30.03.1927
Efri deild: 40. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2692 í B-deild Alþingistíðinda. (1922)

23. mál, járnbrautarlagning og virkjun Urriðafoss

Jónas Jónsson:

Í tilefni af ræðu hæstv. atvrh. vildi jeg beina til hans nokkrum fyrirspurnum til frekari skýringa á málinu.

Það, sem mjer finst mestu varða, er að fá að vita, hverjar líkur sjeu fyrir því, að fjelag það, sem um sjerleyfið sækir, er verða á stór þáttur í atvinnulífi landsins, geti gert áform sitt að veruleika. Það hefir verið tekið fram af öðrum þm., að fyrri reynsla bendi nú til þess, að svo geti farið, að fjelagið taki ekki til starfa. En þar sem hæstv. ráðh. hefir haft kynni nokkur af fjelaginu, þá vil jeg spyrja hann, hve mikill höfuðstóll fjelagsins sje og hve mikið af því fje sje enn ógreitt, og einnig, ef hlutabrjef þess hafa verið skráð í kauphöllum, hvort hæstv. ráðh. viti nokkuð um verð á þeim. Þetta er undirstaða, sem byggja má á ályktanir um það, hvers vænta megi af fjelaginu. Því hefir verið haldið fram viðvíkjandi möguleikunum fyrir tryggingu frá hálfu fjelagsins, að eignir þess væru allar veðsettar og væri því ekki hægt að veita tryggingu í þeim. Er hæstv. ráðh. kunnugt um, að eignir Titans, lönd og vatnsrjettindi, sjeu veðsettar? Það væri fróðlegt að vita. Einnig væri fróðlegt að vita, hvaða eignir aðrar fjelagið á, t. d. hvort það á Skildinganes, þar sem ráðgert er, að framtíðarverksmiðjur þess eigi að standa. Næst vil jeg spyrja að því, hvaða menn, útlendir og innlendir, eru í stjórn fjelagsins. Mjer er auðvitað kunnugt um suma, t. d. um einn, sem sæti á á Alþingi, og um bónda einn í Rangárvallasýslu. En mjer er ókunnugt um, hverjir að því standa. Hæstv. ráðh. nefndi þektan norskan mann, en hvort hann er í stjórninni, veit jeg ekki. Það hefir að minsta kosti ekki komið fram.

Þá kem jeg að atriði, sem hæstv. atvrh. ætti að geta upplýst. Jeg hefi nefnilega frjett það lauslega úr nefnd þeirri í Nd., sem mál þetta hafði til meðferðar, að hæstv. ráðh. hafi sagt þar, að hann hafi gefið fjelaginu það í skyn, er hann var að semja við það, að ólíklegt væri, að heimtuð yrði trygging af því, þar sem svo hefði ekki verið gert við fjelagið, sem sótti um virkjun Dynjandisár. Mjer þykir ósennilegt, að hæstv. ráðh. hafi sagt þetta.

Það hlýtur að vera ljóst, að það eru aðallega tvö atriði, sem koma til athugunar, þegar um það er að ræða, hvort veita skuli sjerleyfi eða ekki. Hið fyrra er sú almenna röksemd, hvort heppilegt sje að veita erlendu fjelagi rjett til þess að starfa hjer og hvort það muni ekki bera þá atvinnurekendur, sem fyrir eru, ofurliði. Og þetta er auðvitað þýðingarmesta atriðið. Hitt atriðið er um það, hvort fjelagið sje þess virði, að Alþingi eyði miklum tíma í að búa til löggjöf viðvíkjandi því. Menn ættu að vera samdóma um það, að það er til minkunar fyrir þingið að vera að því, ef engin von er til þess, að fjelagið geti framkvæmt það, sem um er að ræða. — Jeg er hræddur um, að hæstv. atvrh. hafi með atkv. sínu í fyrra gegn því, að fjelag það, sem sótti um Dynjandisá, yrði látið setja tryggingu, undirbúið það, að fjelagið stendur nú í litlu áliti hjá landsmönnum. En mjer þykir samt ólíklegt, að hann hafi gefið Titanfjelaginu í skyn, að þingið nú mundi ekki heldur setja inn strangari ákvæði. En jeg verð að segja það, að þótt þingið í fyrra hafi hlaupið á sig, þá er ekki víst, að það geri það nú aftur. Bændur eystra mundu líta svo á, ef fjelagið setur engar tryggingar, að þetta sje aðeins leikur og verði ekki til annars en að tefja fyrir málinu um nokkur missiri. En hjeruðin austan fjalls gera þá kröfu, að járnbrautarmálinu sje haldið vakandi bæði í tíma og ótíma. — Jeg álít, að ef hæstv. ráðh. hefir gefið fjelaginu undir fótinn með að setja enga tryggingu, þá hafi hann hvorki gert málinu eða fjelaginu greiða. Þar sem Reykjavík heimtar tryggingu af ekki stærra fjelagi en íshúsfjelaginu sænska, tryggingu, sem nemur tugum þúsunda, án þess að aðrar ástæður sjeu fyrir hendi en þær, að bæjarstjórnin vildi ekki láta gabba sig, þá er hjer um enn meiri nauðsyn fyrir tryggingu að ræða vegna heiðurs Alþingis og hjeraðanna austanfjalls. Jeg ætla ekki að fjölyrða meira um þetta, en geri ráð fyrir, að hæstv. ráðh. gefi skýringar á þessu.

Þá sagðist hæstv. atvrh. hafa í höndunum gögn, sem sýndu, að erlendir fjármálamenn hugsuðu sjer að leggja fje í þetta fyrirtæki. Jeg hefi heyrt nefndan einn fjármálamann í Svíþjóð, sem væri eitthvað við fjelagið riðinn, en að öðru leyti hefi jeg ekki heyrt nein nöfn nefnd. En hvað hefir hæstv. ráðh. fyrir sjer í þessu? Hann hefir áður gefið þá skýringu, að fjármálamenn, sem hann að vísu ekki nefndi, mundu leggja fram fje í fyrirtækið, ef það reyndist álitlegt. Þetta segir auðvitað ekkert. Það er í sjálfu sjer sama svarið og háskólaráðið gaf, er það vildi lofa mönnum að taka stúdentspróf fyrir norðan, ef það kæmi ekki í bág við lögin. Seinna er svo sagt, að það geri það nú einmitt. Þar sem dæmið liggur nú svona nærri, vona jeg, að menn sjái, að það er lítið upp úr þessu leggjandi. Jeg vildi heyra álit hæstv. ráðh. um það, hvort það sje ekki minkun fyrir Alþingi að vera að búa til þetta sjerleyfi, ef engin trygging fæst frá fjelaginu, því að það er eins og að spila við blindan. Það er minkun fyrir Alþingi, að hvert fjelag, sem um sjerleyfi sækir, skuli ekki láta fylgja umsókninni tryggingu fyrir skaðabótum, ef ekki er staðið við allar skuldbindingar — Jeg vil heyra það frá stjórninni, hvort fjelagið geti ekki sett tryggingu í vatnsrjettindum, því að það gæfi þeim mönnum, er málið vilja styðja, betri aðstöðu til að fylgja því, ef það hefir einhvern veruleikablæ.

Hæstv. atvrh. sagði, að fjelagið hefði ekkert fje handbært til þess að leggja fram til tryggingar. Það er að vísu slæmt, en þá er að vita, hvort það á ekki veðhæfar eignir, a. m. k. vatnsrjettindin.

Hæstv. atvrh. sagði eina góða setningu, sem jeg er honum samdóma um, og það er, að góðar samgöngur sjeu undirstaða allra framfara. En jeg vil benda hæstv. ráðh. á það, að hann hefir ekki munað eftir þessu við aðra atkvgr., sem fór fram á þinginu í fyrra. Ef jeg man rjett, þá drap hann einmitt till. um byggingu strandferðaskips. Hann mun þó vita, að það eru til heilar sýslur, sem sárlitlar samgöngubætur hafa frá ríkinu, til dæmis Austur-Skaftafellssýsla, Barðastrandarsýsla og Dalasýsla, nema ef vera skyldi fáeinar skipaviðkomur með afarkostum. Jeg vildi óska, að hæstv. atvrh. myndi eftir þessari setningu, er strandferðaskipið kemur aftur undir atkv. Það er eins brýn þörfin á því að bæta samgöngurnar á smáhafnirnar eins og að byggja braut yfir Hellisheiði. Hæstv. ráðh. gæti ekkert sagt við því, þótt frv. þessu væri hjer lakar tekið en í Nd., þar sem hann og flokkur hans hefir sýnt slíkt skilningsleysi í mjög svo viðráðanlegu velferðarmáli þriggja fjórðunga. Jeg hefi altaf haft þá skoðun á lausn járnbrautarmálsins, að smáhafnirnar fengju viðurkenningu á þörfum sínum jafnhliða því, sem unnið væri að samgöngubótum á Suðurlandsundirlendinu. En hæstv. ráðh. hefir ekki haft þann skilning á málinu.

Jeg vil ítreka það, að það væri áreiðanlega betra fyrir málið, ef fjelagið og aðstandendur þess reyndu að vinna á móti þeim grun, sem margir hafa um öryggi þess, með því að ganga hjer inn á einhverja tryggingu. Það mundi sýna, að fjelagið hefði sjálft trú á mætti sínum.