12.04.1927
Efri deild: 51. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2808 í B-deild Alþingistíðinda. (1950)

23. mál, járnbrautarlagning og virkjun Urriðafoss

Forsrh. og fjrh. (Jón Þorláksson):

Háttv. 1. landsk. sagði, að það væri Titan, sem sækti hjer á. Það getur nú orkað tvímælis. Stjórninni mun hafa fundist svo mikil fríðindi landinu til handa felast í þessu samkomulagi, að hún gæti borið frv. fram sem stjfrv. Það mundi hún ekki hafa gert, ef eingöngu hefði verið að ræða um hagsmuni fjelagsins.

Það kennir allmikils misskilnings hjá hv. þm. (JJ) á eðli sjerleyfa, þegar hann heldur því fram, að fjelagið fái með sjálfu sjerleyfinu fjárhagsleg hlunnindi. Sjerleyfisþiggjandi fær aðeins skilyrðisbundin loforð um fjárhagsleg hlunnindi í framtíðinni, sem aldrei verða látin af hendi, ef settum skilyrðum er ekki fullnægt. Jeg álít það mjög varhugavert fyrir álit landsins út á við að setja upp svona fjárkröfur sem skilyrði fyrir því, að fjelagið láti verða úr framkvæmdum. Það þarf ekki að vera af neinum ugg um framkvæmdir fjelagsins, þó að jeg ræði till. á þeim grundvelli, sem hún stendur á, sem sje þeim, ef fjelagið getur ekki notað sjerleyfið. Mjer finst það mjög óviðkunnanleg leið til fjáröflunar fyrir landið að draga sjer fjármuni án þess að nokkuð komi í staðinn. Hjer er um engin útlát að ræða frá landsins hálfu. — Hv. þm. gerði ráð fyrir, að Titan mundi geta notað sjerleyfið til að koma hlutabrjefum sínum í hærra verð. Jeg hefi enga trú á því. Jeg er sannfærður um, að hvert eyris framlag, sem fjelagið fær, verður bundið þeim skilyrðum, að úr framkvæmdum verði. Eftir þessari till. hv. þm. er alls ekki víst, að fjelagið fái að halda eignum sínum. Þó að full alvara sje um að framkvæma verk á ákveðnum tíma, geta margar óviðráðanlegar orsakir orðið þess valdandi, að það sje ómögulegt. Jeg hefi ekkert um það sagt, hvort hlutafjelagið Titan ætti peninga. Jeg sagði, að mjer væri ekki kunnugt um aðrar eignir þess en þær, sem hjer eru.

Jeg ætla ekki að svara háttv. 2. landsk. miklu. Okkur kemur ekki saman um, hvort æskilegra sje að fá járnbraut eða nota bíla. Hv. þm. fór ekki rjett með orð mín í því sambandi. Jeg sagði, að það þyrfti meira en fullyrðingu hv. þm. til þess að hnekkja þeirri niðurstöðu, sem sjerfræðingar hafa komist að í þessu efni. Jeg átti við, að þeirri niðurstöðu yrði ekki hnekt með öðru en nýrri rannsókn, sem leiddi annað í ljós. Annars gerði háttv. þm. góða grein fyrir því, hve erfitt væri að halda uppi góðum samgöngum með vegabótum einum saman. Þetta stafar af landsháttum. Það er tiltölulega ódýrt að gera vegi fyrir litla umferð. En efni veganna er ekki nógu haldgott, þar sem umferð er mikil, og kemur það betur og betur í ljós, eftir því sem umferðin vex.