18.03.1927
Neðri deild: 33. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2600 í B-deild Alþingistíðinda. (1885)

23. mál, járnbrautarlagning og virkjun Urriðafoss

Árni Jónsson:

Jeg hefi ekki miklu að svara þeim hv. þdm., sem tekið hafa til máls eftir að jeg hjelt ræðu mína í gær. Þó kemst jeg ekki hjá að leiðrjetta sumt, sem til mín hefir verið beint, því að öll mótmælin gegn ræðu minni hafa verið bygð á misskilningi.

Jeg vík mjer þá fyrst að hæstv. atvrh. Hann sagði, að afstaða mín til þessa máls hefði breyst frá í fyrra, því þá hefði jeg verið móti járnbrautinni. En jeg vil segja, að það sje ekki rjett að orða það svo, að afstaða mín hafi breyst, heldur er það afstaða málsins sjálfs, sem breyst hefir síðan í fyrra.

Afstaða mín í fyrra var fyrst og fremst sprottin af ótrú á fjárhagslegri afkomu fyrirtækisins, og ríkissjóði því ekki fært að leggja fram það fje, sem brautarlagningin kostaði. Nú er kominn nýr liður inn í þetta samgöngumál, og það eru hinir miklu flutningar vegna orkuversins, er gera munu það að verkum, að fyrirtækið mundi margborga sig. (MJ: En ríkið getur altaf tekið brautina og starfrækt hana fyrir eiginn reikning). Það má vel vera, en varla gerist það fyr en fjelagið er búið að hafa margfaldan hagnað af því að flytja það, sem austur þarf til byggingar orkuversins.

Jeg benti á það í gær, að flutningarnir austur til orkuversins mundu nema svo tugum þúsunda tonna skiftir. Þar við bætast svo allar þarfir þessara 2000 eða 2500 manna, sem þarna vinna. Það er ekkert smáræði, sem þessir menn ásamt konum sínum og börnum þurfa í vistum og öðru sjer til framfæris. Og alt mundi þetta flutt með brautinni, sem ætla mætti, að mundi nema um 1/3 af flutningsþörf alls hjeraðsins. Svo mætti minna á eitt enn, sem ekki er óverulegur liður í þessu máli, og það eru fargjöld þessara manna með brautinni austur, auk ferða með henni fram og aftur, en þetta mundi líka skifta tugum þúsunda.

Auk alls þessa, sem nú er talið, er ekki ósennilegt, að ef þetta fyrirtæki kæmist upp, bættist við 4. undrið, sem menn flyktust langt að til að skoða, en hin eru, eins og allir vita, Hekla, Geysir og kolakraninn hans Hjalta hjerna niðri á hafnarbakkanum.

Þá vil jeg leiðrjetta þann misskilning, að jeg hafi sagt nokkuð um það, að „consession“ Dynjandifjelagsins, sem sjerleyfið fjekk í fyrra, væri útrunnin. Jeg held, að þeir fjármálamenn, sem að Dynjandifjelaginu standa, sjeu fult eins vel á veg komnir með að útvega fje í sitt fyrirtæki eins og Titan. Það berast frá þeim daglega skeyti og brjef, þar sem tekið er fram, að nú sje „kapitalið“ að koma. Það er áreiðanlegt, að þeir hafa líka sínar vonir, og bregðist sænska gullið, þá er að snúa sjer til Þýskalands, líklega til þessara miklu fjármálamanna í Hamborg, sem hv. frsm. var að minnast á. Og þrátt fyrir alt þetta eru þó ýmsir svo ósvífnir að nefna „svindilbrask“ hjer í þingsalnum í sambandi við fjelagsskapinn! Það er engin furða, þó að sumum sje þetta viðkvæmt mál, eins og alt er í pottinn búið.

Hæstv. atvrh. hjelt, að jeg hefði blandað saman orkuveri og iðjuveri og að jeg hefði ekki gert mjer ljóst, að annað stæði hjer í Reykjavík. En hjer er enn um misskilning að ræða hjá hæstv. ráðherra; jeg vissi vel, hvað jeg var að segja. En jeg held, að honum hafi skotist yfir, og enda hv. frsm. líka, að gera sjer ljóst, hverju flutningarnir austur að orkuverinu mundu nema.

Þá hefi jeg með þessu svarað hv. frsm., því margt af því, sem hann beindi til mín, var endurtekning á orðum hæstv. atvrh.

Hv. frsm. spurði, hvort jeg teldi líkur til, að ríkið gæti lagt út í slíkt fyrirtæki sem járnbrautin væri, og hvort jeg mundi verða með því. Jeg get svarað því sama og í fyrra, að jeg er á móti járnbraut, vegna þess að flutningarnir eins og stendur eru ekki nógir. En geti hv. frsm. fært fullar líkur fyrir því, að virkjunin sje framundan og að úr henni verði, þá mundi jeg fylgja því eindregið, að ríkið rjeðist í að leggja járnbrautina.

Annars hjelt jeg, að háttv. frsm. mundi reyna að hnekkja því, sem jeg sagði í fyrri ræðu minni um flutningaþörfina austur, en hann sneiddi algerlega hjá því. En hvað viðvíkur ótrú minni á framkvæmdum fjelagsins, þá verð jeg að segja, að hún sje jafnrjettmæt og þeirra trú. Jeg veit, að það berast glæsilegar fregnir af fjelaginu, og jeg hefi fyrir satt, að látið sje í veðri vaka, að menn hafi góða trú á fjárafla fjelagsins nú. En jeg veit heldur ekki, hvenær væri fremur ástæða til að gefa út glæsilegar veðurspár um framtíðarhorfur fjelagsins, ef ekki þá dagana, sem Alþingi er að ræða um sjereyfislöggjöf fjelaginu til handa. Jeg verð því að líta svo á, að allar þessar gyllingar og upplýsingar um fjárreiður fjelagsins sjeu litaðar af þeim hagsmunavonum, sem hluthafarnir telja sig eiga hjer í vændum, takist nú að ná í þetta sjerleyfi.

Annars er það næsta undarlegt, að fylgjendur þessa máls eru allir hinir sömu, er með járnbrautarfrv. voru í fyrra. Þess vegna er jeg hissa á, að þeir skyldu ekki grípa tækifærið og bera það fram nú, þar sem þeir hafa þá tröllatrú á, að virkjunin sje rjett ókomin. Ef trú þeirra er svona sterk, — hvers vegna þá ekki að lofa ríkis- sjóði að hafa hagnaðinn fram yfir erlent gróðafjelag?

Fleira er það ekki, sem jeg þarf að svara þessum hv. þdm., en áður en jeg sest niður, ætla jeg þó að víkja nokkrum orðum til hv. 1. þm. Árn. (MT). Hann fyltist skáldskapargáfu og orti mjer upp orð, sem jeg hafði aldrei sagt. Hann hafði eftir mjer, að jeg hefði átt að nefna Titanfjelagið braskarafyrirtæki. En þetta sagði jeg alls ekki. Hinu beindi jeg til hans, að mig furðaði það stórum, að hann, sem er eindreginn járnbrautarmaður, skyldi nú geta fallist á, að þessari miklu samgöngubót, sem hann telur járnbrautina vera, skuli skotið á frest um óákveðinn tíma.

Hann sagðist ekki taka mig alvarlega, og get jeg vel trúað því. Við, sem þekkjum þennan hv. þm., vitum, að honum er gjarnt að gera að gamni sínu, og að hann þá stundum ræður ekki við gáska sinn. Þess vegna get jeg sætt mig við það, þó að hann taki mig ekki alvarlega, því bæði jeg og aðrir hv. þdm. vita, að hann tekur ekki forseta sameinaðs þings alvarlega.