30.03.1927
Efri deild: 40. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2688 í B-deild Alþingistíðinda. (1921)

23. mál, járnbrautarlagning og virkjun Urriðafoss

Einar Jónsson:

* Mjer er það gleðiefni, að allir virðast vera sammála um það atriði, sem mestu varðar í þessu efni, og það er, að bættar samgöngur sjeu besta og rjettasta ráðið landbúnaðinum til viðreisnar. Það er ekki oft, að skoðanir manna verði allar á einn veg, en svo er nú í þessu máli. En þegar þetta er nú viðurkent og hjer er um að ræða stórkostlegar samgöngubætur, þá virðist málið vera í góðu horfi. Jeg veit, að þm. eru svo sanngjarnir að sjá, hve mikil nauðsyn er á að fá þessa línu austur, þar sem sjóleiðin þangað er ófær. Það er t. d. engin sýsla jafnilla sett hvað samgöngur á sjó snertir eins og Rangárvallasýsla. Þess vegna er brýn þörf á því, að samgöngurnar þaðan og til hafnarstaðanna sjeu í góðu lagi. Um þetta ætla jeg ekki að þræta neitt núna. Spurningin er nú aðeins, hvaða leið skuli fara til þess að bæta samgöngurnar austur yfir fjall. Mjer virðist það aðallega vera tvent í frv. því, er hjer liggur fyrir, sem menn óttast. í fyrsta lagi eru sumir hræddir við að veita sjerleyfið, en í öðru lagi eru aðrir, sem vilja ekki, að ríkið leggi fram neitt fje til járnbrautarinnar. Þá er nú þriðja atriðið eftir, og það er, að ríkið framkvæmi járnbrautarlagninguna á eigin spýtur, en ekki í fjelagi við Titan. Hjer er því eiginlega um þrjár leiðir að ræða, sem liggja að sama markinu. Jeg fyrir mitt leyti sje ekkert á móti því, þótt út í þetta verði lagt og sjerleyfið verði gefið, því að jeg efast ekki um, að fjelagið Titan sje svo sterkt, að það geti framkvæmt þetta. Við sitjum annars ekkert af okkur, þótt þetta verði reynt, t. d. í næstu tvö ár. Og þótt sjerleyfi til virkjunar Þjórsár verði veitt, kemur það ekki í bága við neitt, sem gert yrði á næstu árum, því að engir, hvorki einstaklingar eða landið í heild sinni, hafa not af því, að vatnið renni þannig óhindrað til sjávar. Það er því hyggilegt að reyna þá, leið, sem hjer er stungið upp á. Þar sem nú gefnar eru sterkar vonir um það, að fjelagið geti framkvæmt járnbrautarlagninguna, þá ættum við að sjá til um næstu tvö ár, enda sitjum við ekki neitt af okkur við það.

Þá hefir verið vitnað til þess, að ríkið rjeðist í að leggja járnbrautina, eins og stungið var upp á á síðasta þingi. En eftir mörgu, sem fram hefir komið, hygg jeg, að sú leið sje ekki hugsanleg, enda þótt segja mætti, að ríkið væri þess megnugt. Jeg sje því ekki annað ráð betra en að þetta verði framkvæmt í sambandi við Titanfjelagið, þó að ríkið þurfi að leggja fram ofurlítið fje, enda hefir það þá meiri rjett á fyrirtækinu en annars, ef það legði ekkert fram.

Háttv. 5. landsk. (JBald) sagði, að þetta mál hefði getað komist í gegn í fyrra, en hafi strandað af því að stjórnin hefði fylgt því svo slælega. Jeg býst við, að hún svari fyrir sig, og ætla jeg því ekki að þrátta um þetta. En mjer þykir undarlegt, ef menn vilja, að ríkissjóður leggi fram 6 milj. kr. til þess að fá járnbraut austur að Ölfusá, eða 8–9 milj. kr., eins og hæstv. atvrh. upplýsti, að hún mundi kosta, ef hún ætti að ná austur að Þjórsá, í stað þess að komast af með einar 2 milj. kr. Jeg vildi heldur taka hinn síðari kostinn, ekki hvað síst þegar það hefir komið fram, að vatnsorkuskatturinn og sparnaðurinn á viðhaldi vega mun koma til með að nema meira en vextir og afborganir af þessum 2 milj. kr.

Jeg skal játa, að jeg var ekki altaf viðstaddur við umr. þessa máls í Nd., en jeg hefi verið við, er þetta sama mál hefir komið hjer til tals fyrir löngu síðan, og þá var það ein aðalmótbáran gegn því, að af því mundi leiða innflutningur verkafólks, en það gæti aftur orðið háskalegt fyrir þjóðerni okkar. Jeg varð minna var við þetta nú. En jeg tók eftir því við umr. í Nd., að einn fróðasti maðurinn í þessum efnum gerði ráð fyrir, að ekki þyrfti meira en 5–6 hundruð verkamanna, og hann bætti því við, að búast mætti við, að þeir yrðu hjer starfandi 3–4 ár. Þá gerði hann ráð fyrir, að þetta þyrftu ekki alt að vera erlendir verkamenn, heldur mundu innlendir verkamenn eitthvað geta komist þar að. En þó svo færi, að um 5–6 hundruð erlendir verkamenn flyttust hjer inn, þá get jeg ekki sjeð, að af því stafi nein hætta fyrir þjóðina. Jeg get ekki felt mig við þá hugsun, sem virðist koma fram hjá sumum, að þessir verkamenn þurfi endilega að vera einhver óaldarlýður, bófar og ræningjar. Jeg get eins vel vænst þess, að þeir verði nytsamir og gagnlegir menn, eins og við Íslendingar erum svona upp og niður.

Jeg ætla ekki að þreyta menn með langri ræðu við þessa umr., enda get jeg lítið upplýst, sem ekki hefir áður komið fram. Jeg býst við, að hv. þm. myndi sjer skoðun á þessu máli eftir bestu getu, og munu orð mín fá þar litlu breytt. En þess vildi jeg óska fyrir hönd hjeraða þeirra, sem hjer eiga hlut að máli, að menn verði ekki svo tortryggnir og kvíðnir, að þeir hindruðu málið eins og það nú er komið, en reyndu heldur að láta það fá sem besta afgreiðslu.

*Ræðuhandr. óyfirlesið.