25.03.1927
Neðri deild: 38. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2624 í B-deild Alþingistíðinda. (1896)

23. mál, járnbrautarlagning og virkjun Urriðafoss

Atv.- og dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Jeg hefi leyft mjer að bera fram eina brtt. á þskj. 243, sem er breyting á brtt. frá hv. samgmn., er samþ. var við 2. umr. Jeg gat þess þá, að þar sem fjelagið fengi tveggja ára frest til þess að byrja á járnbrautinni, þá yrði jeg að telja þessa breytingu nefndarinnar til skemdar á frv., en það skilst mjer þó, að háttv. nefnd vilji ekki verða þess valdandi að spilla frv., og vona jeg því, að hún geti fallist á brtt.

Eins og nefndin gekk frá þessu atriði, fellur sjerleyfið úr gildi í árslok 1931, ef fjelagið byrjar ekki á lagningu járnbrautarinnar 1. maí 1929 og heldur henni áfram með hæfilegum hraða o. s. frv. En eftir minni brtt. fellur leyfið úr gildi strax, ef ekki er byrjað á verkinu á tilsettum tíma, og einnig, ef ekki er haldið áfram svo hratt, að verkinu geti orðið lokið á tilsettum tíma.

Út af brtt. hv. 4. þm. Reykv. (HjV) um tryggingu af hálfu fjelagsins, þá verð jeg að segja það, að frá mínu sjónarmiði er hún alveg þýðingarlaus, verði mín brtt. samþ., því að það er meira straff á fjelaginu, að sjerleyfið falli niður en þó að því verði gert að skyldu að greiða 100 þús. kr. í skaðabætur. Annars var hann með einhverjar dylgjur og glósur í minn garð, sem jeg sje enga ástæðu til að svara nú. Það mun gefast tækifæri til þess síðar, þegar vantrauststill. hans kemur hjer til umr.

Um brtt. hv. samgmn. hefi jeg ekkert að athuga, með þeirri skýringu, sem fylgdi frá hv. frsm. (KIJ).

Þá ætla jeg að geyma mjer að tala um brtt. á þskj. 222, þangað til gerð hefir verið grein fyrir henni. Þó skal jeg geta þess, að í 10. gr. sjerleyfislaganna er gert ráð fyrir, að sjerleyfishafi, sem virkjar fossa, láti af hendi áburðarefni, ef ráðherra krefst þess. Þetta var líka tekið fram, þegar talað var um sjerleyfið, svo að fjelaginu kemur slíkt ekki á óvart.

Þá kem jeg að brtt. háttv. 1. þm. Reykv. (JakM), sem er harðsnúnasti og rammasti andstæðingur frv. Þó þykist jeg mega skilja orð hans svo, að hann muni fylgja frv., ef brtt. hans ná samþykki. En jeg geri ráð fyrir, að ekki sje hyggilegt að kaupa fylgi hans svo dýru verði, því með þeim breytingum á frv., sem hann leggur til, er áreiðanlegt, að ekkert yrði úr framkvæmdum fjelagsins. Jeg ætla þá að ganga í gegnum brtt. hans í þeirri röð, sem þær eru fram bornar á þskj. 221 og 244.

Hv. 1. þm. Reykv. virðist mjög illa við, að sjerleyfishafa sje heimilt að framselja leyfið, og leggur því til, að 3. gr. falli niður. En mjer kemur þetta nokkuð spánskt fyrir, vegna þess að hann var í fyrra með samskonar skilyrðum. Er því næsta undarlegt, eins og jeg hefi áður tekið fram, hvað hann er nú harðorður um slíkt mál sem þetta og sjer nú ótal ljón á veginum og stórtjón fyrir land og lýð, en virtist fylgja samskonar máli í fyrra og sá enga hættu við það þá að veita slíkt leyfi. Jeg ætla ekki að fara í neinn meting um það, hvort betra sje orðalag frv. eða það, sem hann stingur upp á í II. brtt. við 7. gr. Jeg fyrir mitt leyti tel orðalag hans ekki betra, án þess þó að jeg ætli mjer í neina togstreitu þar um.

Sama er að segja um III. brtt. hans, þ. e. a. s. 1. og 2. lið hennar.

Þó vil jeg taka fram viðvíkjandi brtt. hans á þskj. 244, sem er breyting og viðbót við brtt. hans á þskj. 221, að mjer finst ekki rjett að ákveða sporvídd brautarinnar í sjerleyfislögunum, vegna þess að komið gæti á daginn, að þessi sporvídd reyndist óhentug. Jeg vildi óska þess, að sporvíddin yrði ekki ákveðin að svo stöddu, því að reynist svo að dómi fagmanna, að þessi breidd væri óhentug, þá er slæmt að vera búinn að lögfesta hana. En fagmaður í þessu efni er hv. 1. þm. Reykv. áreiðanlega ekki. Annars virðist mjer, að þetta atriði, ásamt svo mörgu öðru, sem ekki er hægt að taka upp í lögin, eigi að standa í væntanlegu sjerleyfi.

Við það að láta orðið „matsverð“ koma í staðinn fyrir „framlag“ hefi jeg ekkert að athuga. En jeg hefi tekið það fram áður, að um það hafi verið talað, að setja ætti reglur í sjerleyfi um, hvað mikið skyldi draga frá fyrir fyrningu. Það mundi því síst mæta mótspyrnu sjerleyfishafa, þó að settar væru skynsamlegar reglur, er ekki gengju á móti ákvæðum frv.

Um 3. lið III. brtt. á þskj. 221 verð jeg að segja það, að jeg er alveg hissa á, að hv. flm. brtt. skuli finnast það sanngjarnt, ef fjelag tekur að sjer að leggja og reka járnbraut austur að Þjórsá, þá skuli ráðherra hafa úrskurðarvald um öll ágreiningsmál, að viðlögðum missi eignarrjettar fjelagsins endurgjaldslaust. Háttv. 1. þm. Reykv. er þó það mikill fjármálamaður, að hann hlýtur að vita og sjá það, að lítt hugsandi væri að afla þess fjár, sem þyrfti til þess að reisa á slíka stóriðju og hjer er um að ræða, ef þetta eða líkt ákvæði stæði í sjerleyfislögum. Annars höfum við fullkomin ákvæði um þetta í sjerleyfislöggjöf okkar; sú trygging er sjerleyfisdómstóll, skipaður 5 óhlutdrægum mönnum. Þess vegna skil jeg ekki, hvers vegna hann vill ekki fela þessum mönnum að dæma um ágreining þann, er upp kann að rísa; það ætti þó að vera tryggara en að láta ráðherra úrskurða, sem í þessum tilfellum hlýtur að verða annar aðilinn.

Jeg býst við, að hv. 1. þm. Reykv. svari því, að járnbrautin heyri ekki undir sjerleyfislögin, en því er þá til að svara, að um byggingu brautarinnar og rekstur verður gefið út sjerstakt sjerleyfi, og í því sjerleyfi hlýtur járnbrautin og virkjunin að verða skoðað sem ein heild. Þess vegna munu reglur sjerleyfislaganna einnig verða látnar gilda um járnbrautina.

Svo er orðalagið á þessari brtt. dálítið undarlegt. T. d. þetta: „ef sjerleyfishafi hættir að reka fyrirtækið án samþ. ráðherra“. Hjer er gefið í skyn, að veita eigi ráðherra heimild til að leysa sjerleyfishafa undan rekstrarskyldu járnbrautarinnar, en það mun tæpast vera tilgangur hv. flm., en sje þessi tilgangurinn, þá er jeg því algerlega mótfallinn.

Þá kem jeg að IV. og síðustu brtt. á þskj. 221, um að sjerleyfishafi setji ekki óverulega tryggingu fyrir því, að byrjað verði á virkjun Urriðafoss fyrir 1. júlí 1934.

Jeg hefi altaf undir umr. þessa máls skilið hv. 1. þm. Reykv. svo, að hann væri mjög eindreginn á móti því, að byrjað væri á virkjun þarna eystra. En hvers vegna vill hann þá heimta af sjerleyfishafa tryggingu fyrir því, að byrjað verði á þeim framkvæmdum, sem hann hefir lýst sig mjög fjandsamlegan? Jeg held, að hjer geti ekki verið um annað að ræða en að hann hugsi sem svo, að þetta muni geta velt öllu fyrirtækinu, og það er auðvitað frá hans sjónarmiði æskilegast, en það er ekki lokkandi fyrir okkur fylgismenn málsins. Jeg lít svo á, að annaðhvort eigi að veita leyfið án endurgjalds eða þá að synja um það. Það virðist ekkert mæla með því að gera þetta að tekjustofni fyrir ríkissjóð, öðruvísi en óbeinlínis er tekið fram í frv.

Jeg vil leiða athygli að því, að komið hefir fram í umr., bæði frá hv. frsm. og enda fleirum, að samningarnir væru strangir og jafnvel fullstrangir fyrir fjelagið eins og gengið var frá stjfrv., og þó hefir verið hert dálítið á þessu við 2. umr.

En þó eru menn hjer í þessari hv. deild, sem ganga vilja lengra og herða enn meira á ýmsum ákvæðum til þess að þrengja kosti sjerleyfishafa. En alt slíkt er vitanlega ekki til annars en að eyðileggja málið og fæla menn frá að leggja fram fje í fyrirtækið. Þetta er að vísu skiljanlegt hjá þeim mönnum, sem telja sig vera á móti málinu; en við hinir verðum að leggjast fast á móti öllum þeim tilraunum, sem gerðar eru til þess að tefja fyrir málinu eða spilla því.

Þegar jeg var að semja við umboðsmenn fjelagsins í vetur, þá var það tvent, sem jeg hafði hugfast. í fyrsta lagi vakti það fyrir mjer að ná eins góðum kjörum landsins vegna og hægt er, og í öðru lagi að gæta hófs og vera ekki of strangur, svo að ekki færi þannig, að allar framkvæmdir fjelagsins strönduðu. Það er ekki vandi að setja svo ströng skilyrði, að ekki sje hægt að ganga að þeim, en það er vandi að sigla svo milli skers og báru, að landið tapi engu, en að fyrirtækið geti þó komist á laggirnar.

Því hefir verið haldið fram af tveimur hv. þdm., að auðsætt sje, að fjelagið þurfi í upphafi að hafa nægilegt fje til fyrirtækisins. En jeg tel óþarft að einblína svo mjög á það. Mjer finst að nægilegt sje, að fjelagið hafi það fje í byrjun, sem þarf til þess að leggja járnbrautina. Jeg fyrir mitt leyti mundi óhikað láta fjelagið fá sjerleyfið, ef það sýndi svart á hvítu, að nægilegt fje væri fyrir hendi til þess að byggja járnbrautina, eða sannanir eða jafnvel sterkar líkur fyrir, að fjeð yrði til þegar á því þyrfti að halda.

Hv. 4. þm. Reykv. (HjV) talaði um afstöðu Reykjavíkurbæjar til þessa máls og endaði með því, að hann væri mótfallinn þessari virkjun, vegna þess að Reykjavík hefði í hyggju að starfrækja Sogsfossana. Það er vitanlega gleðilegt að heyra, að Reykjavík er svo vel stödd, að hún geti tekið 5–6 miljóna lán til þess að virkja Sogsfossana. Við þurfum þá ekki að kvíða myrkrinu hjerna í Reykjavík, þar sem hv. 4. þm. Reykv. er í bæjarstjórninni og nóg fje í kassanum til framkvæmdanna.

Út af athugasemdum háttv. 2. þm. Reykv. (MJ) um 9. gr. vil jeg benda á, að það er ekki ætlast til, að fjelagið greiði neinn skatt vegna rekstrarbrautarinnar. Verði ágóði af rekstri brautarinnar, fær ríkissjóður hluta af honum, í hlutfalli við framlag sitt, og auk þess getur ráðherra þá sett flutningsgjöldin niður, og er það hagur almennings.

Annars vona jeg, að umr. þessum verði bráðum lokið, svo hægt verði að ganga til atkvæða.