12.04.1927
Efri deild: 51. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2796 í B-deild Alþingistíðinda. (1947)

23. mál, járnbrautarlagning og virkjun Urriðafoss

Atv.- og dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Það var aðallega hv. 5. landsk., sem hjelt því fram, að það væri ekki hægt að gera Titan-fjelaginu meiri greiða en að leggja á það 9 milj. kr. framlag. En þá heldur hann, að fjelagið hafi meira fje heldur en hann hefir látið í veðri vaka, að það mundi hafa.

Það er að snúa málinu alveg við, að segja, að það sje hagnaður að hafa þetta sjerleyfi með þeirri skyldu að verða að leggja járnbraut.

Hv. þm. talaði um það, að verðið á rafmagninu væri sett óhæfilega hátt. Það stendur þó skýrum orðum í 6. gr. frv., að það megi aldrei fara fram úr 55 kr. fyrir hestorkuna á ári. Og er jeg spurði hv. þm., hvað árshestorkan kostaði hjer í Reykjavík til ljósa, þá varð hann að svara því, að hún mundi kosta um 600 krónur. Þetta er nú svo sem enginn mismunur eftir hans kokkabók!

En hjer ber fleira að gæta. Það er auðsætt, að Reykjavík vantar nú þegar tilfinnanlega raforku. Jeg geri ekki ráð fyrir því, að hv. 5. landsk. sje á móti frv. vegna þess, að hann unni Reykjavík þess ekki að fá ódýrt rafmagn, heldur óttist hann mest „konkurrance“ við þá rafstöð, sem er eign bæjarins.

Hv. þm. sagði, að það væri ekkert ákveðið um það í frv., hvað gera ætti við orkuna í Urriðafossi. Hefir hann þá ekki lesið 1. gr. 5. lið? Þar stendur: „Að reisa iðjuver til saltpjetursvinslu og annarar iðju til hagnýtingar raforkunni“. Nei; það, sem hann er að finna að, er, að ekki er fyrirfram búið að útvega kaupendur að allri orkunni. Þetta sýnir ekki mikið viðskiftavit hjá hv. þm. og fer alveg í bág við hans eigin framkomu, því að varla mun hann, þá er hann stofnaði brauðgerðarhúsið hjer á árunum, hafa haft fasta kaupendur að öllum þeim bollum, vínarbrauðum og snúðum, er brauðgerðarhúsið gat framleitt.

Það er enginn efi á því, að nóg þörf verður fyrir orkuna. Það getur vel komið til mála, að járnbrautarvagnarnir verði knúðir með raforku, því að hún getur orðið ódýrari en kol. Þar að auki þarf sjerleyfishafi mikla orku til þeirra iðjuvera, sem hann hefir hugsað sjer að setja á fót. Og hafi hann þá nokkurn kraft afgangs, er hann þarf ekki að nota sjálfur, er enginn efi á því, að nóg þörf er fyrir hann hjer í Reykjavík og grend, að minsta kosti þegar stundir líða.

Hv. þm. sagði, að fjelagið hefði ekkert að gera við svona mikinn kraft, en jafnframt sagði hann þó, að þetta mundi verða stórgróðafyrirtæki. Þarna komst hann enn einu sinni í mótsögn við sjálfan sig. Svo áleit sami hv. þm., að hjer geti hin almennu sjerleyfislög ekki komið til greina. Þar sýnir hann enn, að hann hefir ekki lesið frv., því að í 12. gr. þess stendur:

„Rjettindi og skyldur sjerleyfishafa og skifti hans og ríkisstjórnar fara samkvæmt landslögum, þ. á m. sjerleyfislögum, að svo miklu leyti sem ekki er um mælt í lögum þessum.

Nú skilur aðilja á um það, hvort atriði skuli sæta úrlausn eftir þessum lögum eða öðrum landslögum, og skal þá hæstirjettur einn dæma um það. Sjerleyfisdómur samkvæmt sjerleyfislögum sker annars úr, ef ágreiningur verður um efndir á ákvæðum sjerleyfisins, með þeim hætti, sem segir í sjerleyfislögum“.

Mjer skildist á hv. þm. A.-Húnv. (GÓ), að hann hefði það eftir mjer, að jeg hefði sagt, að það væri eins gott að semja við fátæk fjelög sem rík. Þetta er misskilningur. Hitt sagði jeg, að ef góðir menn stæðu að fjelögum, þótt fátæk væru, þá gætu þau hrint af stað stórum fyrirtækjum.

Jeg vil líka skýra honum frá því, að ef járnbrautin kemur, þá verður viðhald veganna austur yfir fjall svo miklu minna en ella, að sá sparnaður mun fyllilega svara vöxtum af annari þeirra tveggja milj. króna, sem við eigum að leggja fram til járnbrautarinnar.

Það er satt, að álitamál getur verið, hvað á að standa í lögunum sjálfum og hvað í sjerleyfi, en það er greiði við málið að láta það ekki hrekjast mikið milli deilda, að koma ekki með hinar og aðrar breytingar við frv., breytingar, sem alveg eins vel má setja í sjerleyfið.

Hv. þm. A.-Húnv. fanst málið illa rætt og undirbúið, því að enn væri engin vissa fengin um það, hvort hjer væru betri samgöngutæki bifreiðir eða járnþrautir. Það hefir nú þegar verið eytt um hundrað þúsund kr. úr ríkissjóði til þess að rannsaka þetta, og þær rannsóknir hafa leitt í ljós, að járnbrautir muni verða betri. Þá nefndi hann einnig viðhaldskostnað beggja. Það er nú sýnt og sannað, að viðhald vega er ekki minna en viðhald járnbrautar þegar í upphafi meðan vegir eru nýir, en þegar þeir fara að ganga úr sjer, verður viðhald þeirra langtum meira. Það mundi ekki fást neitt gjald af bifreiðunum, sem fara um veginn, en ef um járnbraut væri að ræða, þá fengist borgun af hverjum manni og hverju kg., sem með henni yrði flutt. En út af sjerleyfunum skal jeg geta þess, að það hafa verið veitt fleiri sjerleyfi en þau, sem hv. 2. landsk. (IHB) nefndi. Skal jeg þar minna á eldri sjerleyfi, og þá fyrst og fremst sjerleyfi Íslandsbanka og Stóra norræna ritsímafjelagsins. Þó að veitt hefðu verið mörg sjerleyfi, en engin þeirra hefðu orðið að liði nema þessi tvö, sem jeg nú nefndi, þá hefði ekki verið unnið til einskis. Jeg veit, að þessu máli svipar ekki alllítið til ritsímamálsins hjer áður, og er ekki nema eðlilegt, að svo stórt mál sem þetta valdi töluverðri sundrung. Hjer er um það að ræða, hvort heldur eigi að nota bifreiðir eða járnbraut, eins og áður var um það deilt, hvort nota ætti loftskeytatæki eða ritsíma. Þá voru margir, sem hölluðust að loftskeytatækjum, af því að þau voru yngri uppfynding en ritsími, eins og nú margir hallast að bifreiðum, af því að þær eru yngri en járnbrautir. Menn hafa lagst á móti þessu sjerleyfi vegna fátæktar fjelagsins og sagt, að það mundi aldrei verða neitt úr framkvæmdum og það tefja fyrir virkjun fossanna. En menn hafa einnig verið á móti því, ef svo kynni að fara, að fjelagið yrði þess megnugt, að það gæti ráðist í þessar framkvæmdir, vegna þess að þá myndi það vaxa okkur yfir höfuð. Þessu síðara var einnig haldið fram um Stóra norræna ritsímafjelagið. Jeg hefi margsinnis tekið það fram, að sjerleyfið fjelli niður, ef peningar til framkvæmda fengjust ekki, en jeg hefi líka bent á það, að fjelagið getur ekki aflað sjer alls þess fjár, sem þarf, nema það hafi sjerleyfið í höndunum. Er þetta mjög skiljanlegt, því að erlendir peningamenn eru ekki ginkeyptir fyrir því að leggja fje sitt í fyrirtæki, nema þeir viti með fullri vissu, að hverju er að ganga.

Að sjerleyfið muni spilla fyrir járnbrautarmálinu, ætti ekki að vera nema gott frá sjónarmiði hv. 2. landsk, (IHB), sem er á móti járnbraut. En jeg tel það algerlega óvíst, að ríkið sæi sjer fært á næstu 2 árum að leggja út í það af eigin rammleik að leggja 83 km. langa járnbraut. En hjer með þessu frv. eru líkur fyrir því, að við getum fengið þessa járnbraut gegn aðeins 2 milj. kr. framlagi úr ríkissjóði. Er það sannfæring mín, að við fáum aldrei betri skilmála en þessa.