30.03.1927
Efri deild: 40. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2700 í B-deild Alþingistíðinda. (1924)

23. mál, járnbrautarlagning og virkjun Urriðafoss

Magnús Kristjánsson:

Jeg ætla í fáum orðum að láta í ljós skoðun mína á þessu máli, þó reyndar megi segja, að jeg hafi gert það áður. Frá því fyrsta að til tals kom möguleiki á því að byggja járnbraut hjer á landi, þá hefi jeg verið þeirri hugmynd hlyntur. Það leiðir því af sjálfu sjer, að mjer er það gleðiefni, að það er svo vel á veg komið, sem raun er á orðin. Jeg áleit, að það hefði verið æskilegast að fá málið afgreitt eins og það lá fyrir á síðasta þingi, ef það hefði þótt tiltækilegt fjárhagsins vegna, að ríkið sjálft sæi um allar framkvæmdir. En á því þóttu þá örðugleikar svo ekki varð úr. Því er það vel farið, að aðrir eru fáanlegir til þess að bera að miklu leyti kostnað þann, sem af járnbrautarlagningunni leiðir. Jeg er ekki hræddur við þessar illu afleiðingar, sem menn halda, að virkjunin kunni að hafa í för með sjer, úrkynjun fólksins o. s. frv. Það er vantraust á þjóðinni að láta slíkt í ljós, og er ástæðulaust að vera að ræða um það. Það eru að vísu mörg atriði, sem hjer koma til greina, en með því að þetta mál hefir verið mjög ítarlega rætt í hv. Nd., get jeg gengið framhjá mörgum atriðum, sem mætti ræða í þessu sambandi. Það hefir verið dregið í efa, að fjelagið hefði fjárhagslegt bolmagn til þess að framkvæma þetta verk. Það má vel vera. En mjer finst það dálítið undarlegt, að það eru einmitt þeir menn, sem eru máli þessu undir öllum kringumstæðum mótfallnir, sem aldrei munu greiða atkvæði með járnbraut, hvar og hvenær og af hverjum, sem hún yrði lögð; það eru einmitt þessir menn, er mesta áherslu leggja á þetta atriði. Hjer virðist mjer kenna nokkurs ósamræmis. Svo hefir og verið rætt um það, að ef sjerleyfið verður samþykt eins og hv. Nd. gekk frá því og fjelagið reynist ekki megnugt til framkvæmda, þá muni það verða til þess að tefja fyrir þessu máli í heild sinni. Mjer virðist, að sá frestur, sem fjelaginu hefir verið settur, sje svo stuttur sem hægt var að búast við, að fjelagið gerði sig ánægt með. Þó að svo fari, sem jeg vona, að ekki verði, að fjelagið geti ekki framkvæmt verkið eða gefist upp á miðri leið, þá tel jeg samt mikið unnið við það, ef málið gengur í gegnum þingið. Við höfum fengið þá reynslu af flestum framkvæmdum útlendinga hjer, að landinu hefir áskotnast töluvert verðmæti, þótt fjelögin gætu ekki framkvæmt verkið fullkomlega.

Þegar ríkið sjálft treystist ekki til þess að leggja járnbraut upp á eigin spýtur, þá er þetta fyrirkomulag hjer mjög aðgengilegt, að ríkið taki nokkurn þátt í stofnkostnaðinum og hafi alla íhlutun um starfrækslu fyrirtækisins, sem nauðsynleg er. Mjer skildist hv. 5. landsk. (JBald) leggja mikið upp úr því, að þá fyrst væri þessu sæmilega fyrir komið, ef fyrirtækið væri eingöngu stofnað af hálfu þess opinbera. Það fer um þetta eins og flest annað, að það eru efnin og mátturinn, sem verða að skera úr um það, hvað menn treysta sjer til að ráðast í. Hjer eru ekki komnar fram alvarlegar mótbárur gegn þessu máli, og því kann það að virðast óþarfi að færa fram verulegar sannanir fyrir því, að þetta fyrirtæki muni ekki einungis verða þjóðinni til óbeins gagns, heldur einnig reynast beint gróðafyrirtæki. Mjer skilst, ef það er rjett, sem vegamálastjóri hefir látið í ljós, að mikið vegaviðhald muni sparast á þessu svæði, ef þessi starfræksla kemst á, þá sje þar um verulegt atriði að ræða. Menn verða að gera sjer það ljóst, að bílflutningar eru bæði dýrir og ófullkomnir. Jeg hefi altaf, frá því að þeir komu fyrst hingað til landsins, álitið þá ill og óhentug flutningatæki. Þeir eru aðallega til skemtunar og augnabliks þæginda. Þeir geta verið sæmilegir til flutninga innanhjeraðs, en eru alveg ófærir til flutninga þungavöru langar leiðir yfir fjallveg. Það kostar nú 70–100 krónur að flytja eitt tonn af þungavöru austur í Rangárvallasýslu. Hvernig er hugsanlegt, að búskapurinn geti borið slík flutningagjöld? Ef leggja ætti sæmilegan veg um það svæði, sem járnbrautin á að liggja, þá mundi sá kostnaður verða litlu minni en kostnaðurinn við lagningu járnbrautar, eða að minsta kosti meiri en þetta ríkissjóðsframlag. Jeg tel því mikinn ávinning fyrir framtíðina, að járnbrautarmálinu sje hrundið fljótt í framkvæmd; jeg hygg, að það verði varla um miklar framkvæmdir að ræða á þessum hafnlausu svæðum fyr en hún kemst á. Það er ekki önnur leið fyrir hendi til þess að bæta úr hafnleysinu. Fyrir nokkrum árum var á hverju þingi mikið rætt um byggingu hafnar í Þorlákshöfn. Þá var mönnum fullkomlega ljóst, hve mikil vandræði landbúnaðinum stóðu af þessu hafnleysi. Jeg áttaði mig þá fljótt á því, að það var algerlega óframkvæmanlegt að byggja höfn þarna. Það mundi hafa orðið margra miljóna fyrirtæki, og auk þess ekki trygging fyrir því, að höfnin kæmi að notum. En jafnframt sannfærðist jeg um það, að úr sömu þörf yrði bætt, ef járnbrautarmálið fengi framgang í náinni framtíð. Því er það eðlilegt, að jeg fylgi þessu máli nú eftir megni.

Um ýms atriði málsins, svo sem hvort fjelagið setji tryggingu fyrir því, að eitthvað verði úr framkvæmdum þess, þá finst mjer ekki óeðlilegt, þó að einhver slík öryggisskilyrði verði sett. Þó vil jeg, að stilt sje við hóf öllum slíkum kröfum, svo að þær verði hvorki málinu að töf nje geri fjelaginu of erfitt fyrir að byrja á framkvæmdum. Þess vegna tel jeg það skyldu þings og stjórnar að gæta allrar varúðar í þessum efnum.

Að endingu vil jeg svo lýsa því yfir, að jeg tel, eins og hv. Nd. hefir gengið frá frv., að það sjeu ekki neinir þeir höfuðgallar á því, sem orðið gætu málinu að falli.