26.03.1927
Neðri deild: 39. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2660 í B-deild Alþingistíðinda. (1908)

23. mál, járnbrautarlagning og virkjun Urriðafoss

Sveinn Ólafsson:

Jeg tók það fram við 1. umr. þessa máls, að það, sem gerði mjer það kleift að fylgja því að þessu sinni, væru vonir þær, sem við það eru tengdar um það, að eignast járnbraut austur yfir fjall, það samgöngutæki, sem þriðjungur landsmanna óskar eftir og hefir lengst þráð. En jeg tók það líka fram, að ef ekki væri um það að ræða, að við gætum fengið járnbrautina, þá mundi jeg hiklaust hafa greitt atkvæði á móti vatnsvirkjuninni, í hverri mynd sem birst hefði.

Með þetta fyrir augum eru tillögur samgmn. gerðar, því að nefndin lítur á þetta líkt og jeg, að aðalatriðið sje að fá járnbrautina. Það er því skiljanlegt aðhald, sem kemur fram í till. nefndarinnar og lýtur nær eingöngu að framkvæmdum um járnbrautarlagninguna, en ekki virkjunina. Nú hafa einnig komið fram till. frá öðrum hv. þdm., sem veita eiga slíkt aðhald um virkjun vatnsins, bæði frá háttv. 1. þm. Reykv. og háttv. 4. þm. Reykv., en þó hygg jeg, að það aðhald, sem í þeim felst, sje ekki eins mikið og þeir ætla. Þótt svo færi, að fjelagið yrði skyldað til að setja vatnsrjettindi og fasteignir að veði fyrir því, að úr framkvæmdum verði, þá er það ekki svo ýkjamikils virði fyrir ríkið að eignast þetta. Vatnsrjettindi Titans í Þjórsá og þverám hennar munu hafa kostað fjelagið um 170 þús. kr., en auk þess mun fjelagið hafa leigt einhver vatnsrjettindi.

Ef skortur væri orkuvatna í landinu, þá gæti það verið mikils virði fyrir ríkið að fá þessi rjettindi yfir Þjórsá, en eins og nú horfir við, eru þau ríkinu nær einskis virði, þar sem það hefir ráð á orkuvötnum langt fram yfir það, sem notað verður á næstu áratugum. Það líða langir tímar áður en ríkið getur hagnýtt sjer öll vatnsrjettindi, sem það á, og hvað frekar ef um meira væri að ræða. Þetta er alment talað það, sem jeg vildi segja um virkjunarleyfið og aðhaldið, og það, sem hefir leitt mig til þess að styðja að því, að þetta leyfi yrði veitt með skildögum þeim, sem nefndin styður. Hinsvegar skal jeg segja það eins og það er, að jeg væri þá þakklátastur þessu útlenda fjelagi, ef það stæði við samningana um byggingu járnbrautarinnar og hyrfi að því loknu á brautu. Við þau leikslok gæti jeg vel unað.

Jeg hefi ekki meiri trú á þeim útlendu stóriðjufyrirtækjum en hv. þm. Str. (TrÞ), og óska síst eftir vexti þeirra.

Annars vil jeg segja það um þessa till. hv. þm., á þskj. 222, um skyldu fjelagsins til áburðarsölu 25% undir sannvirði, að við hana get jeg ekki felt mig, því að mjer finst það líkjast of mikið beiningamannsháttum að koma þannig fram fyrir útlent auðfjelag og biðja um ölmusu.

Jeg vil um þetta atriði fylgja því fordæmi, sem annarsstaðar tíðkast, t. d. í Noregi, að áburðurinn sje látinn af hendi 4–5% undir heildsöluverði, sem nálgast mundi vinslukostnað. Á því er bygð till. samgmn. á þskj. 246, og með henni ætti landbúnaðinum að vera trygð sæmilega góð kjör í áburðarkaupum. Með því finst mjer vera í hóf stilt. En jeg vil ekki láta líta svo á, að jeg sje að mæla þetta útlenda fjelag undan eðlilegum kröfum, þótt þessi kvöð sje linuð.

Eins og jeg hefi áður tekið fram, var við 2. umr. samþ. sá viðauki við 10. gr. frv., sem felur í sjer mest aðhald um byggingu járnbrautarinnar. Nú er komin fram brtt. frá hæstv. atvrh. einmitt við þennan lið 10. gr., á þskj. 243. Við fyrri hluta þessarar umr. gerði jeg aths. við þessa brtt.; jeg lýsti því yfir þá, að jeg teldi hana ekki til bóta. Jeg tel, að þótt hún verði samþ., þá geti orðið meiri dráttur á byggingu brautarinnar, án víta fyrir fjelagið, en eftir 10. gr., eins og hún er nú. Sjerleyfið fellur að vísu niður eftir till. hæstv. ráðh., ef ekki verður byrjað á verkinu í tæka tíð, eins og þegar stendur í gr., en það verður naumast úr því skorið fyr en síðast á byggingartímanum eftir till. hæstv. ráðh., hvort verkinu muni verða lokið í tæka tíð, og 1. júlí 1934 er auðvitað of seint að sjá þetta og viðurlögin koma þá of seint. Þess vegna vildi jeg áður en þessi og aðrar brtt. koma til atkv., leyfa mjer að bera fram skriflega brtt. við brtt. hæstv. atvrh. Jeg tel nægilega langt að bíða í óvissu um framkvæmdir fjelagsins til ársloka 1931.

Eins af tvennu vildi jeg mega vænta, annaðhvort að þessi skriflega brtt. mín verði samþ. eða að 10. gr. frv. verði látin standa óbreytt.

Jeg vil svo ekki að sinni orðlengja um þetta frekar. Jeg hygg, að málalokin verði þau sömu, hvort sem deilt er lengur eða skemur. Að svo mæltu leyfi jeg mjer að afhenda hæstv. forseta brtt. skrifuðu.