11.04.1927
Efri deild: 50. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2750 í B-deild Alþingistíðinda. (1938)

23. mál, járnbrautarlagning og virkjun Urriðafoss

Frsm. (Magnús Kristjánsson):

Það er í raun og veru ástæðulítið fyrir mig að taka til máls, því að í þeim umr., sem hjer hafa farið fram síðan fundur var settur að nýju, hefir raunar ekki neitt komið fram, sem haft geti úrslitaáhrif á málið. Jeg held það sje að mestu leyti af óþarfa varfærni, sem menn hafa haldið því hjer fram, að ýmsar frekari öryggisráðstafanir þyrfti að setja en í því frv. eru, sem nú liggur fyrir. Jeg er mjög ánægður yfir því, að hv. meðnefndarmenn mínir, sem rituðu undir nál. með fyrirvara, vilja nú sættast á málið, því að hjer er einmitt farin sú leið, sem jeg hjelt fram í nefndinni, að væri sú hyggilegasta. Jeg álít engan ávinning í því að stofna til þess með lítilfjörlegum brtt., að málið þurfi að hrekjast á milli deilda.

Jeg veit varla, hvort ástæða er til þess að taka til meðferðar lið fyrir lið brtt. þeirra hv. 1. landsk. og hv. 5. landsk., þótt jeg hinsvegar efist ekki um, að þeir muni ekki telja eftir sjer að leiðrjetta og svara, ef órjett kynni að verða með eitthvað farið.

Hv. 1. landsk. lagði mesta áherslu á sjálfstæðishlið málsins, eins og rjett var. Jeg er honum alveg sammála í því efni. En jeg sje ekki, að hjer sje á nokkurn hátt verið að stofna sjálfstæði landsins í voða. Hjer er aðeins um samning að ræða. Og þó að gerður sje samningur við mann eða fjelag, getur það ekki haft neina hættu í för með sjer, nema eitthvert varhugavert ákvæði sje sett í samninginn. En í þessu tilfelli er ekki um neitt slíkt að ræða. — Þá sagði hv. þm., að ekki væri um neina tryggingu að ræða frá fjelagsins hálfu. Jeg lít svo á, að ef við getum fengið þessar miljónir, sem fjelagið á að leggja fram, þá megi í raun og veru skoða þær sem fundna peninga. Því tel jeg sjálfsagt að gera þessa tilraun, engu að síður þótt einhver efi kynni að leika á því, að fjelagið gæti leyst verkið af hendi. Jeg óska einskis framar en að þetta áhugamál mitt nái fram að ganga sem fyrst, því að bið í þessu efni álít jeg okkur aðeins til tjóns. Um framlengingu sjerleyfisins þarf jeg í raun og veru ekkert að segja, því hæstv. atvrh. hefir gert ítarlega grein fyrir því atriði. Jeg fæ ekki sjeð, að í því geti legið nein veruleg hætta, því að jeg teldi beinlínis æskilegt, ef þetta fjelag reyndist ekki megnugt þess að framkvæma verkið, að annað fjelag sterkara gengi inn í samningana, því að vitanlega yrði það að sæta sömu kjörum og þetta fjelag.

Þá er enn eitt atriði, sem of mikið hefir verið gert úr, sem sje það, að í því liggi einhver sjerstök vansæmd að veita sjerleyfi, sem svo eru ekki notuð. Jeg neita þessu algerlega. Ef til eru í þessu landi einhver skilyrði til þess, að hægt sje að framleiða verðmæti úr skauti náttúrunnar, en við ekki megnugir þess að nota þá möguleika, þá tel jeg alveg sjálfsagt að sæta hverju færi, sem býðst, að tilraun sje gerð í því efni. Jeg sje ekki, að það geti verið vansæmandi á nokkurn hátt, þó veitt hafi verið t. d. leyfi til saltvinslu eða til þess að virkja Dynjanda. Jeg hefi ekki orðið þess var, að landið hafi beðið neitt tjón eða neina smán af þeim sjerleyfum. Ef óskir um fleiri sjerleyfi kæmu fram, teldi jeg sjálfsagt að taka þær til alvarlegrar íhugunar. Aðaláhersluna verður að leggja á það, að samningar í hverju einstöku tilfelli tryggi sem best rjett ríkisins. Það hefir verið gert hingað til, og jeg geri mjer von um, að það verði gert framvegis. Reynsla okkar af útlendum fjelögum hjer sannar, að það eru jafnan þau, sem undir verða í viðskiftunum. Jeg held mjer sje óhætt að segja, að öll fyrirtæki, sem hjer hafa verið stofnuð og rekin með útlendu fjármagni, hafi orðið eign innlendra manna, og þannig hefir mikið fje komið inn í landið. Jeg er viss um, að svo fer enn í þessu tilfelli.

Jeg skil ekki, hvernig menn geta farið að halda því fram, að það sje svo afarhættulegt að veita þetta leyfi, af því ekki sje víst, að fjelagið hafi bolmagn til þess að láta verða úr framkvæmdum. Hjer er þó aðeins um tveggja ára tímabil að ræða, og allir eru sammála um, að ríkið muni ekki geta sjálft byrjað á neinum framkvæmdum á þeim tíma, svo að ekki verður sjeð, að neinu sje spilt. Um fossavirkjunina er það líka ákveðið, að fjelagið verði að vera byrjað á framkvæmdum ekki síðar en 1934, að viðlögðum rjettindamissi, svo að jeg sje ekki ástæðu til að óttast neitt í þessu falli.

Háttv. 5. landsk. sagði, að hann yrði fyrir sitt leyti að krefjast þess, að hægt væri að færa fram skynsamleg rök fyrir því, að fjelagið gæti framkvæmt verkið. Jeg held nú, að þetta hafi verið sagt í gamni, því að til þess hægt væri að færa fram slík rök, þyrfti fjelagið að vera búið að safna öllu hlutafjenu.

Jeg gæti nú raunar sparað mjer að fara lengra út í þetta með því að bera upp þá spurningu fyrir þessum háttvirtu herrum, sem hafa svo margt við frv. að athuga, hvað þeir eiginlega vilji í málinu. Þeir eru ekki ennþá búnir að láta það fullkomlega uppi. Mjer finst framkoma þeirra hálfgerður leikaraskapur, því að það er ekki hægt að vera nema annaðhvort með málinu eða móti því. Mjer þætti gott, ef þeim þóknaðist að gera dálítið ljósari grein fyrir afstöðu sinni. Mjer virtist nálega öll ræða hv. 5. landsk. gefa í skyn, að hann áliti, að allur vinningur við framkvæmd málsins væri fjelagsins megin, og hvað þröng skilyrði, sem sett væru, mundi fjelagið sjá sinn hag í að ganga að þeim öllum. En þetta er mesti misskilningur, því að hagsmunavonin er langtum meiri á okkar hlið, aðeins ef úr framkvæmdum gæti orðið. (JBald: Já, aðeins ef —). Já, hvað meinar eiginlega þessi hv. þm. Álítur hann, að aldrei eigi að ráðast í neitt, nema fyrirfram sje sannað, að engar vonir um það geti brugðist? Ætli það yrði ekki lítið úr sjósókn manna, ef aldrei væri farið á flot nema þorskurinn sæist vaða ofansjávar? Það er svo afarmargt, sem í verður að ráðast án þess nokkuð sje hægt að fullyrða fyrirfram um árangurinn. Það er vogunin, sem vinnur, og hún getur líka tapað. En hjer er ekki um það að ræða, að neitt tjón geti af þessu hlotist fyrir landið.

Hv. þm. virtist fetta fingur út í, að jeg sagði, að mjer virtist koma fram í þessu máli óskiljanleg andúð. En þessi ummæli áttu ekki við þennan hv. þm. einan, því allmargir þm. í hv. Nd. hafa lagst þunglega móti málinu, og auk þess hafa verið haldnir nokkrir fundir hjer í bænum, þar sem alt hefir verið gert til þess að gera málið tortryggilegt. Hinir mætu mentamenn þessa bæjar, sem betra hefði átt að mega af vænta, hafa komist að þeirri niðurstöðu, að rjett væri að spilla fyrir málinu. Virðist mjer það vera sorglegt tákn tímanna og gefa grun um, að þeir beri ekki altaf mikið skyn á „praktiska“ hluti. En þetta rjettlætir fyllilega það, sem jeg sagði, að málinu væri sýnd óskiljanleg andúð.

Það er undarlegt, að hv. 5. landsk. virðist vera þeirrar skoðunar, að þegar tveir aðiljar semja um mál, þá geti vel átt sjer stað, að annar aðili stíli öll kjör og kosti, ekki sje annað fyrir okkur en að setja fram hvaða kröfur sem er, fjelaginu muni vera svo mikið áhugamál að fá leyfið, að það muni ganga að öllu. Mjer finst koma fram í þessu talsverður glannaskapur, því að jeg held, að í frv., sem fyrir liggur, sje farið nokkurnveginn það, sem hægt er að komast.

Jeg held jeg sjái svo ekki ástæðu til að fara öllu lengra út í þetta. Andmæli þau, sem fram komu, voru þess eðlis, að ekki var gott að festa fingur á þeim. Mjer virtist þau vera æðimikið á huldu. Hv. 5. landsk. má vita það, að jeg er ódrepandi í þessu máli, og það gæti farið svo, að jeg hefði síðasta orðið. Mjer þætti vel til fallið, að hann kæmist nú að þeirri niðurstöðu, að ekki þýddi fyrir hann að halda fleiri ræður um þetta mál. Hann þarf ekki að gera sjer vonir um, að hans löngu ræður í þessu máli sannfæri mig, og víst ekki aðra heldur.