20.04.1927
Efri deild: 54. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2830 í B-deild Alþingistíðinda. (1961)

23. mál, járnbrautarlagning og virkjun Urriðafoss

Jónas Jónsson:

Við 2. umr. tók jeg aftur brtt., sem snertir þetta mál, en nú hefi jeg flutt hana aftur lítið eitt breytta, í samræmi við það, sem frv. var breytt við 2. umr.

Till. gengur í þá átt að tryggja, að nafn landsins verði ekki meir en þörf krefur bendlað við fjárreiður fjelagsins. Í Noregi hefir það komið fyrir, að slík fjelög hafa leitað sjer fjármagns erlendis. Síðan hefir ekki orðið neitt úr neinu, alt reynst „humbug“, útlendingar tapað stórfje, og þá hefir það kastað óorði á landið og jafnvel komið fram kröfur um, að landið yrði gagnvart erlendum hluthöfum, sem urðu fyrir fjárbiti, að bera ábyrgð á þessum fyrirtækjum. Svo kynni og að fara hjer. Jeg játa, að till. útilokar ekki hættuna. En þar sem hæstvirt landsstjórn hefir ekki komið með neinar sannanir fyrir því, að fjelagið hafi aðstöðu til að gera þær framkvæmdir, sem það hefir beðið um leyfi til að gera, þá getur maður ekki varist þeirri hugsun, að um það fari alveg eins og þessi norsku hlutabrjefasölufyrirtæki. Það er ólíklegt, að nokkur hv. þdm. óski, að nafn landsins verði meir en þarf bundið við fyrirtækið, ef fjelagið reynist ekki megnugt annars en að versla með sín gömlu hlutabrjef. — Gagnið af þessari viðbót í frv. er það, að þar er skýrt tekið fram, að landið sje á engan hátt við fyrirtækið riðið, nema að því leyti, sem það leggur fram sinn skerf til járnbrautarlagningarinnar.

Ef meiningin er að framkvæma ekki neitt, hvorki járnbraut nje virkjun, heldur aðeins græða á hlutabrjefabraski, þá er það fjelaginu hið mesta hnossgæti að flagga með nafni landsins út á við. Það segir ekki svo lítið að hafa heilt konungsríki á bandi með sjer. Það er síst til að vekja tortryggni ókunnugra.

Ef illa tækist og Titan reyndist ótrygt eða gæti framselt rjett sinn öðru fjelagi — það taldi hæstv. forsrh. jafnvel æskilegast — og menn hafa ekki fulla trú á fjárreiðum Titans, þá er þetta skilyrði alveg nauðsynlegt.

Annars ætla jeg að nota tækifærið nú, er málið fer út úr deildinni, til að minnast á, að þeir, sem hafa litla trú á, að þetta leysi járnbrautarmálið, en eru því hinsvegar fylgjandi, fara hjer krók, sem engum öðrum er um að kenna en hæstv. forsrh. og áhrifum hans og afskiftum af þessu máli. Það er alkunnugt, að hann öðrum fremur beitti sjer fyrir því fyrir mörgum árum, að málið var rannsakað, og skrifaði um það, en á móti var aðallega einn maður, sem nú á sæti í þessari hv. deild. Ráðherrann beitti sjer af alefli fyrir því að hrinda því áfram. En svo var um þetta sem önnur stórmál, að erfitt var að afla því fyrsta fylgis.

Jeg hefi áður sagt það á fundi í Árnessýslu, og segi það enn hjer í Reykjavík, að það merkilega hefir orðið, að meðan þessi maður beitti sjer af mestri atorku fyrir þessu velferðarmáli Árnessýslu og Reykjavíkur, gat hann ekki komist á þing, hvorki í Árnessýslu nje Reykjavík. Það lítur svo út, sem trúin á járnbraut hafi ekki verið svo mikil, að menn hafi viljað eindreginn járnbrautarmann á þing. Svo liðu mörg ár, stríðið kom og málið lá í þagnargildi. Síðan var það vakið upp aftur, en hæstv. ráðh. (JÞ) skifti sjer lítt af því, og þá fór honum að ganga betur að fá fólk til að trúa á sig, um leið og hann varð athafnaminni í járnbrautarmálinu og ljet forystuna ganga sjer úr greipum. Þá komst hann loks á þing. í sjálfu sjer hefir lítil forysta verið í þessu máli á undanförnum árum. Það er rjett, að austanfjalls er áhugi manna fyrir því vaxandi. en í Reykjavík ekki mikill. (BK: Áhuginn er þverrandi austanfjalls líka). Jeg er ekki sammála hv. 1. þm. G.-K. (BK) um þverrandi áhuga fyrir austan, en verið getur, að jeg gangi inn á, að hann sje minkandi hjer í Reykjavík. Nú er það í raun og veru lýðum ljóst, að eðlilegast væri í alla staði, að þetta verk yrði framkvæmt í sameiningu af landinu sjálfu, Reykjavík og Suðurláglendinu, Og jeg geri ráð fyrir því, að þjóðin í heild sinni muni líta svo á, auðvitað ekki allir, en margir og allir þeir, sem líta á það sem þjóðþrifamál og hafa nokkra trú á gildi þess, að það verði að styðja af fleirum en þeim, sem hafa beint gagn af því.

Jeg játa, að með öllu því, sem jeg veit um Titan og önnur slík fjelög, þá sje frv. eins og þetta tilraun, gerð upp á líf og dauða, gerð af því að forgöngumennirnir hafa nú hörfað af þeim eðlilega grundvelli, sem þetta mál ætti rjettilega að reisast á. Nú er svo komið, að menn austanfjalls eru farnir að sjá, að hæstv. landsstjórn er athafnalaus og áhugalítil um málið sem sjálfsbjargarmál landsmanna sjálfra, og vilja því freista, hversu gangi að fara þessa leiðina, þótt krókur sje. Vandinn í málinu hvílir á hæstv. forsrh. vegna fortíðar hans. Jeg get mint á ummæli fyrv. forsrh. Frakka, Herriots. Hann sagði, að það væri góður prófsteinn á menn í stjórnmálum, hvort þeir framkvæmdu í meiri hluta það, sem þeir hefðu haldið fram í minni hluta. Nú sýnir reynslan, að sá maður, sem beitti sjer mjög fyrir þessu máli í minni hluta, hefir ekki gert neitt til að ýta því áfram eftir að hann komst í meiri hluta. Þegar jeg spurði í fyrra, hvað stjórnin ætlaði fyrir sjer í þessu samgöngumáli, var áhuginn ekki meiri en það, að hæstv. ráðh. var um sama leyti í hv. Nd. að skapa embætti handa Alexander Jóhannessyni, embætti, er lagt hafði verið niður árið áður. Í fyrra veigraði stjórnin sjer við að bera járnbrautarmálið fram sem stjfrv., en hún mun þó hafa átt þátt í því, að tveir þm. báru það fram. Málinu var þó svo slælega fylgt eftir, að það dagaði uppi í hv. Nd. Þarna var þó gott tækifæri fyrir hæstv. forsrh. að beita sjer fyrir því máli í meiri hluta, sem hann hafði mikið talað um í minni hluta. Jeg spurði hæstv. ráðh. í haust á Selfossfundinum, hvort vænta mætti stjfrv. um járnbraut á þessu þingi, og neitaði hann því. En um sama leyti mun hæstv. atvrh. (MG) hafa komist í samband við Titan, svo að frv. verður víst að skrifast á hans reikning. En nú eru litlar líkur til, að nokkuð verði úr framkvæmdum af hálfu Titans. Því er þetta aðeins lykkja á leiðinni og málinu að líkindum til tafar. En ef sunnlendingar og Reykvíkingar vilja leysa málið eftir þetta strand, verður ekki komist hjá að taka það upp á þeim grundvelli, að þjóðin bjargi sjer sjálf í þessu sem öðru. Framgangur þessa máls á hlutafjelagsgrundvelli fer eftir því, hvort fjármagn heimsins leitar fremur í þá átt, sem vatnsaflið er, heldur en til annara orkulinda, svo sem olíu og kola, hvort vatnsaflið hjer verður álitið ódýrara en aðrar afllindir. En eftir almennum líkum að dæma, verður langt þangað til fjármagnið leitar hingað af þeim ástæðum. Jeg skal minna á, að fyrir nokkrum missirum stóðu kyr tvö fyrirtæki í Noregi, svipuð því, sem hjer er talað um, bæði við Harðangursfjörðinn. Þar er góð innsigling og aðdjúpt, svo að stuttar bryggjur nægja. Inst við þennan fjörð hefir verið bygð aflstöð, og er hún nokkru stærri en sú, sem ráðgerð er hjer við Urriðafoss. Á er leidd í pípum ofan háa fjallshlíð niður að aflstöðinni. Síðan er orkan leidd inn fyrir fjarðarbotninn, og hefir risið þar upp bær með 8000 íbúum. En fyrirtækið bar sig ekki, þó að ágæt skilyrði væru fyrir hendi. Fjelagið fór á höfuðið og vinnan var stöðvuð. Þorpið alt fór — ekki á hreppinn, heldur á landið um nokkur missiri. Að vísu tókst að fá fjármagn, norskt og erlent, til þess að reisa fyrirtækið við, eftir að stofnendur höfðu gengið nálega slyppir og snauðir frá eign sinni, en þetta sýnir samt, við hve afskaplega mikla örðugleika fossavirkjun hefir að etja, þó að betri sje aðstaða en hjer. Önnur aflstöð var reist utar við fjörðinn, sem framleiðir 60–70 þús. hestöfl, en það borgaði sig ekki að reka þar iðju, og þetta fjelag fór líka á höfuðið. En af því að þessi stöð var ekki í nema 60 km. fjarlægð frá Bergen, var það ráð tekið að leiða orkuna þangað til ýmiskonar hagnýtingar. Í upphafi átti að framleiða þarna áburð, en það fór nú svona.

Þetta varpar nokkru ljósi yfir virkjunarmálin og gerir efasamt, að nokkuð geti orðið úr slíkum framkvæmdum hjer. Aðstaðan í Noregi er óneitanlega betri. Landið liggur nær stórlöndum Evrópu en Ísland, og á þessum stöðum, sem jeg nefndi, er ólíkt hægara að ná tökum á vatnsaflinu heldur en við Urriðafoss, þar sem fyrst og fremst verður að gera dýrar stíflur til þess að beisla kraftinn og síðan leiða orkuna óraveg til sjávar, gera þar hafnarmannvirki, auk verksmiðjuhúsa, flytja að hráefni og síðan framleiðsluvöruna á erlendan markað. En ástæðan til þess, að þingið verður að lúta svo lágt að gera þessa tilraun, er sú, að þeir, sem trúa á járnbraut, hefjast ekki handa til að hrinda því máli í framkvæmd fyr en úr verður skorið um það, hvort hægt er að nota fossafjelög til þess. Sá maður, sem hefði átt, að því er virðist, að hafa forgöngu í að hrinda málinu fram á eðlilegum grundvelli, virðist hafa gleymt þeirri skyldu sinni, þegar hann fór að hafa ytri aðstöðu til þess.