12.04.1927
Efri deild: 51. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2771 í B-deild Alþingistíðinda. (1943)

23. mál, járnbrautarlagning og virkjun Urriðafoss

Forsrh. og fjrh. (Jón Þorláksson):

Með meðferð þessa máls hefir Alþingi sýnt, að hjer er um samgöngumál að ræða. Því var vísað til samgmn. í báðum deildum, og hafa umr., sem eðlilegt er, aðallega snúist um þá hlið málsins, um samgöngubæturnar fyrir þann hluta landsins, sem hjer um ræðir.

Samgöngumál þetta hefir legið fyrir þinginu oft áður og í ýmsum myndum, og síðast í fyrra fluttu tveir hv. þm. í Nd. frv. um það, að leggja járnbraut frá Reykjavík austur að Ölfusá á kostnað ríkissjóðs. En það er nú svo um svo stórvaxið fyrirtæki, eftir mælikvarða okkar Íslendinga, að þótt bæði jeg og margir aðrir sjeu sannfærðir um, að það sje arðvænlegt og forsvaranlegt að leggja út í það á kostnað ríkissjóðs, þá verður því ekki neitað, að slíkt verður aldrei sannað nema með reynslunni einni. Og þannig ber að líta á málstað þeirra manna, sem ekki vilja, að ríkissjóður taki á sig þá áhættu að ráðast í slík fyrirtæki. Því er það rjett hjá háttv. 1. landsk., að oss ber að stíga það spor, að gera tilraun til þess að leysa úr málinu á þann hátt, að ríkissjóður taki á sig minni áhættu en ef hann færi að leggja járnbrautina upp á eigin spýtur algerlega. Það er þungamiðjan í þessu samgöngumáli að fá gerða tilraun til þess að leysa það með takmörkuðu fjárframlagi úr ríkissjóði, í samræmi við krafta hans og getu. En veikasta atriði málsins er auðvitað það, að ekki er fyrirfram hægt að fullyrða, að takist að fá þá úrlausn, sem frv. felur í sjer. En jeg tel þó vonirnar svo miklar, að frá því sjónarmiði sje sjálfsagt að gera þessa tilraun. Þó verður því ekki neitað, að menn verða að gera sjer það ljóst, að svo geti farið, að ekki verði úr framkvæmdum. Því hefir verið lýst yfir af hæstv. atvrh., og jeg býst við, að allir sjái það, að möguleikarnir eru fyrir hendi.

Það var mikið talað um það af þeim öllum, 1., 2. og 5. landsk. (JJ, IHB, JBald), að það væri okkur til minkunar, ef ekkert yrði úr framkvæmdum. En jeg er á annari skoðun. Jeg get ekki sjeð, að við verðum okkur frekar til minkunar, þó að við búum til svona lög og ekkert yrði úr framkvæmdum heldur en ef tveir menn leituðu eftir gagnkvæmum viðskiftum á heilbrigðum grundvelli, þannig að það væri þeim báðum til hagsmuna, og svo skyldu óviðráðanlegar kringumstæður verða þess valdandi, að viðskiftin gætu ekki tekist og þeir færu á mis við þann hagnað, sem þeir höfðu gert sjer vonir um. Mjer finst það, satt að segja, engin minkun vera.

Þá var talað um sjerleyfi þau, sem hjer hefðu verið gefin, og sagt, að þau væru nú orðin 9 að tölu síðan 1913. Slík upptalning er nú ekki óyggjandi, þar sem blandað er saman alveg óskyldum málum. Þar að auki er í upptalningu þessari slept aðallöggjöfinni á þessu sviði, nefnilega sjerleyfislögunum, sem sett voru fyrir tveim árum. Vatnalöggjöf vorri er þannig hagað, að vatnsaflið verður ekki notað, nema sjerleyfi sje gefið. Menn verða að gera sjer þetta ljóst, að á þessum sviðum geta ekki orðið neinar framkvæmdir, ef ekki eru veitt sjerleyfi til þeirra. Það er því ekki meira, þó að verið sje með fyrirætlanir um framkvæmdir á þessum sviðum, sem ekkert verður úr, en á öllum öðrum sviðum. Lífið er nú einu sinni þannig á sviði framkvæmdanna, að fult er þar af fyrirætlunum, sem sumar rætast og sumar ekki. Hjer stendur því svo á, að ekki er hægt að gera neinar fyrirætlanir nema sjerleyfi sje gefið. Við verðum að taka afleiðingunum af þeirri lagasetningu, sem við höfum sett á þessum sviðum, og venja okkur við þá hugsun, að við verðum í máli þessu að gera tilraun til þess að fá hagnýtt vatnsafl vort einmitt með því að veita sjerleyfi. Svona er nú um hnútana búið.

Hv. 2. landsk. vísaði til þess, að það væri ekki víða, sem sjerleyfi væru veitt, nema fullkomin trygging væri fyrir hendi. En það eru fá ríki, sem sett hafa þá löggjöf hjá sjér, að sjerleyfi þurfi. í flestum löndum er notkun vatnsorkunnar eins frjáls og notkun annarar orku. En við höfum gert mismun á þessu. — Þá tjáði hv. 2. landsk. sig vera á móti járnbraut. Er auðvitað ekkert um það að segja. Jeg vil þó benda hv. þm. á það, að áður en mál þetta var fram borið, hefir að tilhlutun þings og stjórnar farið fram ítarleg samanburðarrannsókn á því, hvort tiltækilegra væri að leggja bílveg, sem samsvaraði fullkomlega kröfum tímans, eða járnbraut. Hafa aðallega norskir sjerfræðingar fjallað um járnbrautarmálið, en bæði norskir og íslenskir um vegamálið. Niðurstaða þeirrar rannsóknar lá fyrir í fyrra, þó ekki í þskj., því miður, og kemur því ekki í Alþt., heldur í prentaðri skýrslu, sem útbýtt var meðal þm. Án þess að jeg ætli að gera mig að dómara yfir þessum fagmönnum, þá var þó niðurstaðan sú, að flutningur yrði miklu ódýrari milli Reykjavíkur og Suðurlandsundirlendisins með járnbraut, og sjerstaklega eru yfirburðir járnbrautarinnar í því fólgnir, að eftir því, sem flutningurinn yxi, því lægri yrði flutningskostnaðurinn á hverri þungaeiningu. Hinsvegar getur bílvegurinn ekki fylgst með í þessari lækkun. Þannig er niðurstaðan í höfuðatriðunum. Hjer við bætist svo, að samkvæmt reynslunni er líklegra, að flutningurinn geti haldist óhindraður alt árið, ef um járnbraut er að ræða, en sama er ekki hægt að segja um bílveginn. Þessi niðurstaða er gerð í sambandi við reynslu nágrannaþjóðanna, einkum Norðmanna. — Jeg verð að segja, að það þarf meira en fullyrðingu frá hv. 2. landsk. um, að reynslan sýni, að bílvegur sje hentugri en járnbraut, til þess að hnekkja niðurstöðu sjerfræðinganna.

Hv. 2. landsk. gat einnig um það, að járnbrautirnar væru reknar með halla og að margar einkajárnbrautir hefðu farið um og væru enn að fara um. Hvað fyrra atriðið snertir er það nú upp og ofan, eftir því, hve mikið er lagt í sölurnar til þess að hafa góðar samgöngur eða hvort menn reyna beinlínis að reka járnbrautirnar hallalaust með því að hafa flutningsgjöldin nægilega há. Líkt má segja um strandferðirnar hjá okkur. Þær eru reknar með halla, af því að við viljum hafa flutningsgjöldin sem lægst, til þess að þær komi að sem almennustum notum. — Um einkabrautirnar er það að segja, að þær fara stundum á höfuðið, en ekki unnvörpum, eins og hv. þm. (IHB) sagði. En mjer er nú spurn: Hvar er vegur, sem ber sig sem sjálfstætt fyrirtæki? Hann er enginn til. Allir vegir í nágrannalöndunum eru lagðir fyrir það opinbera fje, sem menn greiða í sköttum og skyldum, og er haldið við með því, en gefa engar tekjur í aðra hönd. Það hefir verið reynt að ná inn viðhaldskostnaðinum að einhverju leyti með bifreiðaskatti, en enginn hefir reynt að fá vexti af því fje, sem lagt er til veganna. Það sker ekki úr, þó að járnbrautin gefi ekki af sjer það mikið fje, að hægt sje að borga rentur af stofnfje, viðhalds- og rekstrarkostnað, því að slíkar kröfur eru ekki gerðar til veganna. í rannsóknarskýrslunni er farið nákvæmlega út í það að telja hin raunverulegu útgjöld fyrirtækjanna og bera saman, og eru í báðum tilfellum taldir vextir af fje því, sem lagt hefir verið í samgöngufyrirtæki þessi, og viðhalds- og rekstrarkostnaður. Jeg skal ennfremur minna á það, að í upplýsingum sjerfræðinganna er gerð grein fyrir því, að hvergi á Norðurlöndum hefir verið reynt að komast af með bílveg eingöngu milli svo fjarlægra staða sem hjer um ræðir, þ. e. milli Reykjavíkur og Suðurlandsundirlendisins, þar sem flutningaþörfin er eins mikil. í slíkum tilfellum er alstaðar á Norðurlöndum talið sjálfsagt að leggja járnbraut, eða er þegar búið að því. Hjer við bætist svo, að sá kostnaður, sem ríkinu er ætlað að leggja til járnbrautarinnar samkvæmt frv., er lægri upphæð en sú, sem það yrði að leggja fram, ef gera ætti veg yfir sömu vegalengd, veg, sem að öllu leyti svaraði kröfum þessara tíma. Það er því ekki áhorfsmál að gera þessa tilraun, sem frv. fer fram á, svo fremi menn vilja þola þá bið á málinu, sem það kostar að vita, hvort hún leiðir til árangurs. Sú bið verður þó ekki lengri en það, að ef ekki verður byrjað á verkinu 1. maí 1929, eða eftir 2 ár hjer frá, þá stöndum við frjálsir aftur að því að gera nýja tilraun í málinu. Þó að jeg sje meðal þeirra manna, sem eru í óþolinmóðara lagi eftir þessari samgöngubót, þá tel jeg þó sjálfsagt að kasta þessari bið til þess að fá tilraunina gerða. Jeg get ekki sjeð, að það sje rjett hjá hv. 2. landsk., að biðin verði til tafar öðrum samgöngubótum. Málið er ekki svo undirbúið til þess að ríkið geti framkvæmt það, að hægt verði að byrja á því fyr, þó að þessari tilraun verði hafnað.

Jeg ætla þá að fara fáeinum orðum um brtt. hv. 1. landsk. (JJ). Hann gaf mjer kærkomið tilefni til þess með ummælum þeim, sem hann kom með viðvíkjandi afstöðu minni til lotterísjerleyfisins, sem samþykt var á síðasta þingi. Hann skildi rjett ástæðurnar, sem voru til þess, að jeg hefi ekki notað þessa heimild. Jeg álít það nefnilega ekki vansalaust hinni íslensku þjóð, ef það yrði notað og sú starfsemi upp tekin, sem þar er gert ráð fyrir. Mjer er ant um, að þjóðin standi lýtalaus gagnvart útlendingum vegna framkvæmda í fjármálum, sem og í öðrum málum. Af sömu ástæðum get jeg ekki fallist á 1. brtt. hv. 1. landsk. Hún er ekki sómasamleg. Jeg ætla þó ekki að væna hv. þm. þess, að hann vilji gera okkur vansæmd, heldur hefir hann bara ekki athugað afleiðingar till. nægilega vel. Það er að vísu svo eftir orðalagi till., að vatnsrjettindi Titans og fasteignir eiga að vera sem trygging fyrir því, að sjerleyfishafi fullnægi ákvæðum 11. gr. En eins og þegar hefir verið bent á, felur 11. gr. í sjer takmörkun á því, hvenær hefjast skuli handa, ef sjerleyfið á ekki að missast. Í raun og veru er það svo fyrir okkur, sem álítum framkvæmd þessa einnig hagsmunamál fyrir Ísland, að ástæða er til þess að skygnast um eftir tryggingum fyrir því, hvort fjelagið treystir sjer að gera það, sem unt er, til þess að útvega nægilegt fje til framkvæmda. Við vitum, að fjelagið hefir ekki peninga og þarf því að útvega þá. Er auðvitað ætlast til, að það geri það sjálft, en ekki við, og yfirleitt liggi ekki á liði sínu í því að koma fyrirtækinu í framkvæmd. Fjelagið á hjer nú, eins og menn vita, miklar eignir, sem eru arðlausar, ef það reynir ekki að notfæra sjer þær, og í þessu, að eignirnar liggja nú arðlausar, sýnist mjer vera nægileg trygging fyrir því, að fjelagið muni ekki láta neitt ógert, sem gæti leitt til framkvæmda á málinu. Innan stutts tíma, eða innan 1. maí 1929, fáum við enn frekari tryggingu fyrir því, að fjelagið geri það, sem það getur, til þess að útvega fjeð til fossavirkjunarinnar, en sú trygging er járnbrautin. En í brtt. hv. 1. landsk. er ekki fólgin nein trygging, heldur viðurlög. Ef fjelaginu tekst ekki að útvega fje til þess að koma þessu fyrirtæki í framkvæmd, þá fer það á mis við þann hagnað, sem það býst við að hafa af því, og við förum á mis við okkar hagnað af fyrirtækinu. Þá fer best á því, að hvor standi eftir með sínar eignir. En að gera vantandi getu fjelagsins til þess að útvega fje í fyrirtækið sjer að fjeþúfu á þann hátt, að láta það afsala landinu öllum sínum eignum hjer, ef það tekst ekki, — það er aðferð „svindilbraskarans“, sem vill tryggja sjálfan sig í viðskiftunum, þó að hinn, sem hann skiftir við, gangi slyppur og snauður frá borði. Jeg vil ekki hugsa þá hugsun, að till. hv. 1. landsk. verði samþykt og framkvæmd þannig, að ef fjelagið gæti ekki skaffað peninga í fyrirtækið, þá yrði það að afhenda ríkinu allar eignir sínar hjer. Þá yrðu þar á eftir menn á ferðinni úti í löndum, sem gætu sagt það með sanni, að íslenska ríkið hefði fjeflett sig. Annað mál er það, að ganga sem best frá því, að sjerleyfissamningurinn verði uppfyltur, því að þegar framkvæmdirnar eru komnar í gang, þá er mikið tjón að því fyrir landið og einstaklinga, ef svo verður hætt í miðju kafi. En þótt ekki verði unt að útvega fjeð, þá leiðir ekki af því annað tjón en það, að það bíður í eitt ár, að ráðist verði í þessa samgöngubót; en eins og nú standa sakir, hygg jeg, að ekki sje hægt að meta þá bið sem peningatjón. Það er mjög óaðgengilegt að setja þau viðurlög, sem felast í brtt. hv. 1. landsk. Þau eru orðuð í formi, sem ekki þekkist nema í spilamensku af versta tægi, þar sem annar leggur fram aleigu sína, en hinn hættir engu. Þetta finst mjer okkur ekki sæmandi. Ef við vildum ganga inn á þá braut að selja sjerleyfin, þá gætum við heimtað peninga. Jeg álít það hvorki heppilega braut nje virðulega, en þó nær sanni en þetta. Jeg álít, að við verðum að sætta okkur við vonbrigðin, ef sjerleyfishafinn getur ekki útvegað fjeð, en hann mun áreiðanlega gera það, sem hann getur, til þess. En við verðum að tryggja okkur á alla kanta gegn tjóni, sem leiða kynni af því, að byrjað yrði á framkvæmdum, en svo hætt í miðju kafi. En það er gert í frv. og að því miða brtt. hv. 1. þm. G.-K. (BK) og hv. 1. þm. Eyf. (EÁ). Þær miða að því að tryggja það, sem tryggja ber, enda hefir hæstv. atvrh. lofað að taka þær breytingar upp.

Þá álít jeg heldur ekki rjett að samþykkja 2. brtt. hv. 1. landsk. Það er ekkert atriði í þessu máli, hvort fjelagið heitir Titan, sem fær sjerleyfið, eða ber eitthvert annað nafn. Jeg vil jafnvel segja, að úr því að Titan hefir fyrir rás viðburðanna orðið fyrir því að komast í erfiðar kringumstæður, þá er það ekki síður æskilegt frá okkar sjónarmiði, að fjelag með öðru nafni tæki þessa starfrækslu upp. Því er ekki rjett að gera fjelaginu erfiðara fyrir með að framselja sjerleyfið, ef til þess kæmi. Um 3. brtt. þarf jeg ekki að bæta neinu við það, sem jeg hefi áður um hana sagt.