26.03.1927
Neðri deild: 39. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2671 í B-deild Alþingistíðinda. (1915)

23. mál, járnbrautarlagning og virkjun Urriðafoss

Magnús Torfason:

Út af orðum hv þm. Str. (TrÞ) ætla jeg að segja örfá orð. Í hans ræðu kom það greinilega fram, að hann ber ekkert traust til hæstv. stjórnar um að hún fari sæmilega með þetta sjerleyfi, sem hún ætlar nú að veita. (TrÞ: Þetta er alveg rjett). Þar greinir okkur á, mig og hv. þm. Str. Jeg hefi lýst því yfir áður, að jeg verð að varpa öllum mínum áhyggjum upp á hæstv. stjórn í þessu máli. Jeg get ekki ætlað hana svo auma, að hún fari ekki sæmilega með þetta sjerleyfi, þó að ekki væri nema sjálfrar sín vegna.

Hv. þm. mintist á, að útlendingar hefðu rist breiðar hrygglengjur í hrygg okkar Íslendinga áður en hin útlendu fyrirtæki urðu innlend. Skildist mjer hann þar eiga við einokunartímabilið. Jeg átti nú ekki við einokunartímabilið, heldur átti jeg við þessa síðustu tíma, eftir að við fengum sjálfstæði í fjármálum. Síðan hefir allur atvinnurekstur færst meir og meir yfir á okkar hendur, en útlendingar hafa ekki getað staðið okkur á sporði. Og í trausti til þeirrar þjóðar, sem þannig hefir rækt sitt hlutverk, er jeg ekkert hræddur við það útlenda fjármagn, sem hjer ræðir um.