27.04.1927
Neðri deild: 60. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2855 í B-deild Alþingistíðinda. (1974)

23. mál, járnbrautarlagning og virkjun Urriðafoss

Atv.- og dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Það kom ekkert nýtt fram í ræðu hv. 1. þm. Reykv. (JakM). Það voru alt fullyrðingar, sem hann hafði slegið fram áður. En af því að það gæti litið svo út, að hann hefði sannfært mig og aðra, ef honum væri ekki svarað, þá vil jeg segja nokkur orð. Þá vil jeg fyrst benda á það, að hann virðist vera hættur að halda því fram, að stórhætta stafi af þessu fyrirtæki, ef það kæmist í framkvæmd. Jeg hafði bent honum á, að það væri undarlegt að halda því fram í öðru orðinu, að fyrirtækið væri stórhættulegt, ef það kæmist í framkvæmd, en segja í hinu orðinu, að engar líkur væru á framkvæmdum. Þetta hefir hann nú fundið, og ræða hans snerist því mest um það nú að sýna fram á það, að ekkert gæti orðið úr framkvæmdum, vegna þess hvað málið væri illa undirbúið og vanhugsað. Jeg hefi sýnt fram á það áður, að þetta er ekki á rökum bygt. Háttv. þm. spyr, hvað fjelagið ætli að gera með orkuna. Frv. takmarkar það ekki; fjelagið má gera við hana hvað sem það vill; aðeins er það skyldað til áburðarframleiðslu að nokkru leyti. Þá er margbúið að taka það fram, að fjelagið ætlar að virkja smátt og smátt. Þá er vitanlegt, að fjelagið getur selt mikið af orkunni hjer og í sveitunum í kring. Hestaflið hjer í Reykjavík kostar 600 kr. á ári. En hjer fer hestorkan ekki fram úr 55 kr. eystra og mun verða um 100 kr. hingað komin. Hún er þá 6 sinnum ódýrari en hægt er að fá hana hjer í Reykjavík. En auk þess er það vitanlegt, að þessi orka er þrotin hjer og ekki hægt að fá rafmagn þegar ljósatíminn er lengstur. Það er enginn efi á því, að mikill markaður mundi verða hjer. Rafmagnsstjórinn segir, að notkun rafmagns til iðnaðar hafi vaxið um helming á ári hverju síðustu ár. Því, sem hv. þm. sagði um líkurnar fyrir áburðarvinslu, hefir hv. 1. þm. Rang. (KIJ) svarað. Það þarf ekki annað en benda á, að fjelagið er skylt til þess samkv. frv. Þá sagði hv. þm., að engra upplýsinga hefði verið leitað hjá innlendum sjerfræðingum. Jeg vil nú meina, að hæstv. forsrh. (JÞ) beri nokkurt skyn á þetta mál, að minsta kosti vil jeg leggja þekkingu hans á móti þekkingu hv. 1. þm. Reykv. (JakM). En annars mun hv. þm. sjálfsagt hafa átt við rafmagnsstjórann í Reykjavík. Jeg tel víst, að hans aðstoðar verði leitað við samningu sjerleyfisins; jeg sje ekki, að til hans þurfi að leita fyr. Hv. þm. má ekki ímynda sjer, að hinir útlendu menn, sem að þessu fjelagi standa, hafi ekki látið sína eigin sjerfræðinga rannsaka lífsmöguleika fjelagsins. Ef fjelagið er eins dauðadæmt og hv. þm. vill vera láta, — hvernig getur honum þá dottið í hug, að erlendir sjerfræðingar álíti möguleika til þess að fá fje í fyrirtækið? Hvaða peningamenn erlendis mundu þá vilja fást við það? Þessi aðferð hv. þm., að ætla sjer að gera sig að fjárhaldsmanni fjelagsins, er alveg mislukkuð. Peningamennirnir úti um heim munu sjá um sig; þeir þurfa ekki á hans ráðum að halda. Þeir munu ráðfæra sig við sína sjerfræðinga og taka meira tillit til þeirra en okkar sjerfræðinga. Jeg skil vel, að hv. þm. gengur á þetta lag til þess að reyna að afla sínum málstað fylgis og gera fjelagið tortryggilegt. Hann er nú hættur að tala um hættuna fyrir þjóðerni, tungu og fjárhagslegt sjálfstæði. Jeg skal ekki segja, hvort þessi aðferðin gefst betur, en jeg veit það, að hv. þm. notar þetta eingöngu vegna þess, að hann heldur, að hann komist lengra með þessu en með hjali sínu um þjóðernishættuna. Þá sagði hann, að frv. mundi valda drætti á járnbrautarmálinu. Þetta hefir verið marghrakið. Það þarf ekki annað en minna á það, að fjelagið á að hafa byrjað á járnbrautinni fyrir 1. maí 1929, og það er ekki hægt að telja nokkrum manni trú um, að byrjað verði að leggja járnbraut á ríkisins kostnað fyrir þann tíma. Það er því sýnt, að þetta er staðleysa ein. Hv. þm. þótti frv. hafa tekið breytingum til bóta í hv. Ed. En er hann fór að tala um, að brtt. við 11. gr., sem samþ. var í hv. Ed., hafi verið samhljóða brtt., sem hann bar hjer fram við 2. eða 3. umr., þá er það ekki rjett. Hans tillaga gekk miklu lengra. Annars er þessi brtt. hv. 1. þm. Reykv. — sem var feld fyrir honum hjer á dögunum — brot á stjórnarskránni. Að taka af mönnum eignir endurgjaldslaust, þó að ekki sje staðið við samninga, er alt annað en að greiða skaðabætur.

Með tilliti til ummæla háttv. frsm. (KIJ), þá verð jeg að álíta það, að ekki sje mikill munur á ákvæði 4. málsgr. 11. gr. frv. og því, sem er að finna í sjerleyfislögunum.

Þá var það ný ástæða hjá hv. 1. þm. Reykv. gegn frv., að þetta mál eins og það er á veg komið mundi verða til þess að tefja fyrir virkjun Sogsfossanna. Um það mál hefi jeg ekkert heyrt annað en það, sem kom fram í ræðu hjá hv. 4. þm. Reykv. hjer á dögunum, að Reykjavík mundi geta fengið lán til þessara framkvæmda. Jeg veit ekki, að staðið hafi til að byrja á virkjun Sogsfossanna, enda mun lítið sem ekkert hafa verið unnið að undirbúningi þess máls.

Annars finst mjer óþarft að ræða þetta mál öllu lengur. Það er kunnugt, að 2/3 hv. þdm. fylgja frv. fram, en 1/3 á móti, svo að langar ræður úr þessu hafa engin áhrif á úrslit málsins, enda vona jeg, að frv. verði að lögum þegar á þessum degi.