12.04.1927
Efri deild: 51. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2796 í B-deild Alþingistíðinda. (1946)

23. mál, járnbrautarlagning og virkjun Urriðafoss

Forsrh. og fjrh. (Jón Þorláksson):

Jeg vil leiðrjetta þann misskilning, er kom fram í ræðu hv. 5. landsk. (JBald), þar sem hann talaði um, að ekki sje búist við því, að neitt verði úr framkvæmdum hjá fjelaginu, en gerði jafnframt að umtalsefni brtt., sem beint gera ráð fyrir því, að úr framkvæmdum verði. Þannig haga menn ekki orðum sínum á löggjafarþingum, því að þetta er að komast í mótsögn við sjálfan sig.

Háttv. þm. gerði ráð fyrir því, að Reykjavíkurbær gæti tekið handa sjer 6–12 þús. hestafla orku af því rafmagni, sem framleitt verður í Þjórsá. Þetta verður að álítast góð byrjun um það, hvernig það muni borga sig að virkja Urriðafoss.

Jeg hefi heyrt þeirri spurningu hreyft, hvort það mundi borga sig fyrir Reykvíkinga að fá hestaflið fyrir 55 kr. gjald á ári. En þótt salan á orkunni kæmist ekki nema upp í helming af því, er hv. 5. landsk. nefndi, þá mundi sá viðauki raforkunnar hjer lækka rafmagnsverðið um meira en helming á móts við það, sem bæjarbúar verða nú að borga. Og mjer finst alls ekki rjett að gera lítið úr þessu atriði.