26.03.1927
Neðri deild: 39. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2659 í B-deild Alþingistíðinda. (1907)

23. mál, járnbrautarlagning og virkjun Urriðafoss

Magnús Torfason:

Jeg þóttist hafa reynt að haga svo orðum mínum í gær, að ekki þyrfti að andmæla þeim. Enda hefir það ekki verið gert neitt verulega, nema hvað eitt atriði snertir.

Jeg gat þess, að fyrir 10 árum hefði verið ætlast til þess, að varið yrði 2 miljónum króna til þess að kaupa fossa handa ríkinu. Þetta veit jeg, að er rjett, því að jeg fjallaði þar um. Hitt er líka rjett, að í frv. var gert ráð fyrir því að taka 20 milj. kr. lán til þess að kaupa og hagnýta fossa.

Hv. 1. þm. Reykv. (JakM) vill nú halda því fram, að sá, sem bar fram frv. þetta, hafi ekki ætlast til þess, að notað yrði útlent fje til þessarar stóriðju, og má það að vissu leyti til sanns vegar færa. Hugsunin var sú, að landið keypti alla fossa, eða hefði að minsta kosti yfir að ráða helming af atkvæðamagni um notkun þeirra, ef einhverjum öðrum væri leyft að eiga þar hlut í. Að öðru leyti veit jeg ekki, að það sje mikill munur á því að láta útlendinga veita fje hjer til fyrirtækja eða að við tökum lán erlendis með ábyrgð ríkisins. Það er í báðum tilfellum um erlent fjármagn að ræða. Og við verðum að gera okkur ljóst, að við eigum ekki nema um tvent að velja: annaðhvort að virkja aldrei fossana, eða þá að við verðum að fá fje frá útlöndum til virkjunarinnar. Og hjá því verður ekki komist, því að lífið og þjóðin heimtar aukin þægindi og kröfurnar til þess aukast dag frá degi. Við stöndum nú svo að vígi, að við eigum við lítil þægindi að búa á norðurhjara heims, og því má ekki sporna á móti því, að við fáum þau þægindi, sem náttúrugæði þessa lands geta veitt okkur.

Annars vil jeg minna á það, að því hefir altaf verið haldið fram, að það væri sjálfsagt að veita fyrsta fjelaginu, sem byrjaði á fossavirkjun, meiri hlunnindi en öðrum. Og jeg vil líka minna á þá staðreynd, að öll útlend fyrirtæki hjer hafa orðið innlend með tíð og tíma. Jeg á hjer ekki við það, að útlendingar geti ekki selt hjer náttkjóla og lífstykki, heldur á jeg við það, að öll hin stærri fyrirtæki, sem á fyrirhyggju hafa þurft að halda, hafa komist á íslenskar hendur, og nú er t. d. eitt hið stærsta að verða innlent.

Því verður ekki neitað, að útlendingar vilja hafa eitthvað upp úr þeim fyrirtækjum, sem þeir hafa lagt fje í. En hjá því verður ekki komist í jafnfjelitlu landi. Við verðum bara að tryggja okkur gegn því, að gróði þeirra verði okurgróði og fyrirtækin verði okkur sjálfum til tjóns.

Jeg mun svo með atkvæði mínu sýna, hverjar brtt. mjer eru geðfeldar.