12.04.1927
Efri deild: 51. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2824 í B-deild Alþingistíðinda. (1953)

23. mál, járnbrautarlagning og virkjun Urriðafoss

Ingibjörg H. Bjarnason:

Það voru aðeins örfá orð. Hæstv. forsrh. (JÞ) beindi ýmsum skeytum til mín í síðustu ræðu sinni, en jeg ætla ekki að svara öðru en því, að hann taldi, að jeg með ummælum mínum um færðina á veginum austur hefði sannað það, að jarðvegurinn hjer væri svo vaxinn, að ógerningur væri að gera hjer bílvegi. Þetta á að vera, að jeg hygg, til þess að afsanna þá skoðun mína, að bílvegir væru ákjósanlegri en járnbraut, ef nægilegt fje væri fyrir hendi. Þar sem hæstv. ráðh. er verkfræðingur, en jeg aðeins leikmaður í þessu efni, þá treysti jeg mjer vitanlega ekki til að sanna hið gagnstæða. Annars hefir hv. 1. þm. G.-K. (BK) svarað svo vel hæstv. forsrh., bæði fyrir sig og auk þess ýmsu, er snerti ræðu mína, að jeg hefi þar litlu við að bæta.

Hv. 4. landsk. (MK) sagði, að jeg hefði verið óþarflega stórorð, og kvað mig hafa kallað mál þetta hjegómamál. En það er ranghermi hjá hv. þm. Jeg sagði, að það væri ekkert flaustursmál, heldur ekkert hjegómamál og að það ætti ekki að hrapa að slíku máli. Jeg hefi ekki átt í neinum hnippingum við hv. þm. (MK), svo að hann þurfti ekki af þeim ástæðum að rangfæra orð mín. Hv. þm. sagði, að sannanir mínar fyrir ágæti bílvega hefðu engar verið, en að ræða mín hefði aðeins verið til þess að hnekkja járnbrautunum. Hann hefir fullyrt, að járnbraut væri hið eina nauðsynlega, en hann hefir þó ekki getað sannfært mig um það. Hv. þm. talaði um, að það væri ekki nema fullyrðing mín, að bílar væru ódýrari í rekstri til lengdar en járnbrautir. Jeg get vísað þessum orðum hans heim, enda er best, að reynslan tali í þessu efni. Það eru menn færari bæði honum og mjer í þessu efni, sem hafa haldið því sama fram og jeg um þetta atriði. Þá talaði hv. þm. um hinn mikla vinnukraft, sem í það færi að halda uppi bílferðum í samanburði við járnbrautir. En jeg verð að halda því fram, að járnbrautir þurfi engu minni vinnukraft, enda veit jeg, að hv. þm. veit það vel, því að hann hefir verið erlendis og sjeð það sjálfur, að járnbrautirnar fara ekki mannlausar. — Þá talaði hv. þm. um það, að það gæti farið vel á því hjá betri helming mannkynsins — og átti hann þar víst við kvenfólkið —, að sum mál yrðu því tilfinningamál. Jeg vil aðeins vitna til hv. þingdeildarmanna, sem jeg hefi verið lengur með en hv. 4. landsk., hvort jeg hafi að jafnaði látið tilfinningarnar, en ekki skynsemina tala í málum þeim, sem jeg hefi lagt nokkuð til, síðan jeg kom í þessa hv. deild. — Þetta ætti að vera nóg bending til hv. þm. um það, að það taka ekki allir það fyrir góða og gilda vöru, að farið sje rangt með orð þeirra.