11.04.1927
Efri deild: 50. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2716 í B-deild Alþingistíðinda. (1931)

23. mál, járnbrautarlagning og virkjun Urriðafoss

Frsm. (Magnús Kristjánsson):

Þetta er eitt af þeim fáu stórmálum, sem þingið hefir til meðferðar að þessu sinni. Það er því eðlilegt, að mörgum þyki það miklu máli skifta, hvernig ræðst um úrslit þess. — Þetta var nefndinni ljóst þegar frá upphafi, og þess vegna vildi hún gera sjer far um að stuðla að því, að málið þyrfti ekki að tefjast mjög. En eins og nál. ber með sjer, er nokkur skoðanamunur innan nefndarinnar, þótt ekki komi fram, að hann væri verulegur um meginatriði málsins. En samt sem áður koma tveir nefndarmenn fram með brtt., sem þeir munu gera sjerstaka grein fyrir. Ennfremur koma fram brtt. á þskj. 354, sem nefndin hefir ekki haft tækifæri til að athuga ennþá, því þeim hefir ekki verið útbýtt fyr en í dag, en þær eru mjög svipaðs eðlis og brtt. á þskj. 330. Það mun hafa vakað fyrir flm. að tryggja það sem best, ef svo óheppilega skyldi fara, að fjelagið reyndist ekki megnugt að halda áfram að koma málinu í framkvæmd. Jeg verð að segja það, að jeg finn ekki ástæðu til að fara öllu lengra inn á þetta fyrir hönd nefndarinnar, því að það kemur fyrst í ljós, hvort ástæða er til að hafa langar umr. um málið, þegar sjeð er, hve mikil andmæli koma fram. En það, sem jeg kann að segja um þetta mál hjer eftir, á að skrifast á minn reikning og ekki nefndarinnar, ef eitthvert ósamræmi kynni að verða þar á milli.

Það er þá fyrst, að mjer finst það gegna furðu, hvað reynt hefir verið að vekja andúð gegn þessu máli. Jeg þykist hafa orðið þess var, að minsta kosti hjer í bænum, að nokkuð hefir verið gert til þess að gera málið tortryggilegt og óaðgengilegt í augum manna. En jeg lít svo á, að það sje ekki þarft verk, og jeg skil ekki vel hugsanagang þeirra manna, er leggja sig í framkróka til að spilla fyrir málinu.

Jeg held, að það sje nokkuð óljóst fyrir þessum mönnum, hvað hjer er um að ræða, og að þá sje að dreyma einhverja stóra drauma um einhver stórvirki, sem eigi að vinna einhverntíma langt úti í framtíðinni. Jeg skil ekki þann hugsunarhátt, að nútíminn eigi ekkert að aðhafast, en varpa öllu upp á eftirkomendurna. Nei, jeg álít einmitt, að það sje skylda að koma í framkvæmd að minsta kosti einu meiri háttar máli á hverju þingi; annars verð jeg að álíta, að það standi ekki vel í stöðu sinni. Jeg álít, að einmitt hjer sje um mál að ræða, sem muni hafa mikið menningarlegt gildi fyrir okkar land. Jeg hlýt að álíta, að þeir, sem á engan hátt vilja hlynna að þessu máli, líti svo á, að heppilegast sje fyrir þjóðina að hverfa aftur að því ástandi, sem ríkti hjer um miðja síðustu öld, gera sem minst af því, sem til framfara horfir, og halda öllu í gamla horfinu, þannig að hver reynir að hokra fyrir sig og búa að sínu, í stað þess að starfrækja atvinnuvegina eftir nútímans kröfum, þannig að afurðirnar geti orðið útflutningsvara.

Í þessu sambandi vil jeg geta þess, að jeg hygg, að auknar og bættar samgöngur hljóti að verða aðalundirstaða þess, að atvinnuvegirnir verði reknir á þann hátt, sem æskilegast væri. Það má segja, að ýmsir landshlutar hljóti að hafa samgöngur sínar eingöngu á sjónum, enda er ekki verið að fara fram á, að til slíkra fyrirtækja sem járnbrautarlagningar verði stofnað nema hjer austur yfir fjall, að minsta kosti ekki í nánustu framtíð. En þó að samgöngur sjeu þegar mikið farnar að lagast í öðrum landshlutum, þá stendur hjer svo sjerstaklega á, að hin góðu og blómlegu hjeruð austanfjalls hafa alveg orðið útundan um samgöngubætur. Jeg er sannfærður um, að þörf þeirra verður ekki bætt á annan hátt en þann, að járnbraut verði lögð austur, sem auðvitað sje rekin með hag notenda fyrir augum. En það álít jeg, að ekki þurfi að efast um með því fyrirkomulagi, sem þetta frv. gerir ráð fyrir.

Jeg skal játa, að heldur hefði jeg kosið það fyrirkomulag, sem til umræðu var á síðasta þingi, nefnilega að ríkið annaðist allan undirbúning og stæði straum af fyrirtækinu. Jeg hygg samt, að flestum komi saman um, að í það verði ekki hægt að ráðast í nánustu framtíð, og því tel jeg, að þetta ætti að vera öllum kærkomið tækifæri til þess að hrinda málinu í framkvæmd.

Það er ekki mikil ástæða fyrir mig að vera að orðlengja þetta meira í bili. Það er best að geyma það, þangað til umr. fara að sýna meira en hingað til, að verulegur ágreiningur sje um málið. Aðeins vil jeg geta þess, að þó að svo virðist, sem illgerandi sje að leggja mót þeim brtt., sem fram eru komnar við frv., þá hugsa jeg, að jeg muni ekki greiða þeim atkvæði, af því að jeg get ekki ímyndað mjer annað en að hæstv. stjórn, eða sá hæstv. ráðh., sem sjerleyfið afgreiðir, sjái sjer fært að taka fyllilega tillit til þess vilja, sem kemur fram í frv. og brtt. Jeg hygg, að með frv. sjeu þau atriði trygð, sem brtt. fjalla um, en ef þurfa skyldi frekari árjettingar við, verður að treysta hæstv. stjórn til að ganga svo frá þeim skjölum, að fulltryggilega sje um búið.

Það hefir verið minst á eitt atriði og á það lögð allveruleg áhersla, sem sje það, að nálega sje ógerningur að veita sjerleyfi, sem hafi í för með sjer útlendan vinnukraft, vegna þeirrar þjóðernishættu, sem af því gæti stafað. Jeg verð að skoða þetta sem einskonar spaug. Jeg get ekki sjeð, að svo mikill fjöldi útlends verkalýðs þurfi að fylgja þessu fyrirtæki, að af því stafi nokkur hætta. Jeg ber meira traust til íslensku þjóðarinnar en svo, að jeg álíti, að það atriði geti orðið til að spilla henni eða komandi kynslóðum.

Að svo komnu mun jeg ekki fara lengra út í þetta mál. Vænti jeg þess, að hafi jeg einhverju gleymt af því, sem hv. meðnefndarmönnum mínum þætti ástæða til að taka fram, þá muni þeir sjá til þess, að það komi fram.