð aðgengilegum samningum við útlent fjelag um að ráðast í þetta fyrirtæki í sambandi við fossavirkjun austanfjalls. Og jeg vil lýsa yfir því, að jeg mun fylgja því frv., sem hæstv. stjórn hefir borið fram, enda þótt jeg geti tekið undir það með þeim háttv. samþingsmanni mínum, sem síðast talaði (HjV), að jeg hefði frekar óskað eftir nokkrum smábreytingum í þá átt, sem hann talaði um.

Það er búið að tala svo mikið um þetta frv. alment, að mjer finst jeg næstum verða að biðja afsökunar á því, þegar jeg nú ætla að fylgja þingsköpum og minnast á einstök atriði, og vil jeg þá beina nokkrum fyrirspurnum til hv. nefndar. í 5. gr. frv. er svo fyrir mælt, að sjerleyfishafi skuli undanþeginn eignarskatti, tekjuskatti til ríkissjóðs, útsvari og hærra útflutningsgjaldi en nú er, en í stað þess á hann að greiða ákveðið gjald, sem skiftist milli ríkissjóðs og sveitarsjóðs, af hverri nýttri hestorku. Jeg vil vekja athygli á því, að hjer er um tvö fyrirtæki að ræða, járnbraut og fossavirkjun. En gjaldið til ríkissjóðs er miðað aðeins við annað fyrirtækið, fossavirkjunina. Meðan járnbraut er ein rekin, kemur ekkert gjald í ríkissjóð í stað þeirra gjalda, sem niður eru feld, og er það óviðkunnanlegt, ekki síst ef við járnbrautina eina sæti um langan tíma. Virtist mjer rjettara, að nokkurt gjald kæmi af henni í ríkissjóð og sveitarsjóð, vegna þess, að jeg fyrir mitt leyti er alveg viss um það, að járnbrautin hjeðan austur í sýslur hlýtur með tíð og tíma að verða mjög gott fyrirtæki, ef rjett er á haldið. Mætti miða það við hundraðsgjald af nettótekjum, því ef enginn ágóði verður, þá nær það auðvitað ekki lengra; þá er sjerleyfishafi með öllu undanþeginn slíku gjaldi.

Þá er í 6. gr. tekið fram um það, að verð árshestorku skuli ekki fara fram úr 55 krónum, og vil jeg spyrja, við hvað þetta er miðað, — á orkan að kosta þetta við orkuver eða við millistöðvar hjer í grend, eða er það við mæli hjer í bænum? Það sjá allir, að þetta getur munað afskaplega miklu, því að kostnaðurinn við rafmagnið er ekki eingöngu við orkuverið sjálft, heldur er leiðslan að austan afskaplega dýr, og svo er auk þess leiðslukerfið hjer í bænum. Þetta skilst mjer muni muna alt að helmingi, eftir því hvort miðað er við orkuver eða mæli hjer í bænum.

Í 8. gr. er kveðið á um, hvernig kostnaðinum skuli skift milli aðiljanna. Hefir alveg verið með rjettu bætt inn Rangárvallasýslu sem aðilja, enda þótt brautin liggi ekki um hana, því að hún kemur til með að njóta hagsmuna af fyrirtækinu. En jeg vildi spyrja, hvort einsætt þyki, að Reykjavík leggi fram allan kostnaðinn vestan afrjettar. Þar er þó um aðra aðilja að ræða, þar sem er Gullbringu- og Kjósarsýsla og annar stærsti kaupstaður landsins, Hafnarfjörður. Mjer finst það ekki vera nein fjarstæða, þótt þessir aðiljar hefðu einhverja íhlutun um kostnaðinn, sökum hagsmuna þeirra, sem þeir koma til með að hafa af járnbrautinni. Jeg er alls ekki með þessu að mæla Reykjavík undan þessari skyldu, því að jeg tel, að hún hafi hjer svo mikinn hagnað af þessu, að vel megi leggja nokkuð mikið á hana í þessu skyni, en þá fer þó best á því, að samræmis sje gætt.

Þá er eitt atriði í 9. gr., sem jeg vildi minnast á. Þar er sagt, að ef rekstrartekjurnar fari fram úr því, að sjerleyfishafi fái 6% ársvexti af framlagi sínu, þá fái ríkissjóður einnig ársvexti af sínu framlagi, þó ekki yfir 6%, og ef enn verður afgangur, skiftist hann milli þessara tveggja aðilja. En jeg tel ekki ósanngjarnt, að hinir aðiljarnir, sem leggja hjer til fje, eigi einnig arðsvon af fje sínu í fyrirtækinu. Þetta eru nú auðvitað ekki nein stór atriði, en jeg vildi þó beina þeim til nefndarinnar.

Mig langar til að minnast ofurlítið á brtt. á þskj. 162. Aðalbreytingartillagan er í því fólgin, að 2 miljóna króna framlagið frá ríkissjóði falli burt. Þeir, sem eru með þessari brtt., segja sem svo: Við höfum ekkert á móti því að fá járnbraut, ef hún kostar okkur ekki neitt. — En þetta er ekki rjett ályktun af þeim forsendum, sem fyrir eru. Ríkissjóður leggur í raun og veru ekkert fje fram til þessarar samgöngubótar, þó að hann verji tveim miljónum í járnbraut, eins og jeg skal nú sýna. Hæstv. forsrh. gat um það við 1. umr., að nokkuð af þessu fje mundi skila sjer aftur í ríkissjóð með ýmsum hætti. En jeg ætla alveg að sleppa því og byggja þetta á öðru. Öllum er það ljóst, að fyrir ríkissjóði liggur að veita á næstunni stórfje til samgöngubóta austur yfir fjall. Verður að leggja nýjan veg austur yfir fjall, og slíkur vegur, sem fullnægjandi verður allan ársins hring, mun koma til að kosta um 3 milj. kr. En ríkissjóður getur ekki átt von á neinum tekjum af þeim vegi, því að varla er að búast við því, að hann fari að setja hjer upp stór flutningatæki, heldur mun hann láta aðra um að halda uppi samgöngunum. Hjer er því þriggja miljóna framlag, sem á ríkissjóði hvílir, ef járnbraut kemur ekki. Nú er það auðvitað, að halda verður uppi vegi austur, enda þótt járnbrautin komi, og kemur sá kostnaður á móti mismuninum á framlagi ríkissjóðs og á því fje, sem fer í nýjan veg, eða 1 milj. kr. Er ekki fjarri því, að þurfi sem svarar vöxtunum af 1 milj. kr. að halda við veginum, ef járnbrautin verður lögð. Það lætur því nærri, að þetta mætist, framlag ríkissjóðs til járnbrautarinnar og það, sem járnbrautin ljettir á ríkissjóði. En aftur á móti fær ríkissjóður tekjur af fyrirtækinu og á þar arðsvon, ef það gengur vel. Mjer finst þá vera rökrjett afleiðing af þessu, að ríkissjóður leggi ekki fram neitt fje, þó að hann leggi fram þessar 2 milj. kr. Auk þess er hagnaðurinn stórmikill fyrir Reykjavík og nágrenni og fyrir sveitirnar austanfjalls að fá samgöngubótina sem fyrst.

Seinni brtt. er smávægilegri, þótt hún sje nokkuð merkileg. Jeg veit ekki, hvers vegna menn vilja fella niður tvo síðari liði gr. Það er aftur eðlilegt, að síðari hluti fyrstu málsgr. falli niður, þegar ríkissjóður á ekki neitt í fyrirtækinu. En óskiljanlegt er, hvers vegna ekki má standa þarna heimild fyrir stjórnina að taka við fyrirtækinu við sanngjörnu verði, ef það þykir heppilegt. Auðvitað verður svo alt nánara, er að þessu lýtur, svo sem um mat á mannvirkinu og slíkt, tekið fram í sjerleyfinu. Og hvers vegna má ekki standa þarna, að umboðsmanni ráðherra eða ráðherra sjálfum sje heimill aðgangur að bókum fyrirtækisins, þótt ríkissjóður hafi ekkert fje lagt fram til þess? Ráðherra á þó að ákveða taxtana. Vegna hagsmuna alþjóðar verður hann líka að geta fylgst með gangi fyrirtækisins. Þá er hann líka fær um að dæma um það, hvort sanngjarnt sje að hækka eða lækka taxtana, ef farið er fram á slíkt. Jeg sje því enga ástæðu til þess að fella þessa tvo liði úr gr.

Jeg ætla að vona, að hæstv. forseti sýni mjer sömu mildi og öðrum þm., þótt jeg segi svo nokkur orð alment um málið.

Háttv. samþm. minn, 1. þm. Reykv. (JakM), hefir lagst allfast á móti frv. þessu, en leitað mjög óvarlega að röksemdum. Það hefir verið bent á, að rök hans mættust á miðri leið og rækjust þar á. Hann kallaði þetta að skoða málið frá öllum hliðum. Í öðru orðinu hjelt hann því fram, að ólíklegt væri, að þetta fyrirtæki kæmist nokkurntíma í framkvæmd og hjer stæði aðeins „svindilbrask“ að baki. Í hinu orðinu hafði hann það á móti því, að hætta stafaði af hinu mikla kapítali, sem kæmi inn í landið, að það myndi gleypa yfir alt og ríða sjálfstæði voru að fullu. Jeg játa, að háttv. þm. gæti komist í kringum þennan árekstur röksemdanna með því að segjast vera á móti málinu, hvora stefnuna sem það nú tæki. En hann getur þó ekki verið á móti þessu bæði af því að fjelagið sje fjelaust og svo af því að það hafi nægilegt fje til umráða.

Háttv. þm. taldi ólíklegt, að fyrirtæki þetta kæmist í framkvæmd. En engar ástæður hefir hann þó fært fyrir því. En það er nú svo, að þetta veltur alveg á því, hvort hægt er að sannfæra menn um, að fyrirtækið sje arðvænlegt. Það liggur víða ógrynni fjár á lágum vöxtum, sem leitar að góðum og arðvænlegum fyrirtækjum. Ef eitthvert fyrirtæki kemst ekki á, þá er það af því, að ekki er hægt að sýna fram á með rökum, að það sje gott og álitlegt. Ef nú fjelag þetta er svo óálitlegt, að ekkert fje fæst í það, þá er ekkert samræmi í því að tala í sömu andránni um, að blóðugt sje að horfa á eftir öllum þessum arði í vasa útlendinga. Það er vitaskuld, að arður af slíkum fyrirtækjum sem þessum er venjulega hverfandi móts við vinnulaun og annað slíkt. Þótt fyrirtækið sje í alla staði heilbrigt, þá fer svo mikið fje í rekstrarkostnað, að það verður aðeins lítill hluti arðsins, sem rennur í vasa útlendinganna. Þá er ríkissjóði líka heimilt að taka svo mikið gjald af fjelaginu, bæði í töxtum o. fl., að arður sjerleyfishafa svari aðeins til rentu af kapítalinu.

Þá fór hann að tala um fólksekluna og sagði, að ef fyrirtækinu væri hleypt inn í landið, mundi það tæma alveg vinnukraftinn. Um þetta eru nú skiftar skoðanir. Ekki alls fyrir löngu skrifaði þektur maður í tímaritsgrein einni, að ef ekki kæmi hjer fram eitthvert nýtt fyrirtæki bráðlega, þá vissi hann ekki, hvað gera skyldi við fólkið; á hverju ári bættust við mörg hundruð manns og ekkert væri fyrir það að gera. En eftir dálítinn tíma er það þá orðið svo, að ekki má ráðast í fyrirtæki, vegna þess að ekkert fólk er til. Annars held jeg nú, að það sje ekki fullkomlega rjett, að það sjeu fyrirtækin ein, sem draga mjög til sín fólkið. Hvað var það, sem rak fólkið úr sveitunum til Ameríku laust fyrir aldamótin? Straumurinn úr sveitunum, sem kaupstöðunum og sjerstaklega togaraútgerðinni er kent um, var byrjaður löngu áður. Fólkið fór til Ameríku. En þilskipaútgerðin og síðar togararnir stöðvuðu þennan straum í kauptúnum og kaupstöðum hjer á landi. Og jeg álít, að fólkið sje betur komið sem íslenskir borgarar heldur en þótt það hefði streymt vestur. Það er sýnt, að nú er að verða yfirfult í kaupstöðunum, sjerstaklega í Reykjavík og Hafnarfirði, og er þar miklu frekar talað um atvinnuleysi en fólkseklu. En það er fólksekla í sveitunum. Hvaðan mundi nú fólkið koma, ef ráðist væri í þetta fyrirtæki? Það mundi auðvitað koma úr kaupstöðunum, þar sem atvinnuleysið er. En í sveitunum er fátt verkamanna, og bændur, sem margir eru einyrkjar, mundu ekki fara að hlaupa frá búum sínum til þess að gerast daglaunamenn við járnbrautarlagninguna. — Það er öllum ljóst, að það er ekki strjálbýlið, heldur þröngbýlið, sem menn óttast, því að það er áhyggjuefni margra að þurfa að pressa hvern blett landsins til þess ítrasta. — Þá er það ekki heldur ósennilegt, að stórútgerðin breytist með tímanum og verði ekki eins eftirsótt og hingað til hefir verið. Það má búast við, að hún fari ekki að bera sig nema á arðsamasta tímanum, vetrarvertíðinni, og verði rekstri hennar hagað eftir því. Verður hún þá ekki eins mannfrek og nú.

Það er oft talað um þjóðernishættu í sambandi við fossavirkjun, og felst hún þá aðallega í innflutningi erlends verkafólks. En jeg er alveg óhræddur í þeim sökum, þó að flytjist hjer inn norskir fagmenn, því að þeir verða orðnir íslenskir í 2. og 3. lið. Getur því engin sjerstök hætta stafað af þeim. Hinsvegar skal jeg játa, að það er alls ekki hættulaust að hleypa hjer inn erlendu kapítali í afarstórum stíl. Jeg er ekki svo blindur, þótt jeg hafi trú á járnbrautinni, að jeg sjái það ekki. En það er nú bara svo, að sú hætta vofir þegar yfir okkur. Búskaparlag vort er nú svona. Og við komumst ekki hjá þessari hættu, nema við förum að eins og hinn ágæti maður Þórhallur biskup sagði, og reynum að vernda okkur sem eilífan forngrip. Það er hætta á Spáni vegna fisksölunnar, það er hætta í Noregi vegna kjötsins, það er hætta í Bandaríkjunum vegna ullarinnar og í Englandi vegna ísfisksins. Alstaðar þar, sem við höfum viðskifti við aðrar þjóðir, vofir þessi hætta yfir okkur. Hættan, sem stafar af kapítalinu, sem hjer kemur inn í landið, er ekki meiri en sú hætta, sem við nú erum í og sem er afleiðing af hinu nýja búskaparlagi, sem við höfum tekið upp, að vera í margvíslegu viðskiftasambandi við aðrar þjóðir. Það gefur þeim strax tækifæri til ýmislegrar íhlutunar um vor mál, og reynir þá á, hvað vjer dugum í þeim viðskiftum. Jeg álít, að við eigum að treysta á sjálfa okkur, en hafa vel opin augu fyrir öllum hættum. Þótt við leyfum virkjun Urriðafoss, þurfum við alls ekki að leyfa að virkja alla Þjórsá. Það er eins og við getum ekki gengið eitt skref nema við endilega göngum heila mílu.

Jeg verð að segja það, að þegar hv. 1. þm. Reykv. fór að sýna fram á, hvernig fyrirtækið legði sveitirnar í auðn, þá dámaði mjer ekki að því. Það er þvert á móti víst, að járnbrautin verður með rjettu kölluð stærsta umbótin, sem gerð hefir verið landbúnaðinum til eflingar. Ef það, að fyrirtæki þetta tengir stærstu landbúnaðarsvæði landsins við höfn, þannig að hægt sje að koma afurðum frá og til þessara hjeraða, og að það vinnur áburðarefni úr loftinu, sem landbúnaðurinn þarf að nota, og stuðlar þannig að eflingu nýbýlaræktunarinnar — ef það er að leggja sveitirnar í auðn, þá veit jeg ekki, hvernig haldið er á rökum. Jeg er sannfærður um, að þetta verður ekki Suðurlandsundirlendinu til niðurdreps, heldur til stærri framfara en áður hafa þekst hjer.

Jeg get frekar skilið, eins og kom fram í ræðu hv. þm. V.-Húnv. (ÞórJ), að menn óttist, að fólkið streymi annarsstaðar af landinu til kjötkatlanna í Egypto. En jeg er ekki svo mjög hræddur við það. Og þótt ætla mætti, að menn flyttu úr harðbalasveitunum til bestu hjeraðanna, er reynslan önnur. Menn eru furðanlega fastir fyrir og vilja helst vera í sínum átthögum. Munurinn á góðum sveitum og rýrum jafnast upp með mismunandi strjálbýli og landrými, og er þetta alt eldgömul reynsla.

Hv. þm. (JakM) mintist á, að ilt væri, þegar útlendingar, sem hjer væru staðfestulausir, rækju hjer stór fyrirtæki, því að einn góðan veðurdag gætu þeir farið burt með alt saman. Og hann tók til dæmis enska útgerðarmanninn í Hafnarfirði, sem rekið hefir þar togaraútgerð, en stakk svo af með alt saman. Það er nokkuð til í þessu; en þó er dæmið, sem háttv. þm. tók, ekki alveg rjett, því að hjer stendur ekki líkt á. Jeg vil bara spyrja, hvort menn álíti það sennilegt, að nokkur hlaupi burt frá eignum, sem eru upp á tugi milj. kr. Jeg vil minna á það, að togaraeigandinn í Hafnarfirði fór burt með allar sínar eignir og skildi aðeins mjög lítið eftir. Hans dýru framleiðslutæki voru sem sje hreyfanleg. Hann gat siglt á þeim heim til sín. En fyrirtæki sem þetta, er hjer um ræðir, er alveg bundið við eignir sínar hjer, og verða því eigendurnir að selja, ef þeir eiga að geta stokkið frá því. Það væri helst, ef þeir gætu flutt með sjer nokkrar vjelar og lausamuni, en annað ekki. Gætu svo landsmenn síðan sest að hræinu, og má segja, að það yrði góður fengur. Járnbrautina gætu sjerleyfishafar auðvitað ekki heldur flutt burt nema með samþykki meðeiganda, sem er ríkissjóður, ef hann leggur fram fje til fyrirtækisins, eins og ráðgert er í frv.

Jeg get tekið undir það með samþm. mínum, hv. 4. þm. Reykv. (HjV), að æskilegt væri, að frekari trygging væri fyrir því, að fjelagið byrjaði á þessu verki. Það að heimta fjárhæð að tryggingu er ágætur prófsteinn á trú mannanna sjálfra á fyrirtækinu, hvort þeir treysti sjer að koma því í framkvæmd eða ekki. En jeg býst við, að það hafi verið reynt í samningunum að fá þessa tryggingu, en ekki tekist. Jeg ætla samt ekki að vera á móti málinu vegna þessa, þótt jeg hinsvegar hefði kosið, að fjelagið hefði getað látið þessa tryggingu. En jeg verð þá að láta mjer nægja þá tryggingu, sem felst í góðum nöfnum. Sú trygging er ekki eins lítils virði og sumir Láta í veðri vaka. Því að það er útilokað, að þeir menn, sem láta sjer ant um sitt góða nafn, fari að nota sjerleyfið til að braska með það og ginna fje út úr mönnum. Þetta eru þannig fyrirtæki, að það eru ekki nema einstöku menn, sem gefa sig í þau. Það eyðileggur menn með góðum nöfnum að fara inn á slíkt; þeir verða eftir það að halda sig í hópi svindlaranna. Jeg trúi því ekki, að þeir menn, sem að þessu fyrirtæki standa, sjeu fúsir á að fara í þennan „paria“-flokk fjármálamannanna úti í löndum. Þó að jeg sje ekki fullkomlega ánægður, þá mun jeg þó sætta mig við þá tryggingu, sem hjer er fyrir hendi. Jeg mundi ekki vera með þessu samt, ef ekki væri hjer að ræða um stóra hagsmuni, sem fylgja því, að þetta fyrirtæki komist á fót. Jeg lít svo á, að það sje svo mikils virði að fá þessa samgöngubót austur, að jeg vil gera þessa tilraun. Ef illa fer og fjelagið gefst upp á þessu, þá mun jeg afsaka afstöðu mína til þessa máls með því, að það hafi verið svo miklir hagsmunir annarsvegar, að jeg hafi álitið vert að gera þessa tilraun þeirra vegna.