25.03.1927
Neðri deild: 38. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2631 í B-deild Alþingistíðinda. (1897)

23. mál, járnbrautarlagning og virkjun Urriðafoss

Magnús Torfason:

Við 2. umr. lýsti jeg yfir því, að jeg mundi skirrast við að fara út í almennar hliðar þessa máls. Jeg skal nú heldur ekki, af sjerstökum ástæðum, fara langt út í það að þessu sinni, heldur láta mjer nægja að drepa aðeins á tvö eða þrjú helstu atriðin. En áður en jeg kem að því, vil jeg lýsa yfir því, að mjer hefði verið það mjög ljúft að greiða varabrtt. á þskj. 232, frá hv. 4. þm. Reykv. (HjV), atkvæði mitt; en bæði er það, eftir því sem mjer er kunnugt, að það mun ekki vera framkvæmanlegt, og svo hafa síðan komið fram tillögur, sem gera þessa tillögu ekki eins þarfa og þegar málið var hjer til 2. umr.

Það er eitt í þessu máli, sem jeg vildi lýsa hjer yfir, og það er það, að mjer skilst, að það játi nú allir þingmenn þessarar hv. deildar, að járnbrautin sje þó samgöngubót. Jeg sje, að hæstv. forseti (BSv) hristir höfuðið, en jeg verð að segja það, að brtt. sú, sem hann var meðflutningsmaður að, hún sannar mjer þetta, ef hana er nokkuð að marka, því að hæstv. forseti vildi þó láta okkur fá járnbrautina gefins, og skil jeg ekki, að hann hefði viljað það, ef hann hefði ekki talið einhverja samgöngubót að henni, og sama var um annan hv. þm., sem stóð þar að. Það hefir líka verið mest deilt um hinn hlutann, sjerleyfið, og að því er hann snertir, þá hefir því verið neitað, að að því væri nokkur bót. Jeg ætla nú ekki að telja alt fram, sem því mælir bót; jeg þarf ekki annað en að minna á það, að eftir því sem gengið er frá lögunum nú, þá er það hreint og beint skilyrði til fossafjelagsins Titans, að það setji hjer áburðarvinslu á stofn, og jeg veit ekki, hvort annað mundi fremur geta hjálpað landbúnaðinum og stutt að því, að landið verði betur ræktað, nje heldur hvort annað mundi fremur hjálpa til þess að fjölga sveitaheimilum hjer á landi, sem auðsjeð er, að þingið ber mjög fyrir brjósti. Það er fyrst og fremst fullkomin landrækt, sem þarf að komast á, til þess að þeirri fögru hugsjón geti orðið framgengt, og undir það ýtir ekkert betur en áburðariðjan. Á Selfossi í sumar lýsti konungur vor yfir því, að landbúnaður vor væri hundrað ár á eftir tímanum, en það er einmitt slíkt, sem gæti gert það að verkum, að hjer kæmist á vjelyrkja eins og er í öðrum löndum; með slíku er von um það, að við myndum geta stigið þetta stóra spor, sem okkur vantar, og það að ná fram til fullkominnar nútíma landræktar með vjelyrkju, aðeins það gæti orðið til þess, að landbúnaðurinn stæði eins vel að vígi eins og hinn atvinnuvegurinn, stórútgerðin hjer í Reykjavík, og einmitt það, hvernig sumir fulltrúar stórútgerðarinnar hjer hafa snúist á móti þessu máli, gefur mjer það traust, að við sjeum hjer á rjettum vegi. Jeg get nefnilega ekki hugsað mjer annað en að fyrir þeim vaki það, að landbúnaður með vjelrækt myndi draga frá þeim vinnukraft, og við vitum, að það er kaupið, sem ræður slíku algerlega, og það er fyrst þegar landbúnaðurinn stendur svo vel að vígi, að hann getur gefið sama kaup og stóriðnaðurinn, að hann getur orðið keppinautur hans. Og af þessari mótstöðu marka jeg það, að stórútgerðarmennirnir bera að minsta kosti nokkurn kvíðboga fyrir því, að svo fari. Frá öðru sjónarmiði get jeg ekki skilið þeirra mótstöðu, og það af þeim mönnum, sem áður hafa þó verið máli þessu hlyntir.

Það hefir nú verið ráðist á þetta fyrirtæki frá sjálfstæðissjónarmiði, en þó sjerstaklega frá sjónarmiði þjóðernisins. Jeg verð að segja það, að jeg get ekki fullkomlega skilið þetta; við vitum það, að það eru ekki mörg ár síðan, eitthvað 9–10 ár, að hjer var borið fram frv. um það að kaupa fossa landsins fyrir 2 miljónir króna, og það var einmitt harðasti sjálfstæðismaðurinn, sællar minningar, sem bar það fram. Mjer dettur ekki í hug að halda, að það hafi verið borið fram til þess eins að láta okkur fá að sjá fossavötnin okkar renna óbeisluð til sjávar fyrir vextina af 2 miljónum króna á ári. Það er ómögulegt að skilja, að fyrir þeim manni hafi vakað annað en það, að það ætti að nota þá. Jeg get heldur ekki skilið, að fossanefndin, sem hjer um árið var skipuð með miklum kostnaði og mjög til hennar vandað á allan hátt, hafi líka verið skipuð alveg tilgangslaust. Nú er þetta fyrsta verulega tilraunin til þess að fara að nota fossana okkar, og þá finst mjer, að þessi aðstaða hjá sumum mönnum fari einmitt í bág við það, sem áður gerðist í þessu máli.

Jeg skal nú ekki lengja þessar umræður og heldur ekki í þessu máli taka upp þær hnútur, sem að mjer hefir verið kastað. Það eru menn hjer í deildinni, sem vilja gerast siðameistarar þingsins, og það gleður mig, að þeir þykjast standa svo fast á svellinu, því að það er vitanlegt, að þeir, sem siða aðra, verða að ganga á undan í allri háttprýði. Yfir höfuð getur það ekki annað en glatt mig, að menn gera svo háar kröfur til fulltrúa þjóðarinnar eins og þeir menn gera.