18.03.1927
Neðri deild: 33. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2604 í B-deild Alþingistíðinda. (1887)

23. mál, járnbrautarlagning og virkjun Urriðafoss

Þórarinn Jónsson:

Háttv. 2. þm. Reykv. (MJ) hefir einn orðið til þess að andmæla brtt. okkar á þskj. 162 og sagði, að þær væru óskiljanlegar á tvennan hátt. í fyrsta lagi vegna þess, að við vildum fella niður tillag ríkissjóðs, þar sem ríkið fengi svo miklar tekjur af starfrækslunni. Þessu þarf ekki að svara, því að ef við tökum til samanburðar sjerleyfi það, sem veitt var um Dynjanda í fyrra, þá hefir það fjelag, sem það sjerleyfi fjekk, ekki samskonar hlunnindi og nú á að veita Titanfjelaginu, en á þó að greiða meira, því að 3 kr. gjaldið fyrir hestorkuna er þar aðeins miðað við 3 ár, en hjer í þessu frv. er miðað við 10 ár.

Í öðru lagi talaði hv. 2. þm. Reykv. um úrfellingu, sem við viljum gera í 9. gr. frv., og gerði mikið úr því, hve heppilegt væri að hafa það ákvæði í lögum, að ríkið mætti, hvenær sem væri, taka við járnbrautinni með öllum hennar gögnum og gæðum, gegn því að greiða sjerleyfishafa framlag hans til hennar. Mjer finst nú satt að segja, að ef það á að standa í lögunum, að ríkið geti tekið járnbrautina hvenær sem því sýnist, þá mundi þó rjettara, að andvirði hennar yrði ákveðið með mati. Seinasta málsgr. 9. gr. í frv. er bókstaflega óþörf, enda er í brtt. tekið fram, að ráðherra skuli „samþykkja öll flutningsgjöld og hafa eftirlit með rekstri brautarinnar.“ Þarna er alt það fram tekið, sem felast á í seinustu málsgrein 9. gr. frv.

Jeg vil þá undirstrika það, sem hv. frsm. sagði, að það er óhugsandi, að fjelagið ráðist í þetta fyrirtæki nema það fái nægilegt fje til þess. En það er eins og ýmsir haldi, að fjelagið muni byrja á járnbrautinni og síðan kikna á öllu saman, og járnbrautin falli þá til ríkisins. En þetta er misskilningur. Fjelagið ræðst ekki í framkvæmdir nema því aðeins, að það hafi nægilegt fje til þess, enda eru engin viðurlög við því, að aldrei verði byrjað á framkvæmdum.

Hv. frsm. segir nú, að það sje óhugsandi, að ríkissjóður geti. lagt járnbraut austur. Við erum þá orðnir sammála um það, þótt öðruvísi bljesi í fyrra. En jeg hefi ekki heldur trú á því, að járnbraut komi, þótt þetta frv. verði samþykt, og það er einmitt trúleysið á það fyrirtæki, sem gerir mig veilan. Þess vegna vil jeg, að fjelagið verði látið sýna, að því sje fullkomin alvara, og að það leggi og reki járnbrautina upp á eigin spýtur.

Hv. 1. þm. Árn. þarf jeg varla að svara. Hann var eitthvað ergilegur og myrkfælinn. Hann var að tala um, að jeg væri heppinn eða óheppinn ræðumaður, hvort jeg talaði að deginum eða kvöldinu. Þetta er bara hlægilegt. Sje honum eitthvað illa við Eyrbekkinginn og heldur að það sje einhver meinlætaskepna, þá vil jeg heldur bera í bætifláka fyrir hann, og hefi von um að fá upplýsingar um hann hjá hv. þm. Barð. (HK), ef á þarf að halda.