11.04.1927
Efri deild: 50. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2762 í B-deild Alþingistíðinda. (1940)

23. mál, járnbrautarlagning og virkjun Urriðafoss

Atv.- og dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Háttv. 1. landsk. var enn að tala um fjárhag fjelagsins og nefndi sem dæmi, að gera hefði átt fjárnám hjá því fyrir gjöldum, sem það átti að greiða. Þetta getur komið fyrir öll fjelög, hversu vel stæð sem þau eru. Af þessu meðal annars dró hann það, að fjelagið gæti aldrei komið þessu fyrirtæki í framkvæmd, en jeg lít svo á, að það sje ekki altaf skilyrði fyrir því, að koma einhverju áfram, að vera ríkur sjálfur; aðstaðan til fjáröflunar hjá öðrum getur oft haft eins mikið að segja.

Þá nefndi hann Dynjandasjerleyfið frá í fyrra og vildi hreinsa sig af því. En háttv. þm. talaði ekki á móti því máli og greiddi ekki atkvæði á móti því, þó að feld væru burtu ákvæðin um trygginguna. Er því undarlegt að finna að því nú og kalla það hneykslismál, en tala ekkert um það í fyrra. Annars kemur mjer það undarlega fyrir sjónir, að hann skuli orðalaust hafa samþykt málið, úr því hann telur það hneykslismál, því að satt að segja finst mjer háttv. þm. ekki vera svo latur að tala, að hann hefði ekki getað fengið sig til að segja nokkur orð áður en hneykslið var samþykt. Og mjer finst það í fylsta máta undarlegt að vilja samþykkja hneykslismál, aðeins ef borgaðar eru fyrir það nokkrar krónur, sem kallaðar eru trygging. Það minnir óneitanlega á vændiskonuna, sem býður blíðu sína á gatnamótum hverjum, sem hana vill fá, fyrir gjald.

Þá hjelt hann því fram, að með frv. því, sem hjer er til umræðu, væri stjórnin að leika sjer með menn austanfjalls; en sje svo, þá eru þeir æðimargir, sem leika sjer með þá, og má þar til nefna flokksbróður hans, háttv. 1. þm. Rang. (KIJ), sem var framsögumaður málsins í neðri deild, og fleiri flokksmenn hans. Auk þess má nefna hann sjálfan, því að hann hefir lýst því yfir, að hann hafi ekki kjark í sjer til þess að vera á móti frv., enda þótt hann telji málið hneykslismál. Hvort hægt sje að fá nokkuð skynsamlegt út úr þessari framkomu þessa háttv. þm., er annað mál. Jeg fyrir mitt leyti get það ekki, nema þá í ljósi sögunnar, sem hann sagði um manninn úr Flóanum, sem kom til hans og bað hann að taka ekki þessa veiku von frá sjer.

Þá talaði háttv. 1. landsk. um veikar og sterkar þjóðir og nefndi í því sambandi Ameríku og Kína. Út af þeim ummælum vil jeg minna hv. þm. á, að við erum þó altaf ein minsta þjóð heimsins, og erum því ofurseldir hvort sem er, ef hnefarjettinum er beitt við okkur. En ef haldnir eru við okkur gerðir samningar, þá erum við ekki ver staddir en aðrar þjóðir.

Þá spurði hann, hvort jeg teldi eign í rannsókninni á fossunum í Þjórsá. Já, það tel jeg einmitt, ef nota á fossana, því að þá er hægt að byggja á henni, annars er hún vitanlega lítils virði.

Annars eru vonir þær, sem menn gera sjer um framkvæmd þessa fyrirtækis, mjög mismunandi. Jeg t. d. hefi talsvert miklar vonir um, að það komist í framkvæmd, og háttv. 1. landsk. dálitlar, að minsta kosti svo miklar, að sá vonarneisti ræður atkvæði hans.