20.04.1927
Efri deild: 54. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2836 í B-deild Alþingistíðinda. (1962)

23. mál, járnbrautarlagning og virkjun Urriðafoss

Halldór Steinsson:

Jeg finn ástæðu til að gera stutta grein fyrir atkvæði mínu í þessu máli, þar sem jeg hefi í því nokkra sjerstöðu og skoðun mín er talsvert ólík skoðunum annara hv. deildarmanna, eftir því sem hún hefir komið fram í ræðum þeirra, bæði meðhaldsmanna frumvarpsins og mótstöðumanna þess.

Jeg held mjer sje óhætt að fullyrða, að jeg hafi jafnopin augu og aðrir fyrir því, að bættar samgöngur á sjó og landi sjeu ein helsta lyftistöng til velgengni og velmegunar. Þeirri skoðun hefi jeg haldið fram frá því fyrst jeg kom á þing, bæði í ræðum og með atkvæði mínu. Það væri því fjarri skapi mínu að vilja leggjast á móti samgöngubót milli Reykjavíkur og Suðurlandsundirlendisins. En þótt jeg sje hlyntur samgöngubótum yfirleitt, hefi jeg verið á móti járnbrautarlagningu á ríkiskostnað, og það eingöngu af fjárhagsástæðum. Jeg hefi ekki getað sjeð, að ríkissjóði væri kleift að snara út þeirri fúlgu, sem til þarf í byrjun, en þar við bætist, að telja má víst, að brautin beri sig ekki, og þyrfti þá ríkissjóður að taka á sig, auk stofnkostnaðarins, árlegan tekjuhalla, sem ósjeð er, hve mikill gæti orðið. Jeg hefi orðið þess var í útlendum ritum, að víða í nágrannalöndunum eru vegir farnir að keppa við járnbrautirnar, og margir eru þeirrar skoðunar, að bifreiðar verði ódýrustu og heppilegustu fartækin, þar sem líkt hagar til og hjer á landi. Hv. 1. þm. G.-K. (BK) hefir rjettilega bent á, að mjög hæpið sje að byggja á þeim áætlunum, sem fyrir liggja um járnbrautarlagningu og samanburð á kostnaði við flutning með járnbrautum og bifreiðum. Yfir höfuð er ekki hægt að ætlast til, að nein vissi fáist af áætlunum; reynslan verður jafnan að skera úr. En þessi áætlun, sem hjer er um að ræða, er að mínu áliti svo hæpin, að á henni verður ekkert verulegt bygt í þessu máli.

Þegar litið er á það, að frv., sem hjer liggur fyrir, gerir ráð fyrir aðeins tveggja miljóna framlagi úr ríkissjóði til járnbrautarinnar, en hitt skuli kostað af útlendu fje, þá verð jeg að álíta þetta svo aðgengilegt boð, að jeg hefði greitt með því atkvæði, ef ekki hefði fylgt sá böggull, að fjelagið fengi jafnframt sjerleyfi til fossavirkjunar hjer á landi. Það má hver sem vill kalla það hjegómlega hræðslu að vera mótfallinn útlendri fossavirkjun. Mjer er sama, hvað sagt er í því efni. En jeg hefi altaf verið á móti slíkri virkjun, og er enn, aðallega af tveimur ástæðum. Fyrri ástæðan verður ef til vill kölluð þjóðernismetnaður. En mig tekur svo sárt til þess þjóðernis, sem við höfum varðveitt um 1000 ára bil, að jeg vil sporna á móti öllu, sem orðið gæti til að veikja það. Því hefir verið haldið fram, að innflutningur á nokkur hundruð útlendingum væri hættulaus í þessu efni. Kann að vera, að svo sje, en fyrir því er engin vissa, og jeg hefi tilhneigingu til að ætla hið gagnstæða. Þegar búið er að taka úr stífluna og veita einum smálæk útlendinga inn yfir landið, geta fleiri lækir komið á eftir, og vel gæti svo farið, að úr yrði straumhörð á, sem sópaði burt með sjer fyr en varði okkar góða og gamla þjóðerni. Það er ekki svo að skilja, að jeg álíti, að tungunni sje bein hætta búin, en með útlendum mönnum berast útlendir siðir, mjer liggur við að segja ósiðir, og auk þess útlendir kvillar, sem við höfum hingað til verið lausir við og ættum að geta verið lausir við í framtíðinni. Jeg er að þessu leyti hreinn íhaldsmaður. Jeg vil, halda sem fastast í íslenskt þjóðerni og sporna við öllu, sem orðið gæti til að veikja það. Hin ástæðan, sem veldur því, að jeg er á móti fossavirkjun, er sú, að jeg óttast, að hún yrði til þess að veikja aðalatvinnuvegi okkar, landbúnað og sjávarútveg. Það er engum vafa bundið, að hjer er meira en nóg verkefni á þessum sviðum fyrir íbúa landsins, þar sem svo er ástatt, að enn eru stórar spildur af landi ónotaðar, og tugir þúsunda af útlendingum lifa á sjónum umhverfis landið, þrátt fyrir miklu verri aðstöðu til að ná í aflann. Meðan svona er ástatt, er ástæðulaust að leita gulls annarsstaðar. Þó að stundum sje við örðugleika að etja og afurðasala bregðist ár og ár, sannar það engan veginn, að á venjulegum tímum sje ekki nóg að starfa við þessa atvinnuvegi. Þegar okkar góðu og gömlu atvinnuvegir eru upp unnir, þá fyrst er kominn tími til að tala um virkjun fossa og um að reisa iðjuver. En þegar svo langt er komið, verður þjóðin væntanlega orðin svo fjölmenn og máttug, að hún getur sjálf hafist handa í þessu efni og þarf ekki að veita útlendum mönnum sjerleyfi til þess.

Af þessum ástæðum, sem jeg hefi talið, sje jeg mjer ekki fært að greiða atkv. með frv. því, sem hjer liggur fyrir. Þeir kostir, sem felast í þeirri samgöngubót, sem hjer er til stofnað, vega í mínum augum ekki á móti þeim ókostum, sem fylgja því að fá útlendingum í hendur sjerleyfi til fossavirkjunar.