12.04.1927
Efri deild: 51. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2825 í B-deild Alþingistíðinda. (1954)

23. mál, járnbrautarlagning og virkjun Urriðafoss

Jón Baldvinsson:

Hæstv. forsrh. (JÞ) gerði enga tilraun til þess að sýna fram á, til hvers nota ætti rafmagnið, sem fengist úr Þjórsá. Jeg slæ þessu föstu hjer, aðeins til þess að sýna það, að sá maður hjer, sem besta aðstöðu hefir allra hv. dm. til þess að geta gefið upplýsingar í þessu efni, fer á snið við þetta atriði. Hann slær því bara upp í gaman og segir, að það væri t. d. góð byrjun, ef þeir gætu selt Reykjavíkurbæ svo sem 10–12 þús. hestöfl. Ef virkja á fyrir 20 milj. kr., en ekki verður hægt að selja meira en 10–12 þús. hestöfl, hvar stendur fjelagið þá? Það væri sýnilega vonlaust fyrirtæki, og best fyrir þá, sem að því standa, að snúa sjer að einhverju öðru starfi. Hæstv. atvrh. (MG) segir, að þeir ætli að vinna að því að koma upp iðnaðarfyrirtækjum, er noti orkuna, og hann vísar í því sambandi til frv. En í þessu efni liggur engin rannsókn og engin áætlun fyrir, sem þó mætti ætla, að væri nauðsynleg um slíkt stórfyrirtæki sem þetta. Það ræðst enginn í alvöru út í fyrirtæki upp á 20–30 milj., nema hann hafi hugsað það fyrirfram, hvað hann ætli að vinna. (Atvrh. MG: Á að byggja verksmiðjurnar 10 árum áður?). Þetta er bara vitleysa hjá hæstv. atvrh. (Atvrh. MG: Veit háttv. þm., hvað er að hugsa?). Af hverju er þinginu ekki gefin skýring á þessu? Jeg álít, að þingið eigi fylstu heimtingu á því að fá að vita þetta. Jeg er alveg hissa á því, að hæstv. forsrh. skuli ekki vilja segja neitt um þetta. Þetta sýnir ljóslega, að alt þetta virkjunarhjal er í lausu lofti hjá fjelaginu. Hæstv. atvrh. mintist á rafmagnsverðið hjer í Reykjavík og sagði, að það væri 600 kr. árshestaflið. Þetta er ekki rjett. Kilowattið er selt á 600 kr. yfir árið, en það er sama sem að árshestaflið kosti 400 kr. En á sumrin er þetta miklu lægra. Ef hæstv. ráðh. heldur, að jeg sje hræddur við samkepnina við bæjarstöðina, þá misskilur hann mig. Bæjarstöðin hefir ekkert að óttast, því hún hefir það í hendi sjer að ákveða verðið á því rafmagni, er hún framleiðir. Hæstv. ráðh. kom með það til samanburðar, hvort jeg hefði trygt Alþýðubrauðgerðinni markað áður en hún var stofnuð. Þetta er á engan hátt sambærilegt, því þetta er gömul og reynd atvinnugrein. Það væri sambærilegt, ef um það væri að ræða, að útvega ætti Reykjavík rafmagn, sem hún þyrfti á að halda, en hjer þarf að stofna nýja atvinnuvegi til þess að nota orkuna og reisa miklar verksmiðjur.

Hv. 4. landsk. (MK) sagði, að það hefði verið mótsögn í þeim ummælum mínum, að fjelaginu væri vinningur í því að fá sjerleyfið, þó að jeg hefði enga trú á því, að af fyrirtækinu yrði. En þetta getur vel farið saman, því að það, að fjelagið fær þann ríkisstimpil, sem sjerleyfið er, það getur orðið til þess að gera hlutabrjef fjelagsins verðmeiri en ella og gefið hluthöfum gróða, þótt ekkert verði úr framkvæmdum.