27.04.1927
Neðri deild: 60. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2849 í B-deild Alþingistíðinda. (1972)

23. mál, járnbrautarlagning og virkjun Urriðafoss

Jakob Möller:

Í upphafi umr. um þetta mál spurðist jeg fyrir um það, hvort líkur væru til þess, að nokkuð yrði úr framkvæmdum þeim, sem hjer eru ráðgerðar. Jeg spurði sjerstaklega um það, hvað fjelagið ætlaði að leggja fyrir sig eða til hvers það ætlaði að nota rafmagnið, ef það fengi leyfi til þess að virkja. Jeg vjefengdi, að um það væri til nokkur ákveðin fyrirætlun. Jeg fjekk þá ekki greinilegri svör hjá hæstv. atvrh. og háttv. frsm. en það, að þeir vísuðu aðeins til sjerleyfisumsóknarinnar, því að þar væri talið upp alt, er hægt væri að nota rafmagnið til. Þar er sagt, að rafmagnið muni að einhverju leyti verða notað til að vinna áburð. Að öðru leyti eru þar litlar upplýsingar um málið.

Jeg vil vekja athygli á því, af því að borið er saman þetta frv. og umsókn fjelags þess, er sótti um sjerleyfi í fyrra, að þar er mikill munur á. Því að þar var þó að minsta kosti gefið upp eitt verkefni, sem líkur voru til, að fjelagið gæti lagt fyrir sig með einhverjum árangri. En hjer er ekki bent á eitt einasta. Svo er nú komið, eftir að málið hefir farið frá þessari deild og til Ed., að frekari upplýsingar um það hafa komið utan að. Nú tel jeg upplýst, að það eitt sje víst, að áburðarframleiðsla geti ekki komið til mála. (KIJ: Þetta er algerlega rangt). Jeg tel það upplýst, og það er rjett. (KIJ: Það er rangt). Háttv. 1. þm. Rang. hefir enga ástæðu eða átyllu til þess að segja, að það sje rangt, sem jeg hefi lýst yfir fyrr mína hönd, að jeg telji fyllilega upplýst. Skal jeg segja hv. þm., á hverju jeg byggi það. Jeg hefi átt tal við helsta sjerfræðinginn í þessum efnum hjer á landi, og hann segir, að þetta geti ekki komið til mála. Annars er það alveg dæmalaust, að ekki skuli hafa verið borið við að leita upplýsinga hjá sjerfræðingum hjer á landi um þetta mál. En ef það hefði verið gert, býst jeg við, að bæði stjórnin og nefndin, sem fjallaði um þetta mál, hefðu fengið nákvæmlega sömu upplýsingar og jeg hefi komið með. En að fjelagið, sem hjer á hlut að máli, hafi ekki enn afráðið neitt, hvað gera skuli, má marka af því, að það er ekki færð fram áætlun um stofnkostnaðinn að öðru leyti en því, sem að virkjuninni lýtur. Það hefir verið gefið upp, að stofnkostnaðurinn væri 40 milj. kr., en það er líka upplýst, að þessar 40 milj. kr. eru aðeins til virkjunar á fossinum, en aftur á móti er ekkert áætlað um það, hve mikið fje þurfi til þess að koma upp fyrirtæki til hagnýtingar raforkunnar. Ef þetta er ekki sönnun þess, að fyrirætlanir fjelagsins liggi í lausu lofti, þá veit jeg ekki, hvaða sannanir menn vilja fá. Jeg tel, að fullkomlega sje nú staðfest tilgáta mín við upphaf umr. um þetta mál, sem sje, að fyrirætlanir Titans liggi alveg í lausu lofti. Það er engin áætlun til um það, til hvers nota eigi aflið, ekkert annað verkefni fyrir hendi en virkjunin. Það er í sjálfu sjer skiljanlegt, að í öðrum löndum þyki slík virkjun sem þessi álitlegt fyrirtæki og boðlegt að bjóðast til þess að leggja fram fje til slíks, þar sem önnur fyrirtæki eru til, sem geta notað orkuna, þegar rafstöðin er komin upp. En hjer er öðru máli að gegna. Hjer eru engin slík fyrirtæki til, sem geti notað rafmagnið nema að örlitlu leyti.

En af því leiðir, að þeir menn, sem leitað er til um fjárframlög til fyrirtækisins, spyrjast fyrir um það, hvaða líkur sjeu til þess, að stöðin geti borið sig, og til hvers eigi að nota orkuna. Jeg get ekki sjeð, að forgöngumenn þessa fyrirtækis geti bent á neitt, og þá verður ekkert úr framkvæmdum. Jeg veit nú, að mörgum mun ekki þykja það neitt agalegt, þó ekkert verði úr framkvæmdum í þessu máli, en það hefir þó þær afleiðingar í för með sjer, að framkvæmdir okkar stöðvast þann tíma, sem verið er að braska með þetta fyrirtæki. Jeg skal ekki neita því, að frv. er nokkru aðgengilegra eftir meðferð þá, sem það hefir fengið í hv. Ed., en eftir sem áður er þó sá höfuðgalli á því, að hjer er ekki um neitt „reelt“ tilboð að ræða, sem þingið geti forsvarað að samþykkja. Mjer þykir ekki líklegt, að fjármálamenn úti um heim fari að kasta fje í fyrirtæki norður á Íslandi, þegar þeir eiga kost á því að leggja fje í samskonar fyrirtæki nær sjer og þar sem líkurnar eru miklu meiri fyrir því, að þau beri sig. Það er talið líklegt, að helst sje hægt að nota orkuna til aluminiumframleiðslu í stórum stíl. En það eru ekki líkur fyrir því, að slík framleiðsla hafi skilyrði til að vera frekar arðberandi hjer en annarsstaðar, og er því ekki líklegt, að peningamenn úti um heim fari að kasta fje í fyrirtækið.

Annars gleður það mig, að nefndin hefir komist að þeirri niðurstöðu, að brtt. þær, er komu fram við frv. í Ed., væru til bóta. Því að ein brtt., sem samþykt var í Ed., var mjög svipuð brtt., sem jeg flutti hjer við 3. umr., en þá var nefndin og hæstv. atvrh. alveg á móti henni og sögðu, að af henni leiddi, að ekkert mundi verða úr framkvæmdum. (Atvrh. MG: Hvaða brtt. var það?). Það var viðbótartill. við 11. gr. Jeg get ímyndað mjer, að við nánari athugun hefði hæstv. stjórn komist að þeirri niðurstöðu, að fleiri af mínum brtt. væru til bóta. Því hefði verið æskilegt að fá tíma til að endurnýja þær. Annars eru mínar till. í þessu máli hinar sömu og áður, að jeg legg til, að frv. þetta verði felt. Er það í fyrsta lagi vegna þess, að jeg tel ófullnægjandi grein gerða fyrir því, að líkur sjeu til þess, að nokkuð verði úr framkvæmdum, og í öðru lagi, ef eitthvað verður úr framkvæmdum, þá sjeu þær þjóðinni stórhættulegar, og svo í þriðja lagi, að þó ekkert verði úr framkvæmdum og frv. því að því leyti meinlítið, þá tefur það um óákveðinn tíma aðrar líkar framkvæmdir, svo sem virkjun Sogsins og járnbrautarlagningu austur. Þá vil jeg einnig leiða athygli að því, að þó það sje skoðað þjóðþrifafyrirtæki fyrir landsins hönd að virkja vatnsföll, þá er hjer byrjað á dýrasta og óhentugasta vatnsfallinu, og því hlýtur landið að tapa á því, að þetta vatnsfall skuli virkjað. Það er fullyrt, að hestorkan hjer muni kosta um 50 kr., og mun það láta nærri kolaverðinu, en ef Sogið væri virkjað, þá mundi hestorkan kosta miklu minna. Hjer er því blátt áfram um sóun á fje þjóðarinnar að ræða með því að kaupa þetta dýra rekstrarafl, þegar kostur er á öðru ódýrara. Jeg er þakklátur þeim hv. þm., sem bera fram till. þess efnis að ná tökum á Soginu. Þar er stefnt í rjetta átt; það er ódýrt vatnsfall og er rjett að taka framkvæmdirnar í hendur landsmanna sjálfra. Þessar framkvæmdir eru svo mikils varðandi fyrir þjóðfjelagið, að jeg álít, að þær megi ekki vera í höndum útlendinga, sem ekki hafa sömu hagsmuna að gæta sem þjóðfjelagið.