30.03.1927
Efri deild: 40. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2703 í B-deild Alþingistíðinda. (1925)

23. mál, járnbrautarlagning og virkjun Urriðafoss

Jón Baldvinsson:

Hæstv. atvrh. (MG) hefir ekkert leyfi til að draga það út úr ræðu minni, að jeg vilji ekki, að ríkissjóður leggi fram fje til járnbrautarlagningar austur yfir fjall. Jeg var því samþykkur í fyrra, og mundi enn greiða atkv. með því, væri um það eitt að ræða.

Hann segir enn, að tryggingin af hálfu fjelagsins fyrir því, að byrjað verði á framkvæmdunum 1. maí 1929, sje töluverð, en hann hefir með þessu ekkert upplýst fram yfir það, sem hann hafði upplýst áður, en það var, eins og jeg tók fram, einskis virði.

Jeg og ýmsir aðrir hafa skilið þetta lagafrv. svo, að dregist gæti úr hömlu að byggja járnbrautina, en virkjunin og aðrar framkvæmdir látnar sitja fyrir. Jeg sje t. d. ekkert á móti því eftir frv., ef ekki verður byrjað 1. maí 1929, að það megi dragast eitt ár til. Það er þetta og ýmislegt fleira, sem mjer þykir ekki nægilega skýrt orðað í frv., og er því hræddur um, að valdið geti misskilningi, þegar að því kemur að framkvæma lögin.

Annars kvaddi jeg mjer hljóðs aftur vegna orða, sem fjellu af vörum hæstv. atvrh. Hann sagðist ekki geta ábyrgst, að fjelagið næði í það mikið fje, að það sæi sjer fært að byrja á framkvæmdunum, en bætti því svo við, að nokkrar líkur mundu vera fyrir því, að yrði sjerleyfi þetta gefið og staðið við þau loforð, sem því fylgja af hálfu ríkisins, þá mundi fjelaginu takast að „slá“ út það mikið lánsfje, sem hann mundi telja, að þyrfti til þess að byrja á framkvæmdunum.

En hjer er um alt aðra leið að ræða en tíðkast hjá öðrum þjóðum, þegar svo stendur á, að sótt er um sjerleyfi til þess að reka stóriðju, hver svo sem hún er. Stórþjóðirnar veita sjerleyfi fjelögum, sem eru mynduð og hafa þegar í höndum þann höfuðstól, sem þarf til þess að byrja á framkvæmdunum og kosta reksturinn áfram. Þar er ekki veitt sjerleyfi nema peningarnir sjeu lagðir á borðið, en við förum öfugt að og veitum sjerleyfi og önnur fríðindi, sem fylgja, mönnum, sem enga peninga hafa og geta ef til vill alls ekki aflað þeirra. M. ö. o., við gefum þeim mönnum allskonar fríðindi, sem ekkert kapítal hafa til að hrinda á stað atvinnurekstri, og fram að þessu höfum við ekki sjeð einn einasta eyri koma til framkvæmda þeirra sjerleyfa, sem við höfum veitt.

Þá var hæstv. ráðherra (MG) að draga í efa, að ríkissjóður hefði risið undir þeim kostnaði, sem járnbrautarlagningin hefði í för með sjer, eins og það mál var borið fram í fyrra. Um þetta efaðist hvorugur okkar í fyrra. í fyrra bygði jeg aðstöðu mína á skýrslu, sem fyrir lá, og sýndi fram á, að þetta væri vel framkvæmanlegt af því að ríkissjóður stóð sig vel vegna hinnar góðu afkomu atvinnuveganna undanfarin ár. Og embættisbróðir hæstv. atvrh., hæstv. fjrh. (JÞ), komst að sömu niðurstöðu. Honum fórust orð á þessa leið undir umræðunum í fyrra, þegar verið var að ræða um getu ríkissjóðs til þess að bera kostnaðinn af brautarlagningunni:

„Með þetta fyrir augum verð jeg að álíta það fjárhagslega forsvaranlegt, að veittar sjeu 21/2 milj. króna sem framlag úr ríkissjóði til járnbrautarinnar“.

Þá er það eitt, sem jeg hefi að athuga við það, sem komið hefir fram í ræðum sumra hv. meðhaldsmanna frv., og það er vegaviðhaldið, sem þeir ætlast til, að hverfi að mestu úr sögunni, ef járnbrautin kemur. En jeg þori ekki að gera eins mikið úr þessari ástæðu eins og t. d. hv. 4. landsk. (MK) gerði. Jeg held við þurfum að halda áfram að bæta vegina og gera aðra nýja, þó að járnbraut verði lögð austur að Þjórsá. Og jeg gæti trúað því, að við gerðum okkur ekki ánægða með það kák, sem sýnt hefir verið í viðhaldi veganna hingað til. Heldur þætti mjer líklegra, að við keptum að því að auka viðhaldið og gera veginn austur stórum betri en hann er og hefir verið. Sú hefir líka verið reynsla annara þjóða, að þó að járnbrautir hafi verið lagðar þvert og endilangt um löndin, þá hafa kröfurnar hrópað á nýja og fullkomnari vegi, og sama mundi verða hjer í landi, sem ekki hefir enn sem komið er eignast vegarspotta, er fullnægi kröfum tímans. Svo er líka það að athuga, að járnbraut austur yfir fjall eykur verslun og framleiðslu, en af því leiðir aftur, að fólkinu fjölgar í sveitunum austanfjalls, en alt þetta þýðir meiri flutning, sem eykur umferð um vegina. Þess vegna mun óþarft að reikna með því, að vegaviðhaldið sparist að einhverju leyti, eftir að járnbrautin er bygð og tekin til starfa.

Þá vildi jeg mótmæla því, sem hv. 4. landsk. virtist halda fram, að þeir, sem tortryggja fjelagið um að geta byrjað á framkvæmdum, sjeu mennirnir, sem í eðli sínu eru andvígir þessu máli og þeirri stóriðju, sem þar er um að ræða. En þetta eru algerlega langar getsakir í garð sumra þeirra manna, er látið hafa í veðri vaka getuleysi fjelagsins. Við höfum aðeins farið fram á, að færð væru einhver örlítil rök fyrir því, að fjelagið gæti byrjað á framkvæmdunum, og við höfum mælst til, að athugað væri, áður en gengið yrði frá þessu máli, hvort hjer væri um þær blekkingar að ræða, sem við höfum helst til oft verið gintir með, bæði fyr og síðar. Hjer er því ekki um neina óþarfa tortryggni að ræða af okkar hálfu. Sá, sem svíkur einu sinni, gerir rangt, en sá, sem svíkur tvisvar, gerir rjett, segir gamalt spakmæli.

Hæstv. ráðh. vill láta trúa sjer, er hann segir, að líklegt sje, að peningar fáist í fyrirtækið, og trúin á að byggjast á því, að hann sjálfur hefir sjeð svo mikið af skjölum og öðrum plöggum fjelagsins, sem hann tekur trúanleg. Það er vitanlega gott, að hæstv. ráðherra sje sannfærður um, að peningar fáist til virkjunarinnar. En fyr en svo er komið, getur hann látið sjer nægja að dreyma um járnbrautarlagningu austur að Þjórsá. Því að enginn þm., og allra síst hæstv. stjórn, má vera svo barnaleg að láta sjer koma til hugar, að fjelag erlendra gróðamanna fari að fleygja 6 miljónum króna í járnbrautarspotta, ef það ekki jafnframt sjer sjer fært að byrja á virkjuninni.

Þess vegna held jeg, að tryggilegra væri að búa svo um hnútana, að fjelaginu yrði gert að skyldu að leggja fram þessar 40 miljónir um leið og sjerleyfið er undirskrifað af ráðherra. Þá væri þó einhver von um, að byrjað yrði á framkvæmdum. Annars hefi jeg sjeð það í dönskum blöðum, að þar er reiknað með 65 milj. kr., sem ætlast er til, að fjelagið þurfi að hafa handbært þegar það tekur til starfa, og sje hjer um danskar krónur að ræða, þá er fjárhæðin ekki smá.

Að endingu vil jeg aðeins taka það fram, að eins og sakir standa megum við ekki sleppa niður væntanlegri framkvæmd málsins með ónýtri sjerleyfislöggjöf, sem bygð er á eintómum blekkingum erlendra gróðabrallsmanna.